07.05.1985
Sameinað þing: 80. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4919 í B-deild Alþingistíðinda. (4180)

394. mál, atvinnumál á Norðurlandi eystra

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þó að hér sé nú haldinn kvöldfundur og sumir séu búnir að vera býsna oft hér í ræðustólnum í dag ætla ég ekki að láta þessa till. um atvinnumál á Norðurlandi eystra fara fram hjá mér í þessum umr. án þess að segja um hana nokkur orð. Ég sé ekki eftir mér og ekki eftir öðrum hv. þm. að eyða örlitlum tíma hér í að ræða atvinnumál, hvort sem það er á Norðurlandi eystra eða annars staðar. Hér höfum við tveir hv. þm. flutt till. um það að litið verði sérstaklega til afvinnuástands á Norðurlandi eystra og er ekki nema eðlilegt því að það hefur óvíða ef nokkurs staðar á landinu verið jafnslæmt á undanförnum tveimur árum og ber auðvitað ýmislegt til.

Það er eðlilegt að tekið sé sérstaklega á atvinnumálum þegar atvinnuleysi er komið á það stig sem er t. a. m. á Akureyri og nokkrum öðrum þéttbýlisstöðum í Norðurlandi eystra þegar verst gerist t. d. yfir vetrartímann. Goðsögnin um það, herra forseti, að á Íslandi sé ekkert atvinnuleysi á því miður ekki alls staðar við rök að styðjast. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því. Þegar það eru orðin nokkur prósent vinnandi manna sem ekki hafa atvinnu, jafnvel svo mánuðum skiptir, er ekki lengur hægt að tala um land án atvinnuleysis að mínu mati. Fyrir nú utan það að einhverjir af þeim sem þó teljast hafa vinnu leggja á sig verulegt óhagræði til þess að ná sér í þá atvinnu, eins og rakið var reyndar hér af flm.

Atvinnuástandið hefur verið sérstaklega alvarlegt á Akureyri s. l. tvo vetur og jafnvel lengur. Þar hefur t. a. m. verið stórfellt atvinnuleysi hjá iðnaðarmönnum, sérstaklega í byggingariðnaði, og ýmsir fleiri hópar hafa þar búið við nokkurt atvinnuleysi. Ástandið í dag gefur einnig tilefni til að hugleiða hvað sé í vændum á allra næstu árum. Það verður að segjast eins og er að því miður horfir þetta mál illa við landsbyggðinni af ýmsum ástæðum. Má þar nefna t. d. að stærri árgangar að hlutfalli koma inn á vinnumarkaðinn á landsbyggðinni en hér á þéttbýlissvæðinu við Faxaflóa. Þannig eru t. a. m. um 40% íbúa landsins heimilisföst utan stór-Reykjavíkursvæðisins, en nær 48% af þeim vinnuafla sem bætist á vinnumarkaðinn á næstu árum eru úti á landi. Þetta misræmi stafar af hærri frjósemistölu og stærri árgöngum úti á landi og gerir auðvitað aðstöðu landsbyggðarinnar til þess að halda sínum hlut og skaffa sínu fólki atvinnu á heimaslóðum enn þá erfiðari en ella. Þetta þýðir ósköp einfaldlega að fleiri störf þurfa að bætast við að hlutfalli úti á landi en hér á stór-Reykjavíkursvæðinu.

Annað sem einnig gefur tilefni til að hugleiða stöðuna eru þær spár sem uppi eru um hvar líklegast sé að störf muni bætast við á næstu árum og áratugum. Það hefur oft verið horft til iðnaðar í því sambandi og hann hefur verið ákveðið lausnarorð hjá þeim sem um þetta fjalla, að sjávarútvegur og landbúnaður og aðrar tengdar greinar muni ekki bæta við sig miklum mannafla en iðnaðurinn hljóti að gera það. En nú eru uppi um það kenningar ekki ómerkari manna en dr. Ingjalds Hannibalssonar að iðnaðurinn sem slíkur muni engan veginn taka við öllum þeim mannafla sem honum hefur verið ætlað fram að þessu og það geri hann ekki vegna þess að þar muni þurfa að verða miklu meiri framleiðniaukning en hingað til hefur verið reiknað með, eigi iðnaðurinn á annað borð að halda velli. Þá eru ekki margir kostir eftir, herra forseti, sem gætu lagt til öll þessi nýju störf. Mest er þá mænt á þjónustuna, alls kyns þjónustu, að þar verði nýju störfin að skapast, og allir vita hvernig henni er skipt í landinu. Hún er í það miklu minna mæli úti á landi að það þarf að verða nær þreföld aukning í þeirri þjónustu sem þar þó er til þess að hún geti bætt við sig jafnmörgum störfum og hún gerir hér. Svo dökk er sú mynd.

Með þetta tvennt sérstaklega í huga held ég að það sé ástæða til að taka atvinnumálin á hverju landsvæði, í hverjum landshluta og einnig á landinu í heild til athugunar. Stjórnvöld bera hér mikla ábyrgð. Hverjar meiningar sem menn hafa um beina þátttöku þeirra í atvinnulífinu er alveg ljóst að stjórnvöld hlaupa ekki frá ábyrgð sinni í þessu máli á neinn hátt. Í fyrsta lagi er það þeirra hlutverk að verulegu leyti að marka randskilyrðin fyrir atvinnureksturinn í landinu. Það má taka sem dæmi að stjórnvaldsaðgerðir sem hafa áhrif á rekstrarstöðu sjávarútvegs eru aðgerð af því tagi. Slíka ábyrgð bera stjórnvöld og þar mættu þau, a. m. k. að mínu viti, grípa inn í ástand mála eins og það er í dag, í rekstrarstöðu og afkomu framleiðslugreina þjóðarbúsins.

En stjórnvöld bera ekki síður og kannske sérstaklega ábyrgð hvað varðar skipulag opinberrar þjónustu og staðsetningu opinberra stofnana því að það hefur einnig áhrif, jafnstór aðili og ríki og opinberir aðilar eru í þessum efnum. Þau geta margt gert sem hefur áhrif á þessa mynd. Ég tel að það sé óhjákvæmilegt að til þess verði einnig litið ef atvinnuástand á Norðurlandi eystra verður sérstaklega skoðað. Ég nefndi Akureyri því að þar hefur atvinnuástandið verið einna alvarlegast. Það vill einmitt svo til að nú eru uppi hugmyndir um ýmsar greinar þjónustu og ýmsar stofnanir sem handhægt væri að koma á fót eða flytja til Akureyrar. Það er dæmi um hið síðarnefnda sem stjórnvöld geta gert á þessu sviði og hefur áhrif á atvinnuástandið.

Herra forseti. Ég vildi koma þessum almennu hugleiðingum mínum á framfæri við þennan hluta umr. um þessa þáltill. sem ég er meðflm. að ásamt með hv. þm. Kolbrúnu Jónsdóttur.