07.05.1985
Sameinað þing: 80. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4923 í B-deild Alþingistíðinda. (4183)

394. mál, atvinnumál á Norðurlandi eystra

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er ekki einleikið með þá ofurtrú sem fulltrúar Sjálfstfl. hafa, þegar atvinnumál eru rædd, á stóriðjunni. Það er ekki einleikið. Það er ekkert nema stóriðjan sem leysir vandann. Bara hókus pókus, þá hverfur allur vandinn eins og dögg fyrir sólu, svo einfalt er það. Og vera að bulla um þróunarfélög og svoleiðis skiptimynt. Nei, það er ekki það sem skal. Það er stóriðjan.

Ég vil vegna orða hv. þm. Björns Dagbjartssonar hér áðan spyrja hann einnar spurningar. Af því að við erum að ræða atvinnumál á Norðurlandi eystra og þetta tengist Norðurlandi eystra tel ég að hann geti vel komið hér upp við þessa umr. og svarað spurningu minni ef hann hefur svarið tilbúið. Ég spyr hvort hann treysti sér til að styðja brtt. mína og fleiri þm. við frv. ríkisstj. um hlutafélag til að örva nýsköpun í atvinnulífi, en sú brtt. er á þá leið að heimili og varnarþing þess félags verði á Akureyri. Og vel að merkja: bæjarstjórn Akureyrar hefur sent um það skeyti að hún styðji þetta og hvetur alla góða menn til þess að styðja sínar óskir um að þetta fyrirtæki verði þarna norðan heiða. Bæjarstjórn Akureyrar er því a. m. k. á því að fleira geti orðið til bjargar hennar sóma en stóriðjan ein. Hún hefur áhuga á þessu þróunarfélagi. Ég spyr sem sagt hv. þm. í framhaldi af orðum hans hér áðan hvort hann sé ekki sammála þessu, hvort hann sjái enga ástæðu til þess að setja upp þetta þróunarfyrirtæki þarna norðan heiða, hvort það sé ekkert annað en stóriðjan sem komist að í hans höfði í þessum efnum.