07.05.1985
Sameinað þing: 80. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4868 í B-deild Alþingistíðinda. (4146)

271. mál, varnir gegn fisksjúkdómum

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég stíg einungis í pontuna til að þakka hv. nefnd fyrir afgreiðslu málsins. Ég tel þessa brtt. ágæta. Till. er jafngóð eða betri eins og lagt er til að hún verði hér samþykkt. Það er alveg ljóst að auka þarf varnir gegn fisksjúkdómum, því að það er líka ljóst að Íslendingar hljóta í mjög ríkum mæli að leggja inn á braut fiskeldisins á næstu misserum og árum. Þar er sú framtíð áreiðanlega sem nærtækust er í uppbyggingu íslenskra atvinnuvega og í stóraukningu þjóðartekna.

En við megum ekki láta það hamla okkur að ekki séu nægilega margir sérfræðingar til að fylgjast með því að ekki verði verulegt tjón af fisksjúkdómum. Fram hjá þeim verður ekki komist því miður. Það eru bakteríur í náttúrunni sjálfri sem ætíð geta borist í fiskræktarstöðvar. En þá ríður á að fylgjast nægilega vel með og nægilega skjótt og gera viðeigandi ráðstafanir.

Ég er alveg sammála því að fiskeldisstöðvarnar sjálfar eiga að kosta slíka starfsemi þegar þeim vex fiskur um hrygg og munu gera það, hafa fisksjúkdómafræðinga á sínum eigin vegum, en engu að síður hlýtur ríkisvaldið að verða að hafa eftirlit með því að einhverjir vanræki ekki þessa sjálfsögðu starfsemi og að samræma störf fisksjúkdómafræðinga. Þess vegna er alveg nauðsynlegt að bregða nú hart við og gera viðeigandi ráðstafanir í þessu efni.