30.04.1985
Neðri deild: 62. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4658 í B-deild Alþingistíðinda. (3952)

455. mál, nýsköpun í atvinnulífi

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það er nú vel að hv. 6. þm. Reykv., sem er svona hálfpartinn utan flokka á jaðrinum, hiki við að reka formann Sjálfstfl. úr flokknum og setja hann yfir í Framsfl., en samt er það svo að hefði hann verið ögn betur upplagður hér í ræðustólnum hefði hann trúlega framkvæmt þetta með pomp og pragt. Hitt stóð aftur á móti harkalega í honum hvort væri verið að auka báknið með því að setja fjórar stofnanir í staðinn fyrir eina og virðist þó ekki flókið reikningsdæmi að þar er um fjölgun að ræða. En e. t. v. þarf þetta að fara í gegnum tölvu þannig að nútímamenn geri sér almennt grein fyrir því hvort hér sé um fækkun eða fjölgun að ræða.

Ég get ekki látið hjá líða að minnast á þá matarfundi sem hv. þm. minntist á og voru í Framkvæmdastofnuninni. Það er rétt að margir þeirra funda voru hafðir í hádeginu vegna þess að erfiðlega gekk að ná mönnum saman til fundar og einn af þeim sem minnstan tíma hafði til að mæta þar var hv. 6. þm. Reykv. Hitt er annað mál að mikil áhersla var lögð á hið andlega fóður og því útdeilt mjög ríkulega áður en kom að hinu sem tilheyrði munni og maga, en mér er til efs þegar ég lít á hv. 6. þm. Reykv. og hef hlustað á mál hans hvort hið andlega fóður eða hið líkamlega hefur komið honum að meiri notum. Mér sýnist að það séu áhöld um og margt bendir til að hann hafi hvorugs notið sem skyldi.

Sá áróður hefur á dunið annars vegar að báknið skuli burt og hins vegar að Framkvæmdastofnun ríkisins væri óalandi og óferjandi og að sjálfvirk lán hafi þar verið viðhöfð sem auðvitað er alger firra. Sjálfvirk lán hafa aldrei verið þar. Það hefur verið lánað eftir ákveðnum reglum og orðið að samþykkja hvert einstakt lán. Þetta vita allir. En málflutningurinn og áróðurinn gegn þessari stofnun hefur verið slíkur að vissir aðilar hafa komist í pólitískar blindgötur og orðið að vinna það verk til fullnustu að reyna að jarða þessa stofnun, ekki vegna þess að hún hefði unnið illa heldur vegna þess að þeir voru búnir að tæta af henni mannorðið með miskunnarlausum áróðri og gátu þess vegna ekki staðið að því að verja þá starfsemi, þó góð væri, sem þar væri unnin.

Ef aftur á móti er horft á það í gegnum hvaða „kanal“ það fjármagn hefur farið sem óarðbærast hefur verið í íslensku þjóðfélagi og horft aftur til þess tíma er Ingólfur Jónsson var ráðh. í iðnrn. blasir við að það er í gegnum iðnrn. á Íslandi sem mest af óarðbærri fjárfestingu hefur farið fram. Og sannleikurinn er sá að því rn. hefur ekki verið almennilega stjórnað frá þeim tíma að Ingólfur var þar við stjórn. Það er hart að þurfa að segja þetta, en þetta er sannleikurinn, því miður.

Ég ætla að víkja örlítið að miðstjórnarvaldinu og þætti Alþfl. og Sjálfstfl. í að efla það. Hv. 5. þm. Reykv. hefur reynt að sverja af sér og sverja af Alþfl. alla fortíð. Hver skyldi nú hafa lagt drögin að því að Seðlabanki Íslands varð það mesta bákn sem til er í þessu landi? Alþfl. undir stjórn Gylfa Þ. Gíslasonar. Hver skyldi hafa lagt þau ráð á og hver skyldi hafa komið þeirri embættisveitingu á að Jóhannes Nordal varð þar bankastjóri? Gylfi Þ. Gíslason. Og hver skyldi hafa lagt til að það væri nánast undirstöðuatriði að hann yrði rekinn? Alþfl. undir stjórn Jóns Baldvins Hannibalssonar, hv. 5. þm. Reykv. Hvað er hann að ráðast á? Fortíð Alþfl., alveg miskunnarlaust. Hún er það versta og svartasta í þjóðfélaginu að hans eigin dómi. Hvað skyldi hafa verið aðalágreiningsefnið á milli Framsfl. og Alþfl. þegar þessir flokkar störfuðu saman frá 1930 og fram undir 1940? Það var oftrú Alþfl. á ríkisforsjá. Hún var botnlaus. Það var ekkert nema ríkisforsjá sem þeir vildu á öllum sviðum. Svo kemur hv. 5. þm. Reykv. í dag og ætlar að sverja af sér alla fortíð. Hvers konar hundakúnstir eru þetta? Hvers konar sýndarmennska og yfirborðsmennska er þetta, að láta sér detta í hug að hægt sé að leika svona skollaleik í pólitík? Hvað er yfir höfuð að gerast hjá Alþfl.? Til þessa hefur stefnuskráin verið eins og illa þýddur reyfari frá jafnaðarmannaflokkum á Norðurlöndum. Nú er það orðið svo að hún minnir mest á ævintýri eftir Agötu Christie. Það er eina breytingin sem orðið hefur. Fortíðin er skorin á háls, jörðuð, nýr foringi borinn, ný stefna boðuð, örlítið vinstra megin við miðju. Það er þá pólitísk staðsetning á fyrirbrigðinu! (Gripið fram í.) Ég verð nú að segja eins og er að mig undrar að hagfræðimenntaðir menn, háskólamenntaðir menn og menn með sæmilegt sögulegt yfirlit skuli láta sér detta í hug að hægt sé að koma standandi út úr svona heljarstökki. Hvað með bæjarútgerðirnar sem kratarnir stóðu að? (Gripið fram í: Það er búið að leggja þær niður.) Þær eru farnar á hausinn. Það er ekki búið að leggja þær niður. Þær eru farnar á hausinn. En hugsjónin hún hoppar og skoppar fram og til baka. Núna eru ríkisafskiptin hið illa. Flokkurinn er að slást við eigin fortíð af meiri hörku en dæmi eru til áður, þ. e. þá foringja sem ekki er þegar búið að grafa virðist eiga að kviksetja með kennisetningum nútímans.

Þá er rétt að vekja athygli á því að örlítill sólargeisli hefur náð að skína í gegnum allt þetta skammdegismyrkur. Hv. 5. þm. Reykv. gefur sér tíma til að lesa greinar í NT skrifaðar af ágætum fyrrv. ritstjóra Þórarni Þórarinssyni og hann hrífst svo af greinunum að hann á erindi hér upp í ræðupúltið til að hvetja framsóknarmenn til að lesa þessi skrif og tileinka sér þennan boðskap. Það er hárrétt athugað hjá hv. 5. þm: Reykv. að þarna er um merkan boðskap að ræða. Það er nefnilega grundvallaratriði, eigi að viðhalda byggð í landinu öllu, að tryggja lýðræðislega uppbyggingu dreifbýlisins. Það þýðir ekkert að sópa öllum sveitarfélögunum saman í eina fylkingu eins og kratar hafa verið að glíma við á Norðurlöndum. Það er ekki lausnin. Lausnin er sú að leyfa sveitarfélögunum að starfa sem einingum, en setja jafnframt það sterkt vald á milli ríkisvaldsins og sveitarfélaganna að það hafi möguleika til áhrifa. Þar getum við verið sammála, hv. 5. þm. Reykv. Það er spurningin um fylkisskipun eða fjórðungaskipun. Og það að ætla að halda því fram að menn séu að stoppa tilfærslu á fjármagni í atvinnuuppbyggingu með því að gera þetta er hlægilegt. Hvers lags dauðans vitleysa! Er ekki fjármagn flutt á milli landa til atvinnuuppbyggingar þrátt fyrir landhelgi, þrátt fyrir sjálfstæði ríkja? Hvað kemur í veg fyrir að fjármagn yrði flutt á milli til atvinnuuppbyggingar í landinu þó við hefðum fylkjafyrirkomulag? Ekki nokkur skapaður hlutur. Það er aftur á móti grundvallaratriði til að tryggja að hér verði lýðræði í framtíðinni en ekki að hér verði borgríki sem verði stjórnað frá einum stað með allri þeirri miðstýringu sem því mundi fylgja og útsýni manna sem næði kannske að Straumi og upp á Kjalarnes, en óvíst að útsýnið yrði meira almennt hjá þeim sem þar færu með völd.

Hv. 5. þm. Reykv. hefur löngum horft á framsóknaráratuginn sem hinn glataða áratug og hinna eyddu tækifæra, en jafnframt trúir hann að það sé hagvöxturinn og aftur hagvöxturinn sem skiptir höfuðmáli. Sá áratugur varð fyrir stórum áföllum, því skyldu menn gera sér grein fyrir. Það var ekkert smáræðis efnahagslegt áfall þegar eldgosið varð í Vestmannaeyjum. Hvað haldið þið að olíukreppan hafi kostað í erfiðleikum fyrir íslenska þjóð? Engu að síður var hagvöxturinn 4.5%. (JBH: Fjárfestingarfrystingin var margfalt stærra áfall en Vestmannaeyjagosið.) Hv. 5. þm. Reykv. hefur verið sér þess mjög vel meðvitandi hver hagvöxturinn var. Það kemur honum ekki á óvart. Hann hefur engu að síður ráðist á allt sem gert var á þessum áratug af miskunnarleysi. Þá var landhelgin færð út og farið að nýta fiskimiðin við strendur landsins af meiri fyrirhyggju að mínu viti en áður. Þá var vissulega farið í togarauppbyggingu til þess að tryggja að landverkafólk á Íslandi ætti möguleika á að eiga fleiri vinnudaga eins og aðrir, en ekki að það yrði rekið jafnmiskunnarlaust heim og gert er enn þann dag í dag þegar hráefnisskortur verður í frystihúsunum. Það var reynt að tryggja atvinnuöryggi þess með því að treysta grunninn undir hráefnisöflunina. Þetta vita allir sem hafa skoðað þessi mál.

Þá er að víkja að öðru atriði sem vaxandi skilningur er á og e. t. v. á hv. 5. þm. Reykv. eftir að hafa þær skoðanir þar á sem samrýmast því sem allir, sem hafa stutt byggðastefnu, hafa gert sér grein fyrir. Það er að gengisskráningin eins og hún hefur verið framkvæmd hefur verið aðför kerfisins og Seðlabankans að fjárhagslegu sjálfstæði landsbyggðarinnar. (Gripið fram í: Heyr.) Það vita það allir. Þeir hafa verið hálfsofandi við að reikna út vikur og mánuði hvað væri rétt gengisskráning og á sama tíma hefur verið botnlaus útsala á íslenskum gjaldeyri. Hagnaðurinn af þessari vitleysu hefur ekki legið í því að birgðirnar í frystihúsunum hafi hækkað í verði. Hagnaðurinn hefur legið hjá þeim sem hafa náð fjármagni út úr bankakerfinu áður en leiðréttingin var framkvæmd á gengisskráningunni. Þetta eru þær staðreyndir sem blasa við.

Ég hygg að úr því sem komið er sé best að sagan dæmi um hvort Framkvæmdastofnunin og framsóknaráratugurinn hafi ekki orðið til þess að móta eitt og annað í okkar þjóðfélagi sem eigi eftir að vera til blessunar fyrir land og lýð um ókomna framtíð. En það sem þagað hefur verið yfir og valdið gífurlegum efnahagsvandræðum Íslendinga og allra þeirra þjóða sem hafa átt mikið ógert í sínum löndum er stefna Bandaríkjaforseta. Glórulaus stefna. Það er talað um það hér að það þurfi að vera hallalaus ríkisfjármál. Það prédikaði hann líka áður en hann kom í forsetastólinn. En hvað hefur hann gert? Hann er búinn að reka ríkissjóð Bandaríkjanna með botnlausum halla og hefur gefið út ríkisskuldabréf og þannig hrifsað til sín stóran hluta af fjármagninu á hinum alþjóðlega markaði og valdið ómældum erfiðleikum hjá öllum þeim þjóðum, vanþróuðum og þeim sem ekki hafa verið búnar að koma sér upp sterku atvinnulífi. En ævintýrið helst ekki endalaust. Jafnvel Bandaríkjaforseti gefur ekki endalaust hlaðið skuldum á ríkissjóð Bandaríkjanna. Hinir gætnari þar í landi gera sér grein fyrir því að með sömu stefnu verða Bandaríkin komin í hóp þeirra þjóða sem skulda eftir næstu áramót. Þess vegna tel ég að það séu orðin vatnaskil. Ég trúi því að stefnan gangi ekki upp út kjörtímabilið. Ég trúi því að Ronald Reagan verði að stefna að því að innheimta skatta og sjá til þess að ekki sé botnlaus halli á fjármálum Bandaríkjanna. Það væri fróðlegt að reikna út sumar fjárfestingar í þessu landi út frá því að menn væru að greiða til baka jafnverðmætan dollara og þeir fengu að láni. Þá er ekki víst að allar ákvarðanir, sem hafa snúist í höndum okkar, væru jafnrangar og þær hafa orðið vegna þess að dollarinn hefur hækkað það mikið í verði.

Ég ætta þá að víkja að frv. til l. um þátttöku ríkisins í hlutafélagi til að örva nýsköpun í atvinnulífi og um heimildir allra annarra aðila til þátttöku í félaginu. Ég er stuðningsmaður hinna frv., en ég treysti mér ekki til að styðja þetta. (Gripið fram í: Ha?) Ástæðan er ákaflega einföld. Ef menn vilja stofna hlutafélag og leggja í púkk finnst mér að fjármálaleg ábyrgð eigi að fylgja hverju sinni. Það er og grundvallarhugsunin á bak við það að stofna hlutafélag. Það er grundvallarhugsunin að það fari saman fjármálaleg ábyrgð og áhrif. En hvað er gert hér? Ríkið á í upphafi að leggja fram 100 millj. Í annan stað á það að vera reiðubúið að lána aðrar 100 millj. til væntanlegra hluthafa. Gott og vel. Ríkið á sem sagt í upphafi að leggja fram 200 millj., að vísu 100 millj. í formi lána, en vel að merkja, þau eiga að vera með venjulegum vöxtum. Hver fjandinn skyldi það nú vera? Hvað eru venjulegir vextir á þessum drottins degi? Ekki er mér ljóst hvað það er. Í öðru lagi á ríkið að leggja fram fjármagn allt að 200 millj. án sérstakrar tryggingar og það á að veita ríkisábyrgðir fyrir 300 millj. Hvaðan á fjármagnið að koma í þetta fyrirtæki? (Gripið fram í: Að utan.) Að utan? Það er ekki stafkrókur um það hvort það kemur að utan eða hvort það kemur að innan. En fjármagnið á að koma frá íslenska ríkinu, það blasir við. En hver skyldu þá stjórnunarleg áhrif íslenska ríkisins eiga að vera á þetta fyrirtæki? Ef þetta fyrirtæki starfar eftir hinum almennu hlutafjárlögum í landinu liggur það ljóst fyrir að hver aðili má aðeins fara með hvað mikið? Eru það ekki 20% af stjórnunarlegri ábyrgð? (Gripið fram í: Það eru komin ný lög.) Hvað er það hátt? (Gripið fram í: Fjármagni eingöngu.) Ja, fjármagni eingöngu. Hafi mér orðið á að ruglast á hlutafjárlögum biðst ég velvirðingar á því, en þau hlutafjárlög sem ég hef kynni af hafa ávallt gert ráð fyrir að það væri takmörkuð eignaraðild hvers og það umboð sem hver eigandi færi með væri takmarkað. Og annað atriði blasir við, að yfirleitt hefur það verið þannig þegar ríkið hefur verið stjórnunaraðili að það hefur ekki neytt að fullu þess hlutafjárvalds sem það hefur undir höndum.

Ég segi fyrir mig að mér er líka óskiljanlegt, sé horft til framtíðar, hvernig hægt er að ganga frá því í framlögum að áhættufé sé sett inn í eitt skipti fyrir öll. Auðvitað hlýtur að verða að halda áfram að setja áhættufé inn í svona fyrirtæki eigi það að skila árangri ár eftir ár. Þess vegna tel ég að þarna hefði átt að hafa sjóð en ekki hlutafélag. Það er og hin almenna stefna sem Alþingi hefur fylgt í gegnum öll ár. Við höfum fjárfestingarsjóði. Það var ekkert sem mælti gegn því að hin svokölluðu fjármálaséní vors lands, í gegnum atvinnurekendasamtök eða annað, fengju að tilnefna menn í slíka sjóði. Við könnumst við það úr því kerfi sem við búum við. En engu að síður gekk það ekki upp. Mér er ekki ljóst hvort það var stuttbuxnadeildin hjá Sjálfstfl. sem trúði því að svona yrði þetta að vera og öðruvísi ekki, en þarna tel ég að við höfum staðið rangt að málum. Ég tel að þarna hefði átt að stofna sjóð og ég tel að með því hefði verið hægt að sameina Alþingi um þessa hluti og sameina þjóðina um átakið miklu frekar.

Ég minnist þess engu að síður að fjármálaséní vors lands stofnuðu eitt sinn stórt fyrirtæki. Það var kallað milljónafyrirtækið og milljónafyrirtækið setti Íslandsbanka á höfuðið og gjaldþrot þess var stórt. Ég hygg að það hefði mátt læra örlítið af sögunni hvað þetta snerti og ég hygg að sú aðferð að stofna sjóði til að veita fjármagni í hafi gefist okkur betur en slík ævintýramennska. Einnig má segja að með því að stofna hlutafélag, menn ætla ríkinu engu að síður þessa forsjá að útvega fjármagnið, þá eru menn á flótta undan lýðræðinu. Þeir eru á flótta frá lýðræðinu í trúnni á séníin eins og Nietzsche hefði orðað það: „Hátt á bergi, hátt á bergi haukur situr, sækir ekki í skjólin; sundlar ei, þótt veldi brattan stólinn.“

Það má vel vera að sú trú að ofurmennin séu til staðar liggi hér á bak við en ég játa að mín hugsun er miklu skyldari því sem Örn Arnarson orðaði forðum:

Í svip þeirra seintekna bóndans,

hins sagnfáa verkamanns

og sjómannsins svarakalda

býr saga og framtíð vors lands.

Á þeim grunni tel ég að við eigum að byggja upp þetta þjóðfélag og við eigum að byggja það upp í lýðræðinu og þess vegna eru það grundvallarmistök að hafa hlutafélag en ekki sjóði.