07.05.1985
Sameinað þing: 80. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4877 í B-deild Alþingistíðinda. (4161)

200. mál, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég þakka fjvn. fyrir afgreiðslu á þessu máli. Hér er um mjög þýðingarmikið mál að ræða eins og fram hefur komið hér bæði í framsögu hv. 1. þm. Norðurl. v., formanns fjvn., og eins í máli hv. síðasta ræðumanns, hv. 2. þm. Austurl.

Það er ekkert vafamál að þessi afgreiðsla var mjög þýðingarmikil. Hér er um að ræða, eins og kemur fram í þáltill. sjálfri, ákveðna lausn á máli sem búið er að þvælast lengi fyrir í sambandi við stjórnun á málefnum fatlaðra. Þessi áfangi, sem fjvn. leggur hér til, er ákaflega mikilvægur vegna þess einnig að um leið og Alþingi hefur samþykkt þessa till. fjvn. er hægt að hefjast handa um að koma því skipulagi á sem allir bíða eftir. Í þessari brtt. fjvn. felst einnig það að hægt verður að ráða forstöðumann að þessari stofnun og koma rekstrinum í það form að hann fullnægi því sem að er stefnt.

Ég þakka fyrir þessa afgreiðslu og vil jafnframt vekja athygli á 16. gr. laganna um málefni fatlaðra, um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og mikilvægi þess að áfram verði unnið að því að undirbúa framtíðarlausn á þessu máli, þ. e. uppbyggingu Greiningar- og ráðgjafarstöðvar. Ég treysti fjvn. vel í því máli, að huga að því verkefni hvernig á að standa að þeirri uppbyggingu sem gert er ráð fyrir í lögunum. Og ég vil leggja áherslu á að það er ákaflega mikilvægt að að því sé unnið. Ég er ekkert að leggja fram neina kröfu eða ósk um á hvern hátt það verði gert. Sú till. sem liggur hér fyrir um húsnæði, sem á sínum tíma var formuð, er alls ekkert afgerandi í þessu máli. Það er e. t. v. hægt að finna aðrar og skynsamlegri lausnir sem hægt er að vinna að. Og að því þarf að vinna og móta framtíðina í þessu máli.

En ég endurtek þakkir mínar fyrir þessa afgreiðslu og ég veit að eftir henni hefur verið beðið. Fjöldi fólks bindur vonir við þann vísi að greiningarstöð sem er orðinn til í Kjarvalshúsi við Sæbraut.