30.10.1984
Sameinað þing: 11. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 606 í B-deild Alþingistíðinda. (399)

90. mál, Seðlabanki Íslands

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Alveg er það með eindæmum hvað hinir ágætustu óbreyttir þm. geta gersamlega umhverfst um leið og þeir setjast í ráðherrastól, að því er varðar að segja sína skoðun á hlutum. Hæstv. ráðh. sagði hér áðan: Ég svaraði eins og spurt var og auðvitað hef ég mína skoðun á málinu. Hún kemur auðvitað fram þar sem ég vil láta hana koma fram. Ekki hér á Alþingi. Ekki þar sem hún á fyrst og fremst að koma fram. Skoðun ráðh. þess málaflokks sem viðkomandi stofnun heyrir undir.

Ég kalla enn eftir skoðun hæstv. viðskrh., hans persónulegu skoðun á þessu máli. Geri hann ekki grein fyrir henni hér, þá hlýt ég að líta svo á og trúlega fleiri að hann sé sömu skoðunar og kemur fram í áliti þeirra sem ráða ferðinni í Seðlabankanum. Það eru auðvitað ágætismenn, það er ekki spurningin. En þeir þurfa aðhald ekki síður en aðrir. Og það er engin afsökun hjá hæstv. ráðh. þó að hann telji hér upp formann Alþfl., formann Alþb., formann Framsfl. og þó að við bættist formaður Kvennalistans, hv. þm. þar eða Bandalags jafnaðarmanna. Það er engin afsökun fyrir því að allt sé látið vaða á súðum hjá þeim sem nú stjórna þó svo að einhverjir aðrir hafi gert eitthvað álíka áður. Hér eru menn í orðaleik og eru raunar í þeirri varnarstöðu að þeir hafa engin svör við þeim spurningum sem bornar eru fram, þegar þeir sjálfir eru krafðir sagna um skoðun á málinu. Það er ekkert vandamál að fá sent úr Seðlabankanum, frá bankastjórum þar, bankaráði, þeirra skoðun á hvernig á málum er haldið í þeirri stofnun. Spurningin er auðvitað: Telja stjórnvöld að skynsamlega sé á málum haldið í þessu tilfelli? Því fást menn ekki til að svara hér. Hæstv. ráðh. fæst ekki til að svara því.

Menn eru ekkert að sletta úr klaufum hér, hæstv. ráðh. Hv. þm., sem gagnrýna þetta, eru að flytja hér inn á hv. Alþingi skoðun almennings í landinu, skoðun þess fólks sem ber uppi þessa stofnun fyrst og fremst, lætur af sínum launum til þess að þetta geti gerst. (Forseti hringir.) Þetta er óráðsía. — Hæstv. forseti, ég er að ljúka máli mínu, skal ekki tefja öllu lengur. En það er þessi skoðun hins almenna manns sem hér er verið að tala um, þess fólks sem hefur verið klipið af launum hjá yfir 30% á þessu ári undir handarjaðri núv. hæstv. ríkisstj., það er skoðun þess fólks að þarna sé illa farið með peninga, vitlaus bygging á vitlausum tíma, eins og Árni Johnsen, hv. stjórnarþm. sjálfur, orðaði það áðan.