23.04.1985
Sameinað þing: 73. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4506 í B-deild Alþingistíðinda. (3793)

410. mál, lækningarmáttur jarðsjávar við Svartsengi

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Á árinu 1981 hafði psoriasissjúklingur frumkvæði að því að kanna sjálfur hvort böð í heitum jarðsjó við Svartsengi hefðu áhrif á sjúkdóm hans. Árangur þótti lofa það góðu að mál þetta kom til umr. á Alþingi árið 1981 og aftur á árinu 1982, en þá var samþykkt þáltill. þar sem heilbrrh. var falið að láta fara fram könnun á lækningamætti jarðsjávar við Svartsengi. Áður hafði rn. ritað landlækni og óskað eftir að hann annaðist rannsóknir á lækningamætti hitaveituvatns í lóninu við Svartsengi. Ekki tókst þá að gera könnun sem væri marktæk um lækningamátt. Landlæknisembættið gerði á árinu 1983 áætlun um könnun sem gæti sýnt fram á að þarna væri um lækningamátt við psoriasis að ræða og leitaði rn. eftir aukafjárveitingu til að gera þessa rannsókn og fékkst hún. Þegar til átti að taka reyndist hins vegar ekki kleift að gera rannsóknina eins og landlæknisembættið hafði hugsað sér vegna ófyrirséðra aðstæðna, þ. e. mjög lítillar þátttöku í rannsókninni. Þannig tókst ekki að framkvæma samanburðarrannsókn á tveimur hópum psoriasissjúklinga eins og landlæknisembættið hafði lagt til.

Þar sem fyrirsjáanlegt er að ekki tekst að framkvæma rannsókn á lækningamætti Bláa lónsins við Svartsengi eins og til var ætlast hefur orðið að samkomulagi á milli rn. og landlæknisembættisins að gera aðra tilraun með annarri og einfaldari rannsóknaraðferð og hefur þegar verið rætt við fulltrúa Samtaka psoriasis- og exemsjúklinga og eru samtökin reiðubúin til að aðstoða við framkvæmd rannsóknarinnar. Skv. rannsóknaráætlun, sem landlæknisembættið hefur gert, er kostnaður áætlaður rúmar 200 þús. kr. og takist að afla þess fjár, sem rn. mun kappkosta, ætti að vera hægt að hefja rannsóknina á komandi sumri.