30.04.1985
Sameinað þing: 76. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4610 í B-deild Alþingistíðinda. (3901)

411. mál, hvalveiðar

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það furðulega gerðist á hv. Alþingi að svo hugdeigt lið reyndist vera hér innan veggja á sínum tíma að menn ákváðu að mótmæla ekki samþykkt Alþjóðahvalveiðiráðsins. Nú er það svo að það er með ýmsu móti sem menn vilja vinna sér vinsældir erlendis og í þessu tilfelli var verið að reyna að þóknast náttúruverndarmönnum. En þeir hafa nú fundið upp á því að leggja það að jöfnu hvort menn ætla að veiða seli eða hvali. Þess vegna hlýtur það að vera úrslitaatriði að hæstv. sjútvrh. geri það upp við sig hvort hann telur að hætta beri þá selveiðum einnig til að þóknast þessum sömu aðilum. Það liggur alveg ljóst fyrir að þeir hafa ákveðið að vinna gegn hverri þeirri þjóð sem stundar hvalveiðar og selveiðar eða þó hún stundi aðeins selveiðar og engin sérstök áætlun um það af þeirra hendi að hlífa þeim frekar þó þeir stundi aðeins annan veiðiskapinn.

Ég fel þess vegna að rök þeirra manna sem þannig stóðu að hlutunum á sínum tíma séu gjörsamlega fallin og þeir verði að endurskoða sína afstöðu. Það er tómt mál að tala um einhverja framtíð í hvalveiðum þegar menn hafa ákveðið að afsala sér því valdi sem Íslendingar hafa í hendur erlendra aðila á þessu sviði. Þarna standa fyrst og fremst á bak við heildarhagsmunir kjötframleiðsluríkja heimsins varðandi sölu á landbúnaðarafurðum. Bandaríkjamenn stefna að því að jafna viðskiptakjör við Japan með því að selja þeim kjöt og telja að sjálfsögðu að það auðveldi þeim leikinn ef hvalveiðar verða niður lagðar. — Hitt væri öllu meira til manndóms fyrir Alþingi Íslendinga ef það mannaði sig upp í það að taka þá afstöðu að leggja til að við segðum okkur úr hvalveiðiráðinu og tækjum þessi mál í eigin hendur, minnugir þess hins forna að utanstefnur viljum við engar hafa.