23.04.1985
Sameinað þing: 73. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4493 í B-deild Alþingistíðinda. (3770)

395. mál, framleiðslustyrkir til kartöfluverksmiðja

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. svör hans en ég vek athygli á því að hann svaraði á mjög ófullkominn hátt síðasta lið fsp. sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Er þess að vænta að verð á unnum kartöflum til neytenda lækki sem nemur niðurgreiðslunni eða framleiðslustyrknum?“

Hæstv. ráðh. sagði aðeins að verðið hefði lækkað. En lækkar verðið á þessari vöru til neytenda um þær 18 millj. kr. sem varið er í þennan framleiðslustyrk sem búið er að koma á laggirnar í kjördæmi hæstv. ráðh. einkum og að mestu leyti og formanns Sjálfstfl.? Það kann að vera að mönnum finnist 18 millj. ekki vera mjög há upphæð. En mér þykir það há upphæð. Það er kannske ekki há upphæð í þeirri óráðsíu sem landbúnaðarstefna þessarar ríkisstj. er. Við skulum vera þess minnug að árið 1983, þegar kartöfluuppskeran brást, voru gerðar miklar ráðstafanir vegna kartöflubænda. Þeim voru útveguð veruleg lán fyrir milligöngu Bjargráðasjóðs og það voru gerðar sérstakar ráðstafanir vegna áburðarkaupa. Árið 1984, þegar uppskeran verður sú mesta í mörg ár, þarf líka að gera ráðstafanir til handa þessum atvinnurekendum upp á 18 millj. kr. sem koma beint úr vasa skattgreiðendanna. Í frjálsu hagkerfi, þar sem frjáls samkeppni fær að njóta sín, ætti svona lagað ekki að geta gerst. Hvað gerist í grannlöndum okkar þegar svipuð tilvik koma upp?

Hér er um að ræða verksmiðju sem bændurnir eiga sjálfir. Auðvitað ætti það að gerast að þeir lækkuðu verðið á kartöflunum til sinna eigin verksmiðja til þess að þær gætu selt meira. En hvað er gert? Þessir ágætu menn vita mætavel að stjórnarflokkarnir hér hafa komið upp og viðhalda landbúnaðarstefnu sem er sjálfsagt vitlausasta landbúnaðarstefna í víðri veröld. Og þeir vita að það er nóg að senda þingflokki Sjálfstfl. og framsóknar pöntun með beiðni um smávægilega aukna fyrirgreiðslu. Þá halda þessir tveir kerfisflokkar áfram að féfletta íslenska skattgreiðendur og neytendur í þágu þessara umbjóðenda sinna. Ég held í rauninni, herra forseti, að hér sé meiri háttar hneykslismál á ferðinni.

Því hefur verið borið við að íslenskir framleiðendur á frönskum kartöflum og soðnum kartöflum ættu erfitt með að keppa við innflutta vöru. Ef þær upplýsingar, sem mér hafa borist, eru réttar þá eru kartöflur af þessu tagi komnar inn fyrir íslenska tollmúra, búnar að hækka um 314% frá útflutningsverðinu. Þ. e. ef fob-verð er 1000 kr. þá er flutningskostnaðurinn kringum 400 og tryggingarkostnaður 10, samtals 1410 kr. síðan kemur 70% tollur, 30% vörugjald, tollafgreiðslugjald o. fl., þannig að þessar 1000 kr., sem varan upphaflega kostaði, eru orðnar 3147 kr. þegar hún er komin hér inn á markað. Og ef menn geta ekki keppt innan svona tollmúra þá vakna ýmsar spurningar sem ástæða er til að spyrja.

Þetta litla dæmi og þessar 18 millj. sem Framsfl. og Sjálfstfl. hafa ákveðið að reiða af höndum fram úr vösum íslenskra skattborgara og rétta eigendum þessara kartöfluverksmiðja er auðvitað reginhneyksli. Hvar eru nú talsmenn hinnar frjálsu samkeppni í Sjálfstfl.? Hvar er nú formaður Sjálfstfl. sem talaði um frelsið á landsfundi? Hvar er varaformaður Sjálfstfl.? Ætli það sé tilviljun að þeir eru báðir fjarstaddir þessa umræðu? Svarið við því er nú býsna áleitið. Hvað segja þessir postular frelsis og frjálsrar samkeppni um það sem hér hefur gerst, þær 18 millj. sem teknar hafa verið úr vösum skattborgara og lagðar á silfurfati til eigenda þessara verksmiðja? Í frjálsu hagkerfi, eins og ég sagði hér áðan hefðu eigendur þessara verksmiðja, sem jafnframt eru eigendur framleiðsluvörunnar, auðvitað lækkað verðið til sinna verksmiðja. Hvað segir hæstv. fjmrh. um þetta? Eru þetta aðgerðir sem eru Sjálfstfl. að skapi eða er Sjálfstfl. sokkinn svo í fen fyrirgreiðslupólitíkur Framsfl. að hann má sig hvergi hræra? Það væri fróðlegt að heyra hvað forustumenn flokksins segja um þetta. (Forseti hringir.) Ég skal nú láta máli mínu lokið, herra forseti, en ég skora á talsmenn Sjálfstfl., talsmenn frjálsrar samkeppni, að koma og skýra frá því hér hvort þessar 18 millj. og þetta hneyksli er þeim að skapi.