17.04.1985
Neðri deild: 58. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4317 í B-deild Alþingistíðinda. (3649)

274. mál, ávana- og fíkniefni

Frsm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Við höfum haft þetta mál til meðferðar í heilbr.- og trn. hv. deildar. Við erum sammála um að mæla með samþykkt frv. eins og það er lagt hér fram. Frv. fjallar um það að herða viðurlög gegn ólöglegum innflutningi og dreifingu ávana- og fíkniefna.

Þetta frv. á uppruna sinn frá starfshópi sem dómsmrh. skipaði í byrjun síðasta árs í samræmi við þáltill. sem samþykkt var á Alþingi 20. des. 1983 um skipulegar aðgerðir gegn ólöglegum innflutningi og dreifingu ávana- og fíkniefna. Þessi nefnd mun hafa skilað áliti snemma á s. l. vetri og meðal þess sem lagt er til er að viðurlög við brotum verði þyngd í allt að sex ára fangelsi. Benti starfshópurinn á að viðurlög skv. gildandi lögum um ávana- og fíkniefni geti mest orðið tveggja ára fangelsi og hafi þegar komið fyrir tilvik þar sem beita hefur þurft þeim allt að því til fulls. Þetta er í samræmi við þær aðgerðir sem löggjafarþing nágrannaþjóða okkar hafa verið að gera. Þau hafa hækkað sektir og lengt fangelsisvist fyrir brot á þessum lögum. Sérstaklega má benda á Noreg í þessu sambandi.

Við 1. umr. þessa máls komu fram fsp. frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur varðandi frekari störf þessarar nefndar og spurði hún m. a. um nokkur atriði sem hún taldi að þyrfti að gangast í að ráða bót á sem fyrst. Hæstv. dómsmrh. sagði í þeirri umr. að þessi starfshópur héldi áfram starfi og hefði fundi alltaf öðru hvoru og reyndi að samræma aðgerðir og beina þeim á þann veg sem árangursríkastur er. Þessi starfshópur er starfandi milli lögsagnarumdæma til þess að ná fram samræmdum vinnubrögðum.

Við meðferð málsins í hv. heilbr.- og trn. var tekið fyrir bréf sem barst frá dóms- og kirkjumrn., undirritað af Jóni Thors, sem vakti athygli okkar á því að í athugasemdum og í umr., sem hefðu orðið um þetta frv. til laga um breytingar á lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65 frá 1974, hefði ekki komið nægilega fram hver viðurlög væru skv. öðrum lögum. Þess vegna taldi hann rétt að rn. hans tæki fram og skýrði fyrir okkur í heilbr.- og trn. það sem hér fer á eftir og ég tel að eigi erindi til hv. þd. og þingsins í heild.

Hann bendir á í bréfi sínu að skv. 173. gr. a. almennra hegningarlaga frá 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64 frá 1974, sé refsing fyrir meiri háttar brot á lögum um ávana- og fíkniefni allt að tíu ára fangelsi. Skilyrði þess að 173. gr. a. sé beitt er að sannað sé að ávana- eða fíkniefni séu látin mörgum mönnum í té eða það sé gert gegn verulegu gjaldi eða á annan sérstaklega saknæman hátt. Sömuleiðis sæti hvers konar meðferð þessara efna sömu viðurlögum ef sannað er að tilgangurinn sé sá sami og lýst er að framan. Ákvæði laga nr. 65 frá 1974, sem við ræðum hér breytingar á, taka því, eins og segir í bréfi Jóns Thors, til allra annarra brota en þeirra sem lýst er í 173. gr. a.

Hann heldur áfram og segir í bréfi sínu: „Nauðsynlegt er því að viðurlög þeirra laga séu nægjanlega þung því að um verulegt brot getur verið að ræða án þess að sannaður verði sá tilgangur sem lýst er í 173. gr. a. almennra hegningarlaga.“

Með bréfi hans fylgdi svo skrá yfir tölu ákærðra manna árin 1977–1984 fyrir fíkniefnabrot sem aðalákæruefni. Fyrir brot á 173. gr. a. hegningarlaganna eru þau á árunum 1977–1984 samtals 20, en fyrir almenn fíkniefnabrot, brot á þeirri löggjöf sem við ræðum hér breytingu á, samtals 239 eða samtals 259 ákærur.

Herra forseti. Heilbr.- og trn. hv. deildar mælir með að frv. verði samþykkt óbreytt.