08.05.1985
Efri deild: 66. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4965 í B-deild Alþingistíðinda. (4206)

146. mál, sjómannalög

Árni Johnsen:

Virðulegi forseti. Í umræddri brtt. frá hv. þm. Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur hefur þm. undirstrikað að þarna sé um að ræða framkvæmd sé þess nokkur kostur. Það tryggir auðvitað ekki nokkurn skapaðan hlut. Hugmynd þm. er vel skiljanleg, en henni er einfaldlega ekki hægt að koma fyrir í lagasetningu eins og með brtt. er ætlast til vegna þess að við getum ekki farið að setja í lög, eins og kom fram í ræðu hv. þm. Kolbrúnar Jónsdóttur, að t. d. eingöngu Samband ísl. samvinnufélaga gæti í krafti mikils og fjölskrúðugs skipaflota hnikað til störfum á þennan hátt. Við getum ekki sett í lög að það megi ekki ráða konu til sjómennsku nema hjá Sambandinu. Við erum að ræða þarna um almenna sjómennsku og sjómannastörf í landinu. Gallinn við brtt. er sá að hún segir hreinlega ekki neitt nema það, sem er algengur samskiptaháttur í líklega öllu atvinnulífi landsins, að menn reyni að hnika til eftir því sem kostur gefst þegar upp koma atvik og vandamál sem taka verður tillit til.

Það mun hafa komið fram í upphaflegri kynningu hv. þm. Sigríðar Dúnu Kristmundsdóttur í samræðum við formann samgn. að ástæða væri til að gera brtt. þar sem hnikað yrði til, þ. e. um borð í skipi mætti færa til á milli starfa innan skipshafnar. Það er auðvitað enn síður framkvæmanlegt, en það hefur nú dottið út úr þessari tillgr. sem betur fer því það var svo óraunhæft að leitt var að heyra að slíkt kæmi fram hjá hv. þm. Það undirstrikar a. m. k. ekki þekkingu á sjómennsku og sjómannsstörfum almennt. Ég held þess vegna að ekki þurfi að teygja mjög lopann í þessari umr. Það er ekki hægt að tryggja að þessi brtt. sé afgerandi á neinn hátt, en auðvitað er þarna um að ræða hugmynd sem allir hljóta að taka tillit til í eðlilegum samskiptum.