07.05.1985
Sameinað þing: 80. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4870 í B-deild Alþingistíðinda. (4153)

12. mál, leit að brjóstakrabbameini

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Annað algengasta dánarmein hér á landi er krabbamein. Af þeim hefur á síðustu árum orðið mest aukning á krabbameini í brjóstum kvenna. Árið 1955–1959 voru árlega greind að meðaltali 32 tilfelli af brjóstakrabbameini hjá konum, en árin 1980–1984 85 tilfelli árlega. Aukningin er, þegar tillit er tekið til breytinga á aldurssamsetningu, tæp 70%. Sams konar þróun hefur orðið í nálægum löndum. Árangur af meðferð brjóstakrabbameina hefur ekki batnað neitt að ráði síðustu áratugi. Um 2/3 þeirra sem greinast með þennan sjúkdóm eru enn á lífi fimm árum seinna. Þá er brjóstakrabbamein að því leyti ólíkt öðrum krabbameinum að meðalaldur þeirra sem veikjast er lægri. Er óhætt að fullyrða að konum stafar ógn af þessum hættulega sjúkdómi sem veldur auk þess miklu sálrænu og félagslegu álagi.

Lengi hefur verið vonast eftir að aðferð fyndist til að greina sjúkdóminn á forstigi og áður en meinsemdin hefur náð að grafa um sig í líkamanum. Góður árangur skipulegrar leitar að leghálskrabbameini hefur glætt vonir um að hliðstæðar aðferðir yrðu að liði í baráttunni gegn brjóstakrabbameini.

Fyrstu rannsóknirnar sem bentu til að skipuleg leit bæri einhvern árangur eru bandarískar frá árinu 1971. Síðan hefur fjöldi rannsókna verið gerður víða um heim en vísindamenn ekki verið á eitt sáttir um niðurstöður þeirra. Heilbrigðisyfirvöld hér hafa um nokkurt skeið fylgst náið með rannsóknum erlendis. Til að meta stöðu þessara mála beitti rn. sér fyrir því ásamt landlækni, Krabbameinsfélagi Íslands og í samvinnu við erlendar sérfræðistofnanir að hér var í apríl 1984 haldin ráðstefna með þátttöku færustu sérfræðinga á sviði skipulegrar leitar að brjóstakrabbameini, bæði innlendra og erlendra. Var þar gerð grein fyrir því nýjasta sem þá var vitað um og m. a. lagðar fram bráðabirgðaniðurstöður rannsókna frá Svíþjóð og Hollandi á gildi skipulegrar leitar að brjóstakrabbameini með svokallaðri mammografi sem nefnt hefur verið brjóstaröntgen. Niðurstöður þessarar ráðstefnu voru m. a. þær að vænta mætti að fyrir gætu legið jafnvel á árinu 1985 niðurstöður langtímarannsókna um gildi brjóstaröntgens við skipulega leit að brjóstakrabbameini. Þetta nefndi ég reyndar í 1. umr. um þessa þáltill. 18. október á s. l. ári, en þá sagði ég orðrétt: „Líklega mun sænsk rannsókn, sem byggir á einni röntgenmynd af brjósti en án læknisskoðunar, getá veitt ákveðnari svör við spurningunni hvort röntgenbrjóstaskoðun auki lífslíkur.“ Heilbrrn. tók því ákvörðun um að fara ekki út í hóprannsókn á brjóstakrabbameini að svo stöddu. Þá var og bent á af sérfræðingum að gera þyrfti ráðstafanir til að tryggja viðunandi meðferð þeirra er greindust með sjúkdóminn við hóprannsókn og að gera mætti ráð fyrir að fjöldi þeirra yrði töluverður í upphafi.

Síðan þessi ákvörðun var tekin hefur ýmislegt gerst sem breytt hefur þeim forsendum sem þessi ákvörðun var byggð á.

Í fyrsta lagi samþykkti Alþingi fjárveitingu til byggingar K-álmu Landspítalans en í 1. áfanga verður aðstaða til geislameðferðar illkynja æxla.

Í öðru lagi hefur Lions-hreyfingin staðið fyrir myndarlegri söfnun fyrir nýju geislalækningatæki, línuhraðli, sem verður staðsettur í K-álmu Landspítalans. Vonir standa til að tækið verði tilbúið til notkunar á árinu 1988.

Í þriðja lagi hefur Krabbameinsfélagi Íslands borist að gjöf frá einkaaðila tæki til brjóstaröntgenmyndatöku og frá Rauða krossi Íslands tæki til brjóstaröntgenmynda- og sýnatöku.

Síðast en ekki síst hafa nú verið gerðar kunnar í Svíþjóð niðurstöður þeirrar langtímarannsóknar á gildi skipulegrar leitar að brjóstakrabbameini með brjóstaröntgenmyndatöku sem ég hef áður minnst á. Hefur þessi rannsókn leitt í ljós 31% lækkun á dánartíðni kvenna 40–74 ára úr brjóstakrabbameini sem tóku þátt í skipulegri leit að brjóstakrabbameini með reglulegri brjóstaröntgenmyndatöku. Þessar niðurstöður hafa leitt til þess að sænsk heilbrigðisyfirvöld hafa ákveðið að taka upp skipulega leit þar í landi.

Í næsta mánuði mun heilbrrn. ásamt fleiri aðilum standa að ráðstefnu um læknismeðferð þeirra brjóstakrabbameina sem finnast við skipulagða leit við brjóstaröntgengreiningu. Erlendir sérfræðingar halda fyrirlestra um efnið, þar á meðal þeir læknar sem bera ábyrgð á sænsku rannsóknunum sem ég gat um hér áður. Tel ég að þar skapist grundvöllur til umræðu um á hvaða hátt íslenskum konum skuli tryggð sambærileg læknismeðferð eins og best gerist erlendis við sömu forsendur.

Ég hef nú rakið aðdraganda þeirrar stefnumörkunar sem hér er lýst, að hafist verði handa um að skipuleggja leit að brjóstakrabbameini með brjóstaröntgeni hér á landi. Ekki hefur verið tímabært að taka þessa ákvörðun fyrr en nú þar sem saman þarf að fara sönnun þess að leit beri árangur og dragi úr dánarlíkum, að aðstaða, tæki og sérþjálfað starfsfólk sé fyrir hendi og að fullnægjandi meðferð sé í boði fyrir þá sem greinast með sjúkdóminn. Það er mat mitt að öll þessi skilyrði séu nú fyrir hendi eða verði, ef áætlanir standast, fyrir hendi þegar hópskoðanir verða komnar á af fullum krafti, en það ætti að verða í allra síðasta lagi haustið 1987. Ég hef því ákveðið að taka upp viðræður við Krabbameinsfélag Íslands um nánari framkvæmd skipulegrar leitar að brjóstakrabbameini. Hugsanlegt er að unnt reynist að hefja leit fyrr en haustið 1987. Það kemur væntanlega í ljós í viðræðum við Krabbameinsfélagið en ræðst auk þess af fjárveitingum til þessa verkefnis, þjálfun starfsfólks og aðstöðu til meðferðar þeirra kvenna er greinast með brjóstakrabbamein.

Ég hef rakið hér í örstuttu máli það sem hefur verið að gerast og er að gerast í þessum efnum. Það verður ekki gert að mínum dómi með meiri hraða en fram hefur komið og höfð verður náin samvinna við innlenda og erlenda sérfræðinga þar sem notuð verður þekking þeirra og gott skipulag til að hefja þessa starfsemi. Ég tel í sjálfu sér að till. sem þessi breyti hér engu. Hún er þá ekki annað en árétting á því sem hefur verið að gerast, er að gerast og mun gerast á næstunni. En ég taldi rétt að skýra frá þessu hér um leið og þessi till. fær endanlega afgreiðslu hér á hv. Alþingi.