07.05.1985
Sameinað þing: 80. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4875 í B-deild Alþingistíðinda. (4159)

200. mál, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins

Frsm. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Fjvn. hefur haft til athugunar till. þessa til þál., um fyrirkomulag á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, sem flutt er af hæstv. félmrh. Till. er flutt í samræmi við ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 41/1983, um málefni fatlaðra. Í till. eins og hún er lögð fram er efnisatriðum skipt í þrjá töluliði. Í fyrsta lagi um það að athugunar- og greiningardeild í Kjarvalshúsi við Sæbraut á Seltjarnarnesi verði breytt í Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Í öðru lagi að á næstu þremur árum verði undirbúin bygging framtíðarhúsnæðis fyrir þessa starfsemi og í þriðja lagi að húsnæði Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins verði byggt á þeim stað sem þegar hefur verið valinn við Dalbraut í Reykjavík skv. fyrirliggjandi teikningum að húsinu.

Till. er undirbúin af nefnd sem skipuð var 15. júní 1983 af þáv. félmrh. Fjvn. kvaddi á sinn fund fullfrúa frá þessari nefnd, sem undirbjó þetta mál, bæði formann nefndarinnar, Gunnar Biering, og ritara nefndarinnar, Margréti Margeirsdóttur, deildarstjóra í félmrn. Í þeim umræðum sem fram fóru í fjvn. um þetta mál kom fram að nefndin var meðmælt og vildi veita stuðning sinn við 1. tölulið till. eins og hún var lögð fram en telur sig ekki reiðubúna til þess að taka afstöðu til þeirra tveggja töluliða sem á eftir fara.

Í samræmi við óskir nefndarinnar fékk nefndin í hendur áætlun um kostnað við það að taka í notkun með fullum búnaði og eðlilegu starfsliði Kjarvalshús við Sæbraut á Seltjarnarnesi. Liggur fyrir um það efni kostnaðaráætlun frá byggingardeild menntmrn., samtals að fjárhæð 1785 þús. kr. Talið er að hægt sé að koma húsinu og þeirri starfsemi sem þar á að fara fram í fulla og eðlilega notkun með nokkru lægri fjárhæð eða samtals 887 þús. kr. En auk þess þyrfti lyftu við inngang hússins þar sem oft og tíðum er um fatlað fólk að ræða sem þarf að sækja sína þjónustu til þessarar stofnunar. Talið er að lyftan kosti um 375 þús. kr.

Aðrir þættir þessa máls eru frágangur utanhúss, svo sem á lóð, viðgerð á þaki og annað þess háttar. Væri hægt að láta það bíða um sinn meðan lögð er áhersla á að leggja fram það fé sem þarf til þess að húsið sjálft megi taka í notkun.

Fjvn. leggur hér fram brtt. við till. eins og hún var lögð fram og mælir með því að tili. verði samþykkt í samræmi við þá breytingu. Brtt. er á þskj. 827 og er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Tillögugreinin orðist svo:

Með vísan til bráðabirgðaákvæða í lögum nr. 41/1983, um málefni fatlaðra, ályktar Alþingi eftirfarandi: Athugunar- og greiningardeild í Kjarvalshúsi við Sæbraut á Seltjarnarnesi verði breytt í Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, fyrsta áfanga, og verði undir yfirstjórn félmrn. Forstöðumaður verði þegar ráðinn að stofnuninni.“

Það liggur enn fremur fyrir lausleg áætlun um það hvað aukið starfslið við stofnunina muni kosta mikið fé. skv. áliti félmrn. má ætla að þar verði um að ræða fjölgun stöðugilda sem hafi í för með sér kostnaðarauka er nemi allt að 4 millj. á ársgrundvelli.

Ég ítreka svo þá niðurstöðu fjvn. að nefndin leggur til að till. verði samþykkt með þeirri breytingu sem kynnt er í brtt. á þskj. 827.