23.04.1985
Sameinað þing: 73. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4498 í B-deild Alþingistíðinda. (3780)

400. mál, Kolbeinsey

Fyrirspyrjandi (Stefán Guðmundsson):

Herra forseti. Ég þakka forsrh. fyrir svör hans. Ég þóttist í sjálfu sér hafa grun um að ekki hefði mikið verið gert í þessu máli. En vegna þess að forsrh. nefndi hér tölur vil ég aðeins til upplýsinga fyrir þm. fara með aðrar tölur, ef þeir hefðu á annað borð áhuga á því að hér verði eitthvað gert og skilja nauðsyn þess. Fyrir mér vakir það fyrst og fremst að koma upp einhverjum mannvirkjum á Kolbeinsey, t. d. sjómerkjum. Á þann hátt styrkjum við okkar stöðu mjög mikið í baráttunni um að halda Kolbeinsey inni sem grunnlínupunkti til þess að stækka okkar fiskveiðilandhelgi. En eins og við vitum hafa Danir alltaf verið með fyrirvara þar um. Það er rétt og það sannast einmitt á Kolbeinsey að dropinn holar steininn. Þar hafa heljaröfl hafs og ísa haft betur í fangbrögðum sínum. Elstu mælingar sem ég veit um af Kolbeinsey eru trúlega frá árinu 1580. Þá lét Guðbrandur Þorláksson biskup á Hólum menn sína fara út að Kolbeinsey. Þeir mældu eyjuna og ég bið menn nú að taka eftir. Eyjan reyndist vera frá norðri til suðurs um 753 metrar og frá austri til vesturs 113 metrar og hún var 113 metrar á hæð. Árið 1932 var eyjan næst mæld eftir því sem ég kemst næst. Þar munu Húsvíkingar hafa verið á ferð, menn þaðan voru fengnir til að fara út í Kolbeinsey. Þá reyndist eyjan vera orðinn 113 metrar frá norðri til suðurs og 75 metrar frá austri til vesturs og hæðin var þá 10 metrar. Síðustu mælingar á Kolbeinsey sem ég veit um eru frá árinu 1978 og voru framkvæmdar af Landhelgisgæslunni. Þá var eyjan orðin frá norðri til suðurs 37.7 metrar, frá ljós til vesturs 42.8 metrar.

Þessar mælingar segja okkur merkilega sögu. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að það skiptir máli hvað það kostar og hvort það er raunverulega mögulegt að bjarga þessari klettaeyju. Það er ljóst að það er fyrst og fremst hafísinn sem er að brjóta hana niður. Hafísinn liggur mjög á eyjunni og nagar hana stöðugt.

Ég bið þess nú að þetta mál verði ekki látið sofna. Ég bind vonir við það einmitt núna, vegna vaxandi sóknar skipa t. d. til loðnuveiða á þetta hafsvæði. Eftir að eyjan hefur lækkað svo mjög er hún orðin mjög hættuleg skipum. Og þess vegna meðal annars er það brýnt að koma þar upp þó ekki væri nema sjómerkjum.