30.04.1985
Neðri deild: 62. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4640 í B-deild Alþingistíðinda. (3949)

455. mál, nýsköpun í atvinnulífi

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. hefur nú mælt fyrir þremur stjfrv. sem lengi hefur verið beðið eftir. Það eru frv. til l. um þátttöku ríkisins í hlutafélagi til að örva nýsköpun í atvinnulífi o. fl., það er frv. til l. um Framkvæmdasjóð Íslands og það er frv. til l. um Byggðastofnun. Jafnframt hefur verið lögð hér fram brtt. á þskj. 806 þar sem hv. þm. Alþb. í Nd. leggja til að heimili og varnarþing hlutafélagsins verði á Akureyri og má vera að þegar upp er staðið verði það að skoðast sem merkasta till. af þessum þremur sem nú hafa verið nefndar.

Það var laukrétt sem hv. 3. þm. Reykv. sagði í umr. í sinni ræðu um þessi mál að hinni umdeildu stofnun, sem heitir og hét Framkvæmdastofnun ríkisins og stofnsett var árið 1971 sem eitt af fyrstu verkum vinstri stjórnar þá, hefur nú skv. frægum lögmálum Parkinsons verið skipt upp í fernt, þ. e. í sérstakan Framkvæmdasjóð, sérstakan Byggðasjóð, í sérstakan nýsköpunarsjóð og reyndar ef af verður í eignarhaldsfyrirtæki ríkisins sem að vísu eftir ábyrgum heimildum úr innsta hring stjórnarliða verður aldrei til. Hvort þetta breytir einhverju sem máli skiptir í efnahagsstjórn og fjárfestingarpólitík, það eiga menn nú eftir að sjá.

Ef við lítum á þessi mál —og þau eru rædd hér í einu — þá er fyrst það að segja að mér sýnist í fljótu bragði að frv. til l. um Framkvæmdasjóð Íslands sé nafnbreyting. Framkvæmdastofnun ríkisins hefur verið ekki aðeins umdeild heldur á margan hátt táknræn fyrir það pólska ríkisforsjárkerfi í atvinnu- og efnahagsmálum sem hér hefur risið að frumkvæði og undir handleiðslu framsóknarmanna í þremur stjórnmálaflokkum. seinustu árin hefur þessi stofnun gegnt því hlutverki fyrst og fremst að vera viðbótarlánasjóður til pólitískrar skömmtunarstjórnar. Lánin hafa verið af stærðargráðunni frá 50 upp í 200 þús. og verið viðbótarlán við lán úr bankakerfinu, löngum með sérstaklega vægum lánskjörum.

Stofnunin hefur engan veginn risið undir því nafni að vera nein byggðastofnun. Þarna er að vísu mikill herskari manna sem stundar skrifborðsvinnu og semur skýrslur. Þær eru stundum birtar en þær rykfalla jafnan í skúffunum aftur. Hún vinnur ekki eftir neinni fyrirframgerðri áætlun, hún fylgir ekki slíkum áætlunum eftir. Að sumu leyti má segja að þetta sé eins konar atvinnubótastofnun fyrir félagsfræðinga og viðskiptafræðinga. Það er opinbert leyndarmál að þarna eru menn í stórum stíl áskrifendur að kaupinu sínu og væri fyrsta hagræðingarráðstöfunin að miða við umfang starfa sem þarna eru unnin og fækka starfsliði verulega. Ég fæ ekki séð að frv. til l. um Framkvæmdasjóð Íslands breyti neinu í þessu efni.

Að því er varðar frv. um Byggðastofnun þá er það líka mestan part nafnbreyting. Við höfum allt aðrar hugmyndir, jafnaðarmenn, um það hvernig standa eigi að byggðastefnu. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að hér sé engin byggðastefna rekin og hafi ekki verið lengi. Á sínum tíma, reyndar á 104. löggjafarþingi árið 1981, fluttu þm. Alþfl. hér í þessari hv. deild frv. til l. um mörkun byggðastefnu og gerð byggðaþróunaráætlana. Aðalatriði þeirrar stefnumótunar var þetta:

Í fyrsta lagi að Byggðastofnunin yrði deild í rn. félagsog sveitarstjórnarmála þar sem við teljum að hún eigi eðlilegastan samastað, áætlanir um íhlutun ríkisvaldsins að því er varðar byggðaþróun væru best komnar þar. Þetta er þáttur af sveitarstjórnarpólitíkinni.

Í annan stað var þeirri skoðun lýst og sú stefna mörkuð að eðlilegt væri að fjárveitingar, sem kynni að þurfa að verja í þessu skyni, þ. e. til byggðarlaga sem af einhverjum ástæðum þyrftu sérstakrar aðstoðar við, t. d. vegna árstíðarbundins eða viðvarandi atvinnuleysis, vegna langvarandi fólksfækkunar eða vegna þess að félagslegri aðbúð væri á annan hátt verulega ábótavant eða ef mönnum sýndist svo að rétt væri að marka þá stefnu að reyna að byggja upp dálítið öflugan þjónustu- og menningarkjarna í hverjum landsfjórðungi, skyldu ákveðnar af Alþingi á fjárlögum. Þær fjárveitingaáætlanir væru þá lagðar fyrir Alþingi og þær rökstuddar á grundvelli ítarlegra áætlana og þeim fylgt eftir þannig að eitthvert verulegt gagn yrði að slíkri stefnumótun.

Þá er rétt að vekja athygli á því að að því er varðar byggðastefnu hefur Alþfl. fyrir sitt leyti mótað allt annars konar og miklu róttækari stefnu í þeim málum. Það var gert á flokksstjórnarfundi Alþfl. á Akureyri í s. l. mánuði þar sem samþykkt var einróma stefnuyfirlýsing um það mál og settur upp starfshópur til að vinna það mál nákvæmlega í frumvarpsform. Kjarni þessarar hugmyndar er sá að ef við viljum auka vald landsbyggðarinnar og þess fólks sem þar býr yfir sínum eigin málefnum þurfum við að gera róttæka skipulagsbreytingu á stjórnkerfinu og skapa hér nýjar stjórnsýslueiningar í sveitarstjórnarmálum sem væru fylki eða fjórðungar sem fengju verulegt vald í sínar hendur.

Það má merkilegt heita að flestar þær stjórnsýslustofnanir ríkisins sem mestu ráða um málefni landsbyggðarmanna, jafnt sveitarstjórnarmanna sem annarra, eru saman komnar hér í Reykjavík. Allt þetta viðamikla bákn, allt þetta viðamikla kerfi stjórnmálamanna og embættismanna í þeirra þjónustu er hér saman komið. Okkar hugmyndir eru í þá átt að færa þetta vald í auknum mæli í hendur þeirra sem eru þolendurnir, hafa staðarþekkinguna og eiga að lokum að bera ábyrgðina.

Þessar hugmyndir eru ekkert sérstaklega frumlegar. Þær hafa lengi verið til umr. í íslensku þjóðfélagi. Þær voru settar fram með mjög skipulegum hætti í umr. sem áttu sér stað fyrir stofnun lýðveldisins 1944 í ýmsum lærðum tímaritsgreinum þá og reyndar síðar, sérstaklega á fjórðungsþingi Austfirðinga sem gerði ítarlegar samþykktir og ályktanir og hélt reyndar úti sérstöku tímariti um skeið, Gerði, til þess fyrst og fremst að rökstyðja nauðsyn slíkra breytinga á stjórnarskrá og stjórnskipan lýðveldisins.

Aðalatriðin eru að í stað hinna u. þ. b. 220 sveitarfélaga, sem eru of mörg og of smá og of burðarlítil til framkvæmda til að geta veitt sambærilega þjónustu við höfuðborgarsvæðið, komi til nýjar stjórnsýslueiningar sem eru fylki eða fjórðungar. Það er álitamál og samningsatriði hvernig þessum fjórðungum verði fyrir komið, hvort þar verði fylgt núv. kjördæmaskipan, hvort tekin verði upp gamla fjórðungaskipanin eða hvort gera þurfi þar ýmsar breytingar með tilliti til staðhátta og samgangna. Aðalatriðið er að þessar nýju stjórnsýslueiningar fái í hendur meira vald, að kjörið verði með lýðræðislegum hætti í stjórnir þeirra, til fylkisþinga eða fylkisstjórna, að fylkin fái sjálfstætt skattlagningarvald, að gert verði hreint borð að því er varðar tekjustofna annars vegar fylkjanna og hins vegar miðstjórnarvalds ríkisins og í þriðja lagi að gert verði hreint borð að því er varðar verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

Eitt þýðingarmesta atriðið er að að því verði stefnt í þessari stjórnskipun að saman fari ákvörðunarvald, framkvæmd og fjárhagsleg ábyrgð þegar fylkjunum eru fengin sérstök verkefni. Við tökum undir það sjónarmið sem lengi hefur verið í umr. að æskilegt væri að svo róttæk breyting á stjórnskipan og sveitarstjórnarskipan væri ákvörðuð með breyttri stjórnarskrá og tökum undir það sjónarmið að eðlilegast væri að ljúka því verki með því að kjósa sérstaklega til stjórnlagaþings. Þá vekjum við athygli á því að kannske væri þýðingarmesta breytingin á byggðastefnu sú að ákveða róttækar breytingar á þeim aðferðum sem við höfum á skráningu á gengi krónunnar og á því stofnanavaldi sem nú ræður mestu um gjaldeyrisverslun. Þessu má lýsa á einfaldan máta á þann veg að ef útflutningsfyrirtæki okkar, sem mörg eru mjög öflug á landsbyggðinni, fengju aukið vald til að selja þann gjaldeyri sem þau afla á erlendum markaði á réttu markaðsverði mundu vandamál í sjávarútvegi verða stórum minni en við er að fást nú og þörfin fyrir svokallaða byggðastefnu miklum mun minni en nú, þ. e. byggðastefnu í þeim skilningi að þar eigi menn við úthlutun pólitísks skömmtunarvalds á einhverjum ölmusum til baka til landsbyggðarinnar í staðinn fyrir það fjárstreymi sem nú á sér stað frá landsbyggðinni í gegnum ríkisbáknið, verslunina, þjónustuna, samgöngurnar o. s. frv.

Mér sýnist að frv. til l. um Byggðastofnun taki ekkert á þessum vandamálum. Það er raunverulega sami grauturinn í sömu skálinni. Þetta er nafnbreyting fremur en efnisbreyting. Af því tilefni er kannske sérstaklega ástæða til að minna hv. framsóknarmenn sem hér kunna að vera í deildinni á athyglisverða grein eftir nestor þeirra framsóknarmanna, hv. fyrrv. þm. og elsta ritstjóra á heimsbyggðinni, Þórarin Þórarinsson, en hann skrifaði þann 19. apríl s. l. mjög athyglisverða grein sem heitir „Stjórnkerfi Bandaríkjanna grundvallast á öflugri byggðastefnu. Getur það ekki orðið Íslendingum til fyrirmyndar?“ Ég vek athygli framsóknarmanna á þessari merku grein. Ritstjórinn er þarna að rifja upp hugmyndir þær sem ég var að lýsa og hafa verið settar fram allt frá því áður en lýðveldið var stofnað þar til nú þegar landsbyggðarmenn í stórum stíl eru að sameinast um þær hugmyndir, enda búnir að stofna samtök í heilum landsfjórðungum til að vinna að framgangi slíkra hugmynda. (ÓÞÞ: Á þá framsókn orðið fylgi innan Alþfl.?) Sú var tíð, hv. skrifari, að stofnendur beggja þessara flokka ætluðust til að það væru forsendur fyrir samstarfi Bændaflokks sveitanna og Alþýðuflokks öreiganna á mölinni. En eftir að sú myndbreyting varð á hugsjónaflokki Jónasar frá Hriflu að hann umhverfðist í íhaldssamasta kerfisflokk landsins og breyttist í pólitískt verkfæri forstjóraveldisins SÍS, sem gerir út á skattgreiðendur, þá hafa forsendur fyrir slíku samstarfi verið á tæpasta vaði seinustu áratugina. (ÓÞÞ: Hefur þá ritstjórinn ekki haldið mönnum við rétta stefnu?) Ef átt er við ritstjóra Tímans þá hefur honum greinilega ekki tekist það.

Þá er spurningin um hvert gildi sé fólgið í frv. til l. um þátttöku ríkisins í hlutafélagi til að örva nýsköpun í atvinnulífi. Guð láti nú gott á vita að það verði eitthvað að nafninu til. Á þessu stigi málsins er ekki mikið um það að segja. Hér er sett á blað í lagatexta að ríkisstj. ætli að taka erlend lán. Síðan eru settar ákveðnar reglur um það hvernig þessum lánum eigi að verja. Allt í allt getur hér verið um að ræða erlendar lántökur upp á 40 millj. á þeim kjörum sem nú eru fáanleg á erlendum fjármagnsmörkuðum og með þeirri áhættu sem því fylgir að taka væntanlega dollaratengd lán miðað við veikar undirstöður gengis íslensku krónunnar. Hversu margir þeir aðilar verða, sem verða ginnkeyptir til þess að taka slík lán eða geta staðið undir þeim ávöxtunarkröfum sem slík lán leggja nýjum fyrirtækjum á herðar, verður ekki sagt fyrir fram þó að líkindin séu kannske ekki allt of góð.

Svo er að skilja að menn geri sér vonir um að einkaaðilar vilji leggja fram eitthvert hlutafé í þessum félagsskap. Flestum mönnum, sem telja sig til þekkja, ber þó saman um að ekki verði það mikið enda er hér gert ráð fyrir því að ríkið geti líka tekið lán til að endurlána þeim sem vilja leggja fé í fyrirtækið ef þeim kynni að verða fjár vant. Þá getur það auðvitað verið álitleg aðferð fyrir skjólstæðinga kerfisins að tryggja sér með mjög litlu hlutafjárframlagi, sem fengið væri að láni, aðild að þessum stóra sjóði, enda skilst mér að þetta hafi verið þó nokkurt bitbein milli stjórnarflokkanna.

Spurningin er: Er þetta líklegt til að verða veruleg lyftistöng fyrir vaxtargreinar í atvinnulífi á Íslandi? Er það allt og sumt sem við þurfum, forganga ríkisins um stórfelldar nýjar erlendar lántökur? Eða er einhverra annarra nýrra leiða að leita og er það eitthvað annað sem við þurfum að breyta í okkar efnahagsstjórn áður en við getum gert okkur vonir um að koma traustum stoðum undir vaxtargreinar í íslensku atvinnulífi? Ég held að þetta einfalda svar, „Tökum meiri erlend lán“, sé ekki nóg.

Ef spurt er: Hver er stefna ykkar jafnaðarmanna varðandi hlutverk ríkisvalds, stjórnvalds, stjórnmálamanna og atvinnulífsins hins vegar verður svarið eitthvað á þessa leið: Við teljum að það sé skylda ríkisstj. að reyna að skapa atvinnulífinu umgjörð, ramma, sem það getur starfað eftir án beinnar íhlutunar ríkisvaldsins. Hvað eigum við við? Þýðingarmesta hlutverk stjórnmálamanna er að móta stefnu og þá fyrst og fremst stefnu í efnahags- og atvinnumálum. Markmiðið er fyrst og fremst að reyna að skapa stöðugleika í íslensku efnahagslífi, draga úr sveiflum, halda verðbólgu í skefjum, efla innlendan sparnað, koma í veg fyrir að framleiðslukostnaður innanlands eða fjármagnskostnaður geri íslenskar atvinnugreinar eða íslensk útflutningsfyrirtæki ósamkeppnisfær. Sérstaklega er sá punktur kannske þýðingarmikill þegar kemur að vaxtargreinum atvinnulífsins sem fyrst og fremst verða að leita sér markaða erlendis.

Hins vegar höfum við ákaflega litla trú á beinni íhlutun ríkisvaldsins, beinum ríkisrekstri, nema í undantekningartilvikum. Við höfum ákaflega litla trú á því að embættismannakerfið og rn. geti rekið bisness og teljum það reyndar hvorki vera hlutverk stjórnmálamanna né embættismanna. Við lítum svo á að hlutverk ríkisvaldsins sé þýðingarmikið í blönduðu hagkerfi og lýðræðislegu þjóðfélagi en það eigi um leið að vera mjög afdráttarlaust takmarkað.

Ef við spyrjum hvernig núv. hæstv. ríkisstj. hafi tekist að skapa íslensku atvinnulífi starísgrundvöll skv. þessum grundvallarsjónarmiðum þá er það fljótsagt að það hefur ekki tekist vel. Það hefur reyndar tekist hörmulega. Hver er meginástæðan fyrir því? Meginástæðan fyrir því er sú framsóknarheimspeki sem hér hefur verið öllu ráðandi í stjórn efnahagsmála s. l. hálfan annan áratug og byggist á blindri og gagnrýnislausri trú á ríkisforsjá og endar í embættismannabákni sem er meira og minna ófært um að sinna verkefnum eða halda kostnaði í skefjum eða reka hluti þannig að skynsamlegt geti talist.

Framkvæmdastofnun ríkisins er reyndar tákn um þessa stefnu. En afleiðingarnar blasa við. Fáir hafa gert því betri skil en sá margívitnaði og rómaði hagfræðingur Vinnuveitendasambandsins og helsti ráðgjafi 1. þm. Suðurl. þegar hann dregur niðurstöðurnar af þessu ríkisforsjárkerfi, þessu pólitíska skömmtunarkerfi fjárfestingar, saman með þeim hætti að hann sagði: Ef öll þessi erlendu lán, sem tekin hafa verið á þessu tímabili, hefðu skilað okkur lágmarksarði, þ. e. ekki minni arði en þau gerðu áratugina á undan, þá værum við núna 25 milljörðum kr. ríkari en við erum í dag, en sú upphæð jafngildir fjárlögum ríkisins á ári og tæplega þriðjungi af okkar þjóðarframleiðslu. Þetta er mælikvarðinn á þau mistök í fjárfestingarstjórnun sem rekja má beint eða óbeint til þessa pólitíska skömmtunarkerfis, til þessa ríkisforsjárkerfis sem framsóknarmenn í þremur flokkum hafa yfirleitt verið sammála um að hrófla hér upp á undanförnum árum. Þetta er stærsta einstaka skýringin á því að Íslendingar hafa allt frá árinu 1978 dregist hraðfara aftur úr nágrannaþjóðum sínum í lífskjörum.

Af þessari skuldasúpu til langs tíma er langalvarlegust skuldabyrðin sem á okkur hvílir í orkugeiranum, einhvers staðar á bilinu 25–30 milljarðar kr. Þaðan er dæmisagan ljótust, þ. e. þarna hefur þetta pólitíska forsjárkerfi haldið áfram að taka lán, skeytt engu um þá áhættu eða um þá greiðslubyrði sem þessi lán legðu okkur á herðar, gleymt með öllu að hugsa til þess hvar markaðurinn væri sem ætti að standa undir þessari lánabyrði og afleiðingarnar orðið þær að lokum að við sitjum uppi með hæsta orkuverð í heimi. Þjóð, sem situr á auðvirkjanlegum orkuauðlindum, situr vegna þessarar fáránlegu óstjórnar uppi með orkuverð sem er hærra en hjá nágrannaþjóðum sem eru orkusnauðar og verða að framleiða sína orku annaðhvort með kolum og olíu eða flytja hana inn.

Þannig mætti lengi rekja dæmin af þessari dapurlegu stefnu. Ef leita ætti samanburðar einhvers staðar erlendis mætti helst líkja þessari reynslu okkar við reynslu Pólverja og ófarnað þeirra á undanförnum árum. Það virðast nefnilega vera ákaflega svipaðar grundvallarhugmyndir um efnahagsmál og efnahagsmálastjórn ríkjandi í miðstjórn Framsóknarflokkanna hér og í miðstjórn pólska kommúnistaflokksins. Draumur Pólverja var sá að hægt væri á þessu tímabili að verða sér úti um með tiltölulega auðveldum hætti mikið af erlendum lánum og það kom á daginn að kapítalistar vesturþýskir og allra þjóða voru ákaflega örlátir á lán. Það var allt í tengslum við austurpólitíkina og vonina um það að Austur-Evrópumarkaðurinn opnaðist fyrir vestur-evrópskt kapítal. Lánin voru því auðfengin og þau voru tekin í stórum stíl. Síðan komu embættismenn, kommissarar, kerfiskarlar þessa lokaða pólska kerfis og settust við teikniborðin og teiknuðu einhver lifandi ósköp af verksmiðjum. Það voru byggðar verksmiðjur um allt Pólland fyrir erlend lán og þær áttu síðan að framleiða vörur sem hægt var að selja fyrir erlendan gjaldeyri á erlendum mörkuðum til að standa undir öllum þessum lánum.

Hvað var það sem brást? Það sem brást var fyrst og fremst kerfið sjálft. Kunnáttuleysi þessara embættismanna til að reka bisness kom þeim á kaldan klaka. Til þeirra hluta kunna þeir ekki nokkurn skapaðan hlut. Þeir voru engan veginn menn til að rísa undir afleiðingum af þessum lánaákvörðunum sínum. Þeir kunnu hvorki til verka sem tæknimenn né fjármálamenn. Kerfið þýddi að sú vara, sem framleidd var, var allt of dýr til að standast verðsamanburð á erlendum mörkuðum. Tækninni var áfátt að því leyti að gæðin stóðust engan samanburð. Niðurstaðan varð því sú að uppi stóðu menn með hálfkaraðar eða jafnvel fullbúnar verksmiðjur sem framleiddu eitthvað sem engar markaðslegar forsendur voru fyrir og uppgötvuðu það að lokum að Pólland var sokkið í skuldir og lífskjör Pólverja veðsett næstu 20 árin. Einmitt draumurinn um það sem átti að endurreisa pólskt efnahagslíf varð að þeirri martröð sem endaði í herlögunum og valdatöku Jarucelskis.

Þetta er kannske ljótasta dæmið úr nýliðinni sögu um ófarnað þessarar stefnu. Ég ætla ekkert að ýkja það og ekkert að slá því föstu að svo illa sé fyrir okkur komið. En ég ætla heldur ekkert að draga úr því að það er ákaflega illa fyrir okkur komið. Þegar svo er komið að við skuldum til langs tíma 65% af okkar þjóðarframleiðslu, þegar tveir fiskar af hverjum fjórum fara í að standa undir afborgunum og vöxtum af þessum dýru erlendu lánum og þegar fram undan blasir að við getum ekki komið þeirri orku, sem við höfum þegar virkjað, í verð og við erum engu nær um það yfirleitt að íslenskt atvinnulíf geti risið undir þeim ávöxtunarkröfum þessa erlenda fjármagns sem um er að ræða, þá er sannleikurinn sá að vandamálin fram undan eru hrikalega alvarleg.

Ég spurði áðan: Hvernig hefur þetta kerfi gefist? Hefur stjórnarfar af þessu tagi tryggt íslenskum atvinnuvegum vaxtarskilyrði? Lítum á landbúnaðinn. Það þarf ekki að hafa mörg orð um hann. Honum er haldið uppi að verulegu leyti með millifærslum, teknum frá skattgreiðendum, jafnvel í þeim mæli að við erum að henda 600 millj. kr. í matargjafir til ríkra útlendinga á sama tíma og lífskjör fólks hér eru komin niður á hungurstig. Lítum á það sem fram undan er þar.

Á næstunni mun Alþingi taka til við að ræða nýtt frv. til l. um Framleiðsluráð landbúnaðarins. Ég er ekki vanur að láta mér verða hverft við þegar ég sé plögg af þvílíku tagi út úr þessu kerfi en ég verð að segja að ég varð fyrir hrikalegum vonbrigðum. Það er eins og mennirnir hafi ekkert lært og engu gleymt. Áfram er haldið að hrófla upp steindauðu, óskilvirku, dýru bákni sem á að sitja áfram yfir hlut jafnt neytenda sem bænda og stjórna öllu. Það er engin hugsun hugsuð til enda, engin rökrétt ályktun dregin af þessari ófarnaðarpólitík. Þarna er greinilega um að ræða Framsfl. og framsóknararmur Sjálfstfl. hafa náð þarna saman. M. ö. o., engin von um nauðsynlegar róttækar breytingar.

Þannig getum við farið yfir málið áfram. Þannig er það með sjávarútveginn og spurning er: Hvað kemur nú til allt í einu að hæstv. forsrh., sem um leið er formaður þessa Framsfl. sem ber öðrum flokkum fremur ábyrgð á ófarnaði okkar í efnahagsmálum, kemur nú fram og mælir fyrir málum sem að nafninu til eiga að vísu að bera merki þess að hann og flokkur hans hafi nú lært eitthvað, vera staðfesting á hug til breytinga? Ég held að það sé sýnd veiði en ekki gefin, hér sé verið að framkvæma breytingar breytinganna vegna, þetta sé pólitísk andlitslyfting fremur en að á bak við búi nokkur einbeittur, alvarlegur vilji til að læra af mistökunum og að breyta kerfinu á þann veg að atvinnulífið á Íslandi geti gert sér vonir um betri tíð.

Að lokum, herra forseti, hvaða þjóðir hafa talið sig hafa náð mestum árangri í nýsköpun atvinnulífs, í að byggja upp samkeppnishæfar nýjar atvinnugreinar þar sem framleiddur er varningur sem stenst snúning og stenst samkeppni við háþróaðar tæknivæddar þjóðir? Það eru ekki gömlu Evrópuríkin. Í einu orði má segja að það sé Kyrrahafskerfið sem á undanförnum áratug sérstaklega hefur skorið sig úr. Hvað má af því læra? Það má læra það að ef við ætlum að koma fótunum undir útflutningsgreinar sem eiga ekki að byggjast á styrkjum og niðurgreiðslum eða einhverri skömmtunarstjórn pólitíkusa þá eigum við að búa þannig að þessum fyrirtækjum að þau geti að eigin frumkvæði og hjálparlaust spjarað sig í samkeppninni. Þá þurfum við að losa um hömlur, afnema mismunandi pólitíska skömmtunarstjórn og sér í lagi gera aðrar þær óbeinu ráðstafanir í efnahagsmálum sem gætu gert þessi fyrirtæki samkeppnishæf.

Embættismannakerfið mun ekki geta haft vit fyrir mönnum, það framleiðir ekki hugmyndir. Það útvegar fjármagn, stundum fengið að láni, dýr lán, en það er líka allt og sumt. Það ber heldur enga ábyrgð á afleiðingum gerðanna. Pólitíkusar geta verið veikir fyrir þeirri hagfræðikenningu að þeir séu burðarásar framfaranna þegar þeir koma með einhvern sjóð af almannafé og afhenda einhverjum mönnum í nafni einhverrar einfaldrar hugmyndar um að hér eigi að byggja verksmiðju. Erum við ekki búnir að læra af stálinu sem Svíar eru núna að hlæja að, að þeim skyldi hafa tekist að pranga inn á íslenska forsjárkerfið hundúreltri stálfabrikku af því tagi sem búið var að leggja niður u. þ. b. 80 af sama tagi í Evrópu á þessum tíma? Hafa menn ekkert lært af saltævintýrinu?

Menn skulu gera sér grein fyrir því að kerfi, nefndir og bákn framleiða yfirleitt engar hugmyndir. Þeir leggja ekki nótt við dag, þeir stjórna ekki út frá því að takmarka kostnað eða halda kostnaði í skefjum. Kerfið kann ekki svoleiðis vinnubrögð. Þess vegna vinnst ekkert með slíkum vinnubrögðum. Hugmyndir af þessu tagi eru, eins og ég hef sagt, einkennandi fyrir þankagang framsóknarmanna í öllum flokkum um efnahagsmál og hann hefur reynst okkur of dýr. Við þurfum að læra — við þurfum að aflæra þetta. Og við þurfum að læra af reynslunni það sem er þýðingarmest fyrir íslenskt atvinnulíf að gerist núna, þ. e. gerbreytt efnahagsstjórn. Það fer ekki saman annars vegar að hæstv. fjmrh. reki ríkissjóð með halla, að hæstv. fjmrh. og viðskrh. nái engum árangri í því að draga úr viðskiptahalla þjóðarbúsins, að ríkisstj. í heild og Seðlabankavaldið haldi áfram linnulausu innstreymi erlends fjármagns, að stjórnin í heild skuli ekki ná neinum tökum á peningamálastjórn í landinu, hafa engin stjórntæki til að halda peningamagninu í skefjum en láti Seðlabankann þenjast út um allt þjóðfélagið sem helstu valdastofnunina þannig að hann er löngu orðinn af því tagi að stjórnmálamenn munu ekkert við hann ráða, þetta annars vegar fer ekki saman við það að segja í öðru orðinu: Nú viljum við skapa hér forsendur fyrir því að hér geti þróast og dafnað samkeppnishæft atvinnulíf, ný fyrirtæki sem ætla að framleiða varning til útflutnings og standa sig í samkeppninni. Þetta kerfi framleiðir bara verðbólgu, þetta kerfi framleiðir bara pappír og þetta kerfi, ef það heldur áfram, á bara eftir að sökkva okkur dýpra og dýpra í skuldafenið og gera okkur erfiðara fyrir þegar að því kemur að rífa okkur upp úr þessu feni og gera þær róttæku umbætur á öllu íslenska stjórnkerfinu sem bíður núna síns tíma.