22.04.1985
Efri deild: 58. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4417 í B-deild Alþingistíðinda. (3702)

209. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Það var út af síðustu orðum hv. 5. þm. Norðurl. e. sem ég kom hingað upp til að segja nokkur orð.

Hann var að tala um þá breytingu sem í þessu frv. felst um að Verðlagsráð skuli í verðákvörðunum sínum stuðla að bættri meðferð. Mér finnst hann að ýmsu leyti efast um að slíkt gæti átt sér stað. Ég tel einmitt að sá þáttur þurfi að vera ríkari í verðákvörðun en verið hefur hingað til. Ég fagna því þessari ákvörðun og vil lýsa yfir stuðningi mínum við frv. Raunverulega er hér verið að laga áður góða löggjöf og löggjöf sem við þurfum að hafa hvað snertir verðákvörðun á fiski.

Ég bendi á að á undanförnum árum hefur sú ánægjulega þróun átt sér stað að með aukinni vinnu um borð í skipum, sérstaklega um borð í bátum, með því að setja fisk í kör, hefur fengist mikið betri meðferð á fiski og þar af leiðandi aukið verðmæti aflans. Í verðákvörðun hingað til hefur það ekki verið tekið til greina. Það hefur ekkert verið tekið til greina nema fullkomin kössun, ísun og slæging. Eins og hv. 8. landsk. þm. benti á hefur það verið gert með samkomulagi milli útgerðar og fiskvinnslu að bæta þarna við verði. Mér er kunnugt um það, þó að sú aðferð sé ekki notuð, að það sé laumast fram hjá skiptum. En þetta hefur ekki komið inn í verðákvörðun. Þess vegna fagna ég því að í frv. sem við erum að fjalla um hér er upp tekin nýbreytni og einmitt kannske til þess að viðurkenna aukið vinnuálag og meiri kostnað útgerðar í sambandi við meðferð á fiski. Sjálfsagt mætti taka ýmsa fleiri þætti til greina við fiskverðsákvörðun sem eðlilegt er og sjálfsagt að meta.

Það mætti ýmislegt segja í sambandi við oddamanninn og áhrif ríkisstj. á verðlagsákvörðun, en ég held að ég verði við óskum formanns sjútvn. Við skulum geyma það þar til við komum saman í nefndinni að spjalla um það.