29.10.1984
Neðri deild: 7. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 584 í B-deild Alþingistíðinda. (361)

74. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Í tekjuskattslögunum 8. tölul. 30. gr. er ákvæði sem kveður á um að helmingur greiddra meðlaga, sem meðlagsskyldur aðili innir af hendi með barni til 17 ára aldurs, sé frádráttarbær frá tekjum til skatts. Þetta frv. felur í sér að meðlagsgreiðslur verði frádráttarbærar til 18 ára aldurs og ef um er að ræða framlengingu á framfærsluskyldu til 20 ára aldurs vegna menntunar eða starfsþjálfunar verði frádráttur einnig heimilaður til jafnlangs tíma.

Með leyfi forseta vil ég lesa þá stuttu grg. sem fylgir þessu frv.:

„Markmið þessa frv. er að samræma ákvæði barnalaga um framfærsluskyldu því ákvæði skattalaga sem kveður á um frádrátt meðlagsgreiðenda á helmingi greiddra meðlaga með barni.

Barnalögin voru samþykki á Alþingi 1. apríl 1981. Í þeim eru ákvæði um að lengja framfærsluskyldu meðlagsgreiðenda úr 17 í 18 ár, svo og það nýmæli að framfærsluskylda getur staðið til 20 ára ef þörf krefur vegna menntunar eða starfsþjálfunar barns.

Lögum um tekju- og eignarskatt, sem heimila meðlagsgreiðendum frádrátt frá skatti sem nemur helmingi greiddra meðlaga með barni til 17 ára aldurs, var þó ekki breytt til samræmis við þessa breytingu á framfærsluskyldu.

Það verður að teljast rétt og eðlilegt, þar sem löggjafinn hefur þegar samþykkt að helmingur meðlagsgreiðslna sé frádráttarbær frá skatti til 17 ára aldurs, að það ákvæði taki einnig breytingum til samræmis við lengri framfærsluskyldu.

Í þeim tilgangi er frv. þetta flutt.“

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu, nema tilefni gefist til, að hafa fleiri orð um þetta frv. og legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.