03.05.1985
Efri deild: 63. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4761 í B-deild Alþingistíðinda. (4002)

475. mál, ríkislögmaður

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Hæstv. fjmrh. hefur hér gert grein fyrir frv. sem hann flytur um ríkislögmann. Eins og kunnugt er hafa það einkum verið góðir lögfræðingar í þjónustu fjmrn. sem annast hafa málflutning af hálfu ríkisins þegar málsóknir eru á hendur ríkissjóði eða einstökum ráðherrum. Það er sérstök deild í fjmrn. sem þetta hefur annast, skipuð ágætum mönnum sem þar hafa öðlast mikla reynslu af þessum störfum og, að því er ég get best dæmt um, staðið sig með mikilli prýði.

Oft hefur það gerst í ríkiskerfinu að starfsemi, sem áður var til húsa innan einstakra ráðuneyta, er gerð að sjálfstæðri starfsemi með sérstökum forstöðumanni. Þetta er eðlileg þróun og í þessu tilviki á margan hátt mjög skiljanleg vegna þess að segja má að ekki hafi verið eðlilegt fyrir rn. og ráðh. utan fjmrn. að þurfa að leita til einstakra starfsmanna annars rn. um meðferð sinna mála. Það er eðlilegast að aðili, sem gegnir störfum fyrir mörg ráðuneyti í senn, sé á sjálfstæðum grundvelli jafnvel þótt stofnun hans heyri undir fjmrn. Það er einmitt það sem þetta frv. stefnir að og því held ég að það stefni í rétta átt. Hins vegar er ráðrúm til að ræða um einstök atriði frv. í nefnd og áskil ég mér rétt til að skoða málið nánar þegar það verður þar til meðferðar eða til að ræða það við einstaka nm. þeirrar nefndar sem fær það til meðferðar. Það mun vera allshn., ég á ekki sæti í henni. Ég vildi bara láta það í ljós við 1. umr. af því að ég hef nokkra reynslu í þessum efnum af störfum af þessu tagi að ég tel frv. stefna í rétta átt.