16.04.1985
Sameinað þing: 70. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4226 í B-deild Alþingistíðinda. (3583)

399. mál, staða skrifstofustjóra í félagsmálaráðuneytinu

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Það var ekki um að ræða einungis sjö ára starfsreynslu sem deildarstjóri. Það var auk þess um að ræða 13 ára starfsreynslu af dómarastörfum, þannig að það er um að ræða 20 ára starfsreynslu þarna móti 16 ára starfsreynslu á öðrum vettvangi.

Ég segi eins og hæstv. ráðh., það er ástæðulaust að fara að hártoga í sambandi við einstaklinga, en er löng reynsla af fjölbreyttum málefnum félmrn., er hún svona lítils virði í raun og veru? Er hún ekki þess verð að til hennar sé tekið tillit? Og vegna þess að talað var um verkefnaskiptingu þá væri mjög áhugavert að fá að vita hvernig verkefnaskipting er innan félmrn. og jafnvel annarra rn. Og hvernig er launað fyrir þau verkefni sem eru unnin? Hvernig er launað t. d. fyrir yfirvinnu? Ef ég man rétt þá var beðið um svar fjmrh. við fsp. Jóhönnu Sigurðardóttur um fylgirit með ríkisreikningi á s. l. þingi. Það var spurt: Hvernig skiptast eftirfarandi tveir liðir milli kynja skv. fjölda og fjárhæð í fylgiriti með ríkisreikningi fyrir árið 1982: a) föst yfirvinna og b) starfsmannabílar? Það kom í ljós — það voru reyndar fleiri spurningar — en það kom í ljós að það er langt yfir 90% sem rennur til karlmanna og minnstur hlutinn fer til kvenna. Í þessu tiltekna dæmi er um að ræða ekki einungis stöðuhækkun, heldur líka launahækkun. Ástæðan fyrir því að mjög margir deildarstjórar eru í rn. yfirleitt er einmitt ekki síst spurning um laun, þannig að það eru margföld réttindi sem um er að ræða sem stöðugt eru brotin á konum.