08.05.1985
Efri deild: 66. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4963 í B-deild Alþingistíðinda. (4201)

146. mál, sjómannalög

Frsm. (Egill Jónsson):

Virðulegi forseti. Eins og ég gat um við 2. umr. þessa máls tók samgn. Ed. þetta mál aftur til athugunar. Ég leitaði til Páls Sigurðssonar dósents um hugsanlega breytingu á 17. gr. og ég sé að hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir hefur tekið þá ábendingu upp og gert að sinni tillögu. Þar sem ábendingin kom frá þessum virðulega þm. bað ég Pál að hafa samband við hv. þm. Sigríði Dúnu, sem hann gerði, um afgreiðslu málsins. Það kom þá í ljós að hún felldi sig ekki við þessa ábendingu og lagði til að þar yrði meiru bætt við. Í framhaldi af þessu fjallaði samgn. í heild um málið. Hún komst að þeirri niðurstöðu, sem er afstaða n., að það væri ekki til neinna bóta að gera tillögu til breytinga við fyrra álit n. Byggðist það m. a. á því að þar sem ákvæði 17. gr. taka hvorki til sjúkdóma né heldur slysa geti staðgengilsregla af engu tagi átt þar við.