06.05.1985
Neðri deild: 64. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4834 í B-deild Alþingistíðinda. (4113)

86. mál, áfengislög

Frsm. meiri hl. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Allshn. þessarar deildar hefur haft til meðferðar frv. til l. um breytingu á áfengislögum, 86. mál þingsins, um heimild til sölu á áfengum bjór. Nefndin hefur tekið sér góðan tíma til þess að fjalla um þetta mál og hafði það raunar að leiðarljósi að leitast við að vanda fremur vinnubrögð sín heldur en að flaustra af afgreiðslu þess.

Allshn. sendi málið alls tólf aðilum til umsagnar og fékk tíu formlegar umsagnir frá þeim til baka. Auk þess bárust nefndinni umsagnir ýmissa aðila sem létu sig málið varða og til viðbótar komu fulltrúar ýmissa aðila á fund nefndarinnar, ýmist að eigin frumkvæði eða vegna þess að nefndin óskaði eftir að fá þá til viðræðna.

Umsagnir þessara aðila voru vitaskuld á ýmsa lund, ýmist meðmæltar frv. eða mælt var gegn því. Þó voru nokkrar þannig að ekki var tekin afstaða til málsins, en í sumum þessara umsagna kom fram ábending um nauðsyn þess að setja þjóðinni skynsamlega áfengislöggjöf. Allt þetta starf nefndarinnar miðaði sem fyrr segir að því að reyna að vanda athugun á þessu máli sem er kunnugt úr þingsölum og umdeilt meðal þjóðarinnar og fór það starf fram undir traustri forustu formanns nefndarinnar.

Fram kom sú hugmynd í nefndinni að fresta afgreiðslu þessa máls til þess að stjórnskipaðri nefnd, sem fjallað hefur um stefnu í áfengismálum, gæfist frekari kostur en orðið er til að segja álit sitt á þessu máli. En meiri hl. n. hafnaði þeirri málsmeðferð og fór sá meiri hl. ekki einvörðungu eftir því sem síðar varð í skiptingu nefndarinnar í meiri og minni hl. til afstöðu málsins sjálfs.

Svo fór að nefndin klofnaði í málinu. Meiri hl. n., fimm nm., skila nál. á þskj. 732 og mæla með því að frv. verði samþykkt með breytingum en brtt. meiri hl. n. eru fluttar á þskj. 733.

Minni hl. n., tveir nm., leggja til að frv. verði fellt. Rétt er að taka fram að formaður nefndarinnar, hv. þm. Gunnar G. Schram, skrifar þó undir álit meiri hl. nefndarinnar með fyrirvara.

Í nál. á þskj. 732 segir meiri hl. n., þeir hv. þm. Gunnar G. Schram, Guðrún Helgadóttir, Guðmundur Einarsson, Stefán Guðmundsson auk mín, m. a. frá því hverjar séu helstu breytingarnar sem felast í brtt. n. Þetta er gert í sex töluliðum og frá því hefur verið greint nokkuð glögglega í fjölmiðlum hver þessi sex aðalatriði séu. Eigi að síður þykir mér rétt að fara yfir brtt. n. nokkuð ítarlegar en þarna kemur fram til þess að þær megi teljast eðlilega skýrðar af hálfu meiri hl. nefndar.

Varðandi 1. brtt. vil ég taka fram að í 3. málsl. 3. gr. áfengislaga er nú kveðið á um að óheimilt sé að flytja til landsins öl sem hefur inni að halda meira en 2.25% af vínanda að rúmmáli. Lagt er til að þetta fortakslausa bann verði afnumið með þeim hætti að frá og með 1. mars 1986 verði heimilt að selja hérlendis áfengt öl sem hefur inni að halda vínanda sem er á styrkleikabilinu 4% til 5% að rúmmáli. Jafnframt felur brtt. í sér að ríkisstj. einni verði heimilt að flytja inn áfengt öl rétt eins og tíðkast um annað áfengi. Skv. þessu verði hér eftir sem hingað til bannað að selja áfengt öl sem er sterkara en 5% og einnig áfengt öl sem er á styrkleikabilinu 2.25% til 4% vínanda að rúmmáli.

Í þessu máli þykir rétt að líta til reynslu Svía sem á sínum tíma bönnuðu sölu á svokölluðu milliöli auk þess sem fyllsta þörf er á að fara varlega í sakir í þessu máli. Það var m. a. skoðun ýmissa nm. sem skipa meiri hlutann að nauðsynlegt væri að það lægi ljóst fyrir að hér væri um áfengi að ræða og að skýrt og örugglega væri skorið á milli þess sem talið er óáfengt öl og ekki hefur meira en. 2.25% af vínanda að rúmmáli að innihaldi og þess sem hér er fjallað um sem áfengt öl.

Í sambandi við þessi styrkleikamörk þykir mér rétt að greina frá því að styrkleiki nokkurra tegunda áfengs öls sem þekktar eru á markaði erlendis og jafnvel hérlendis falla innan þessara marka. Má þar nefna til að mynda Heineken, Carlsberg, Tuborg Guld og Holsten frá Hamborg, en allar þessar tegundir hafa alkóhólinnihald 5% að rúmmáli. Tuborg Grøn hefur 4.6% vínanda að rúmmáli og Löwenbräu, sem framleiddur er í München, hefur 4.7% að rúmmáli. Til að mynda þessar þekktu tegundir af áfengu öli falla því innan þeirra marka sem meiri hl. n. gerir ráð fyrir og leggur til að verði hér á boðstólum. Þess má geta að íslenskur bjór, svokallaður Polar-Beer, er sterkari en þetta og fellur ekki undir þessar heimildir því að hann hefur 5.6% vínanda að rúmmáli.

Við 2. brtt. vil ég geta þess að í 7. gr. gildandi laga er að finna fortakslaust bann við bruggun eða tilbúningi áfengra drykkja hérlendis að öðru leyti en því að heimilt er að framleiða áfengt öl til útflutnings. skv. frv. er lagt til að bann þetta verði afnumið en í þess stað verði bruggun og tilbúningur áfengis hérlendis leyfilegur að fengnu leyfi dómsmrh. og skv. þeim skilyrðum sem hann kann að setja slíku leyfi. Umrætt bann er mjög ankannalegt þegar litið er til þess að sala áfengra drykkja annarra en áfengs öls er og hefur um langa hríð verið leyfð hérlendis. Bann þetta hefur því í raun verndað erlenda áfengisframleiðendur gegn innlendri samkeppni. Brtt. n. við þessa grein frv. felur í sér að ekki verði heimilt að leyfa framleiðslu áfengs öls hérlendis af þeim styrkleika sem óheimilt er að flytja inn eða selja hérlendis skv. 1. brtt. n. nema til útflutnings og gæti það þá tekið til öls sem nefnt er Polar-Beer.

Rétt er og að geta þess að ákvæði í 2. mgr. gildandi laga, sbr. 2. mgr. 2. gr. frv. er kveður á um innheimtu framleiðslugjalds af áfengu öli, er óþarft í frv. eins og það var lagt fram af flm. þess vegna þess að í lögum nr. 77/1980 um vörugjald er beinlínis kveðið á um að framleiðsla öls sé gjaldskyld hvort sem það er áfengt eða ekki. Því er í brtt. lagt til að þetta þarflausa ákvæði frv., eins og það var lagt fram, verði fellt niður.

Í 3. brtt. er einnig að mestu leyti um lagateknísk atriði að ræða, en ég vil þó taka fram að nauðsynlegt er í kjölfar breytinga í 7. gr. laganna að breyta 8. gr. gildandi laga á þá lund að aðeins skuli gera þau tæki upptæk sem notuð eru og hafa verið notuð til ólögmætrar framleiðslu áfengra drykkja. Eins og kunnugt er skulu skv. nefndri 8. gr. gildandi laga öll áhöld, sem notuð eru við bruggun svo og framleiðsla áfengra drykkja, gerð upptæk, enda er skv. gildandi lögum öll bruggun skilyrðislaust bönnuð hér á landi nema bruggun áfengs öls til útflutnings. 3. liður brtt. meiri hl. n. gerir því ráð fyrir að 8. gr. laganna kveði aðeins á um að tæki og áhöld, sem notuð hafa verið við ólögmæta framleiðslu áfengra drykkja svo og hin ólögmæta framleiðsla sjálf, skuli gerð upptæk. Þessar breytingar eru nauðsynlegar til samræmis og eru í rauninni aðeins lagateknísk atriði.

Um 4. brtt. er rétt að taka fram að skv. 9. gr. gildandi laga er kveðið á um að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins annist sölu þess áfengis sem ríkið flytur inn auk þess sem leiðbeiningar er þar að finna um ákvörðun álagningar. Skv. 4. lið brtt. er lagt til að ÁTVR annist áfram innflutning áfengis hverju nafni sem nefnist. Af þessu leiðir að sala áfengs öls fer fram eftir sömu reglum og gilt hafa um sölu á öðru áfengi skv. gildandi lögum. Jafnframt er í þessari brtt. lagt til að allt áfengt öl, sem selt verður hérlendis, verði selt í margnota umbúðum. Að baki þessari till. býr það að ætla má að þetta skilyrði tryggi m. a. nokkuð samkeppnisaðstöðu innlendra framleiðenda gagnvart erlendum auk þess sem einnig má ætla að hér sé nokkurt tillit tekið til umhverfissjónarmiða.

Þá er einnig lagt til að allar áletranir aðrar en vörumerki verði á íslensku þannig að neytendur eigi auðveldara með að gera sér grein fyrir því sem þeir eru að neyta.

Um 5. brtt. meiri hl. vil ég taka þetta fram: Fyrirliggjandi frv. gerir aðeins ráð fyrir því að dómsmrh. setji reglugerð um sölu áfengs öls og vína, sbr. 3. gr. frv. Meiri hl. n. þykir rétt að heimild dómsmrh. í þessu efni taki og til veitinga eins og núgildandi áfengislög kveða reyndar á um.

Í 6. brtt. meiri hl. n. kemur fram að okkur þykir nauðsynlegt í ljósi þeirra veigamiklu breytinga á áfengislögum sem frv. þetta gerir ráð fyrir, svo og þess að ætla má að tekjur ríkissjóðs aukist allverulega af áfengissölu ef frv. verður að lögum, að leggja til að 0.5% af skatttekjum ríkissjóðs af framleiðslu og sölu áfengs öls verði árlega varið til fræðslu í skólum landsins og sú fræðsla verði að sjálfsögðu um skaðsemi áfengis. Með þessum hætti ætti að vera tryggt að fjárskortur komi ekki í veg fyrir að ákvæði 31. gr. gildandi áfengislaga nái tilgangi sínum, en umrædd lagagrein fjallar um áfengisfræðslu í skólum landsins. Engir alvarlegir útreikningar hafa verið gerðir á því hvað ætla má að tekjur ríkissjóðs af þessu verði miklar og ekki þar með hægt að slá því föstu með neinu móti hvað hér er um stóra fjárhæð að ræða, eða sem sagt 0.5% af skatttekjum ríkissjóðs. Það hlýtur að velta í fyrsta lagi á þeirri skattlagningu sem verður á þessa vöru og í öðru lagi á því magni sem selt verður. En ágiskun hefur verið gerð á þá lund af hálfu fjmrn. að það megi ætla að hér geti verið um að ræða í kringum 4 millj. á ári miðað við núgildandi verðlag.

Um 7. brtt. vil ég taka fram að skv. þessum lið er gert ráð fyrir því að lögin öðlist gildi 1. mars 1986. Þessi frestur er fyrst og fremst hugsaður sem undirbúnings- og aðlögunartími fyrir innlenda framleiðendur, en einnig fyrir Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins svo og stjórnvöld til að undirbúa þetta mál. Yfirleitt eru aðilar sammála um það, sem hafa látið sig þessi mál varða, að slíkur aðlögunartími sé nauðsynlegur.

Þá segir í 8. og síðustu brtt. meiri hl. n. að meiri hl. leggi til að ef frv. þetta ásamt brtt. n. nær fram að ganga verði lögin að þessu leyti endurskoðuð fyrir árslok 1988. Slík endurskoðun taki mið af þeirri reynslu sem fengist hefur á þessum tíma af framkvæmd laganna. Þó að meiri hl. nefndar og nefndin raunar í heild telji sig hafa vandað verk sitt allítarlega kann sitthvað að koma í ljós sem ástæða þykir til að breyta í þeirri lagasetningu sem hér er um að ræða að þessum tíma liðnum.

Auk þeirra brtt., sem hér hafa verið skýrðar og segja má að séu samandregnar í nál. meiri hl. í sex stutta töluliði, leggur meiri hl. ríka áherslu á að við framkvæmd þessara laga, ef frv. nær fram að ganga, verði gætt að samkeppnisstöðu innlendrar framleiðslu og þar með íslensks iðnaðar. Það verði gert hvort tveggja í senn með þeim lagaákvæðum sem nefndin leggur til að lögfest verði um margnota umbúðir en einnig með verðlagningu af hálfu stjórnvalda sem að sjálfsögðu mun hafa veigamikil áhrif á það hvernig inniendir framleiðendur geta staðið að sínum málum í þessum efnum. En það eru taldar fullar heimildir til þess að mismunur geti verið á skattlagningu ríkisins hvað snertir innlenda framleiðslu og innflutt áfengt öl að þessu leyti þannig að unnt sé að hafa meiri skattlagningu á innfluttum bjór en innlendum.

Í áliti meiri hl. n. á þskj. 732 er vikið örfáum orðum að meginröksemdum fyrir því að meiri hl. telur eðlilegt að samþykkja frv. þetta með þeim brtt. sem lagðar eru fram á þskj. 733. Þar er að því vikið að mikilvægast sé í augum meiri hl. að þjóðin búi við áfengislöggjöf sem og aðra löggjöf sem sé það raunhæf að ætla megi að hún verði sæmilega virt og enn fremur að hún sé þann veg úr garði gerð að hægt sé að framfylgja henni afdráttarlaust. Á þessu er vissulega mikill misbrestur eins og nú standa sakir hvað þennan þátt áfengislöggjafarinnar snertir a. m. k.

Ég held að naumast nokkur Íslendingur geti sagt að núverandi ástand í þessum efnum sé þjóðinni til sóma og þar með ekki Alþingi til sóma. Í fyrsta lagi má segja að framkvæmd og ástand þessara mála sé mótað af miklum tvískinnungi, nærri því tvöfeldni eða yfirdrepsskap. Öllum er kunnugt um að nú hefur það viðgengist í langan tíma að áfengur bjór er fluttur til landsins með löglegum hætti. Tilteknir þjóðfélagshópar hafa heimild til þess með löglegum hætti að flytja takmarkað magn áfengs bjórs til landsins og hefur svo raunar lengi verið með farmenn og flugliða, en fyrir fáum árum bættust venjulegir ferðamenn, sem koma til landsins frá útlöndum, í þann hóp. Segja má að ef menn teldu það hlunnindi að geta flutt bjór inn í landið búi þessir hópar við forréttindi.

Enn fremur er það alkunnugt að í langan tíma hefur það tíðkast að þessari vöru sé smyglað til landsins. Án þess að fyrir liggi nokkrar upplýsingar um það hvað hér sé um mikið magn að ræða þá er það í það ríkum mæli að maðurinn á götunni segir að bjór sé seldur á stöðluðu verði á almennum markaði á bak við tjöldin. Það er þá gert með þeim hætti að þar er annað tveggja um að ræða löglega innfluttan bjór eða smyglaðan sem síðan er sagt að sé á boðstólum og að heita má hver geti náð í sem vill.

Nefndin gerði nokkrar tilraunir til þess að fá þá aðila sem komu á hennar fund til að giska á hversu mikið magn hér væri um að ræða. Mönnum varð svarafátt en það komu ágiskanir svo sem eins og að um gæti verið að ræða 14–15 lítra á mann á ári að meðaltali. Hér er auðvitað einvörðungu um ágiskun að ræða og ekkert sérstakt á því að byggja. Hitt virtust allir sammála um að hér væri um verulegt magn að ræða sem væri í umferð.

Enn er þess að geta að um langan tíma hefur átölulaust viðgengist að inn væri flutt og selt öl- og víngerðarefni. Um leið og þessi ölgerðarefni eru seld átölulaust í landinu gefur auga leið að þau hljóta að vera notuð og þau eru þá notuð til bruggunar á áfengu öli og allt er það aftur lögbrot. Hér er um hluti að ræða sem viðgengist hafa lengi og það átölulaust og það ástand getur ekki talist vera eðlilegt eða í raun viðunandi.

Enn hefur það gerst á síðustu árum að tekin hefur verið upp blöndun og sala á svokölluðu bjórlíki. Þar er um eins konar eftirlíkingu að ræða á venjulegum áfengum bjór. Ég ætla þó að flestir kunni að vera sammála um að þar sé um vonda eftirlíkingu að ræða og það sem meira er, þessi eftirlíking hefur ekki í för með sér að henni fylgi eftirlit af neinu tagi að heita má, hvorki um styrkleikahlutföll né verð.

Ég gerði nokkrar tilraunir til þess sem frsm. meiri hl. n. að fá upplýsingar um það hjá dómsmrn. hversu mörg veitingahús byggðu starfsemi sína á sölu á þessari vöru. Þær upplýsingar sem ég fékk voru af ákaflega skornum skammti. Raunar taldi dómsmrn. að ekki væri nema eitt veitingahús í landinu sem byggði starfsemi sína einvörðungu á blöndun og sölu á svokölluðu bjórlíki. En það var hins vegar vitað að þau væru miklum mun fleiri sem byggðu starfsemi sína að hluta á sölu þessarar vöru, en flest þeirra höfðu eitthvað annað á boðstólum svo sem eins og Coca Cola og einhverjar aðrar neysluvörur. En hvað sem um það er þá er ekki fjarri lagi að hægt sé að fá þetta bjórlíki keypt á flestum eða öllum þeim 89 veitingahúsum sem nú hafa vínveitingaleyfi í landinu. Ég þekki ekki mikið starfsemi þessara veitingastaða en núna um daginn fékk ég dreifimiða frá einu slíku húsi undir rúðuþurrkuna á bílnum mínum þar sem mér var boðið til að neyta þessarar vöru sem ég hef nú ekki þegið enn þá.

Við þessa starfsemi hef ég það að athuga, eins og þegar er komið fram, að henni fylgir ekki eftirlit. Hér er um að ræða blöndun og sölu á eftirlíkingu af bjór, eftirlíkingu af venjulegu áfengu öli, og sú eftirlíking held ég að sé ekki sérstaklega góð. Til viðbótar kemur það að svo virðist sem eðlileg skattheimta ríkisins af áfengissölu sé þarna tiltölulega lítil.

Það kemur engum neitt á óvart af því sem ég hef sagt hér um þessi efni því að allt er þetta alkunnugt. Þetta vita allir. Og það er þetta sem ég segi að feli í sér mikinn tvískinnung, ástand sem ekki sé til sóma, ekki sé til virðingar, hvorki fyrir Alþingi né fyrir íslensku þjóðina: Að hafa áfengislög með þeim hætti að farið sé í kringum þau á jafnmargbreytilegan hátt og ég hef hér lýst og allri þjóðinni er kunnugt um. Þá tel ég réttara og betra að færa í lög ákvæði um þessi efni sem séu með þeim hætti að hægt verði að framfylgja þeim og þau geti verið sæmilega virt.

Enn er það svo að ýmsir eiga erfitt með að skilja það hvers vegna hér á landi má ekki selja áfengt öl á sama tíma og seld eru sterk vín og létt vín eða vín sem eru með áfengisinnihaldi a. m. k. frá um 9% og upp í mjög mikinn styrkleika. Meðal þeirra sem eiga erfitt með að skilja þetta eru erlendir ferðamenn sem koma hingað til landsins. Það er nú svo með okkur Íslendinga að við getum auðvitað haft okkar sérvisku í áfengismálum og meðferð á áfengi og ýmsum öðrum neysluvenjum þjóðarinnar og hagað okkar löggjöf með ýmsu móti til að fullnægja okkar sérvisku eða okkar sérskoðunum um þessi efni. En ef við ætlum okkur að hagnast á ferðamönnum sem koma til landsins — og margar þjóðir heims reka mikla starfsemi sem miða að því að afla tekna af erlendum ferðamönnum — þá þyrftum við að haga svo okkar málum að við getum boðið þessum ferðamönnum neysluvörur við þeirra hæfi. Hvort sem mönnum líkar betur eða verr leggja erlendir ferðamenn, a. m. k. margir hverjir, mikið upp úr því að geta neytt þessarar vöru sem þeir eru vanir í sínu heimalandi.

Ég skal ekki ræða þennan þátt mikið með erlenda ferðamenn. Þó að rétt sé að taka tillit til þessa þá er það kannske ekki neitt aðalatriði. En ég hlýt að endurtaka það að Íslendingar eins og aðrir þurfa að leitast við að hafa tekjur af ferðamönnum sem koma til landsins og miða neysluvörur og annað sem er á boðstólum fyrir ferðamenn við þetta markmið. Við tökum ekki á móti ferðamönnum bara af einhverri hjartagæsku eða góðmennsku til að sýna þeim okkar fagra land, hreina loft og tæra vatn o. s. frv. Við ætlum okkur að sjálfsögðu að hafa tekjur af þessari starfsemi.

Ég vildi kannske draga saman í örfáum orðum hvað ég tel að muni vinnast ef Alþingi samþykkir frv. með þeim breytingum sem meiri hl. n. leggur til í sínu áliti. Það er þá fyrst að sett eru lög um þessi efni með ströngum skilyrðum sem hægt er að framfylgja afdráttarlaust. Ætla má að smygl falli niður. Það yrði hætt þeim hvolpaburði sem nú tíðkast á áfengu öli af hálfu ferðamanna og af hálfu sérstakra þjóðfélagshópa þegar þeir koma til landsins. Þess mundi ekki gerast þörf. Svartur markaður með þessa vöru væri úr sögunni. Eftirlíkingar, framleiðsla eða blöndun á bjórlíki og sala á þeirri vöru mundi a. m. k. að mestu verða úr sögunni vegna þess að bjórinn sjálfur eða áfengt öl væri á boðstólum. Tekjur ríkisins af þessum þætti áfengismála og áfengissölu yrðu með eðlilegum hætti. Upp yrði tekin fræðsla í skólum af tekjum af þessari starfsemi. Og það sem ekki er minnst um vert, margfaldur tvískinnungur í þessum þætti áfengislöggjafarinnar væri úr sögunni. Það yrði frelsi til að framleiða, flytja inn og selja áfengt öl með ströngum skilyrðum, skilyrðum sem fella þetta afdráttarlaust undir áfengislöggjöfina og þau skilyrði yrðu þannig eins og áður segir að hægt væri að framfylgja þessum lögum.

Ég vil gjarnan segja frá því að meiri hl. n. fékk lögfræðinga fjmrn. til þess að yfirfara brtt. meiri hl. þannig að það ætti að vera tryggt að hin lagateknísku atriði brtt. væru fullnægjandi. Þau eru m. a. gerð með því markmiði að ætla megi að hægt verði að framfylgja þeim afdráttarlaust eins og fyrr er sagt.

Það er kannske ekki mikil ástæða til þess fyrir mig að víkja að röksemdum þeirra sem eru andvígir þessu máli. Ég get þó gert það í örfáum orðum. Þeir skiptast raunverulega í hópa. Í fyrsta lagi eru þeir sem berjast gegn áfengisneyslu og áfengissölu hverju nafni sem nefnist. Þeirra afstaða er ákaflega virðingarverð og yfirleitt er afstaða þeirra þannig að í henni er enginn tvískinnungur. Það er hins vegar spursmál hversu raunhæf sú barátta er og hversu raunhæf sú afstaða er, enda viðurkenna flestir þeirra að þeir treysti sér ekki til að leggja til algjört áfengisbann og staðreynd er að frv. um slíkt efni hefur ekki komið fram á Alþingi í mjög langan tíma.

Í öðru lagi eru þeir sem halda því fram að bjór auki áfengisneyslu í heild og sú skoðun er studd áliti ýmissa lækna og t. a. m. áliti frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni. Ég segi fyrir mína parta að ég tel enga ástæðu til þess að gera lítið úr þessum röksemdum þó að reynslan ein verði að skera úr um hvernig til muni takast. En sérstaklega mundu þessar röksemdir væntanlega eiga við þar sem áfengt öl væri alls ekki til staðar en bættist allt í einu við aðra áfengissölu og aðra áfengisneyslu. Oft hefur það gerst þannig í öðrum þjóðlöndum að þessi vara hefur verið á boðstólum í flestum matvöruverslunum og flestum eða öllum veitingastöðum. En það er öðru nær en að þessu sé stefnt hér. Og það er öðru nær en að þessi skilyrði séu sambærileg við það sem við stefnum að að upp verði tekið hér, verði brtt. meiri hl. n. samþykktar.

Ég tók það fram í skýringum mínum við brtt. að ýmsir vitnuðu til reynslu Svía af svokölluðu milliöli sem var 3.6% af vínanda að styrkleika að rúmmáli. Svíar felldu niður sölu á þessu öli árið 1977 vegna þess að þeir töldu að það hefði mjög aukið á áfengisneyslu í landinu, þ. á m. ungmenna. Þetta öl fékkst mjög víða, nærri því hvarvetna í matvöruverslunum og á veitingastöðum. Það ástand er allt annað en það sem við leggjum til að hér verði viðhaft eða tekið upp þar sem við leggjum til að hér verði einungis um að ræða sölumeðferð á þessari vöru á nákvæmlega sama hátt og nú er um annað áfengi, að það verði einungis selt í áfengisverslunum og á þeim veitingastöðum sem hafa vínveitingaleyfi. Þess vegna er algjörlega ljóst að þessi reynsla Svía er alls ekki samanburðarhæf við það sem reikna má með að hér gerist eftir að þeir nýju hættir væru teknir upp sem mundu hljótast af því ef frv. þetta ásamt breytingum væri samþykkt.

Ég vil svo aðeins ítreka það að þó að við höfum talið okkur vanda það verk sem n. hefur unnið leggjum við til að lagaákvæði verði endurskoðuð fyrir árslok 1988 og þá verður sú endurskoðun að sjálfsögðu að taka mið af þeirri reynslu sem fæst af framkvæmd laganna. Það er reynsla sem við getum ekki sótt til annarra landa vegna þess að við stefnum hér að allt öðrum og þrengri skilyrðum en víðast tíðkast. Um leið og við stefnum að slíkum skilyrðum með innflutning, framleiðslu og sölu þessarar vöru gerum við einnig ráð fyrir því að niður falli sá tvískinnungur og sá óviðurkvæmilegi háttur sem á þessum málum er nú með eftirlíkingum, með smygli og með innflutningi sérhópa til landsins. Þá fellur það niður. Þessi reynsla verður því að fást innanlands.

Hér er um umdeilt og viðkvæmt mál að ræða. En ég hlýt að spyrja hv. þdm. hvort þeim finnist að það ástand, sem nú ríkir í þessum málum, sé það sem sé hið æskilega og hvort sú þróun, sem við blasir á næstu árum ef ekki verður breytt til í löggjöfinni, sé það sem þeir vilja að komi yfir okkar þjóð. Ég held að það sé betra að taka á þessum málum með skörpum lagaákvæðum og leitast við að færa þessi mál í það horf að það geti verið hægt að selja hér þessa vöru, þessa tegund áfengis, á sama hátt og annað áfengi, en framfylgja þá stranglega þeim lagaákvæðum sem sett verða og þau lagaákvæði eru sannarlega býsna ströng í þeim brtt. sem meiri hl. n. hefur flutt. Ég segi fyrir mig og fyrir hönd meiri hl. n. að okkur finnst tími til kominn að breyta til, taka upp nýja siði í þessum efnum, siði sem hægt er að umgangast án þess að bera kinnroða fyrir. Meiri hl. n. leggur til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem hann flytur á þskj. 733.