08.05.1985
Neðri deild: 65. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4988 í B-deild Alþingistíðinda. (4256)

5. mál, útvarpslög

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Það er rétt að ég skýri frá stefnumóti okkar hæstv. menntmrh. Það var fyrir opnum dyrum á stigagangi í þessu húsi. Þetta mál, um auglýsingar, hefur verið ágreiningsmál innan Framsfl. allt frá því að frv. var á sínum tíma samið. Töldu ýmsir að a. m. k. á reynslutíma slíks frjáls útvarps ætti ekki að leyfa neinar auglýsingar. Eru þess vitanlega mörg dæmi eins og t. d. í Noregi og víðar. Þegar ákveðið var að flytja þetta frv. sem stjfrv. þá varð hins vegar niðurstaðan sú að mikill meiri hluti í þingflokki framsóknarmanna ákvað að styðja málið eins og það er. Málið var tekið til umræðu eftir meðferð þess í hv. menntmn. þessarar deildar. Þá voru enn skiptar skoðanir um þetta ákvæði, þ. e. 4. gr., um auglýsingar. Lýstu þá nokkrir, að vísu ekki margir, því yfir að þeir gætu ekki stutt þetta mikið frelsi í auglýsingum hinna frjálsu útvarpa eins og kallað er.

Eftir þetta varð okkar stefnumót hér á stigagangi, eins og ég sagði áðan, og við ræddum um þessa grein. Ég sagði þá að ég sæi ekkert athugavert við það út af fyrir sig þó að menn hefðu frjálsar hendur með tilliti til þeirrar deilu sem um þessa grein væri. En ég hafði þá eingöngu í huga annars vegar frv. óbreytt eða engar auglýsingar. Ég held ég fari rétt með að þá hafi ekki verið komin fram brtt. frá hv. þm. Friðriki Sophussyni þó hún væri komin frá þm. Bandalags jafnaðarmanna. Ég held að það sé rétt hjá mér að hún hafi komið fram síðar. Það er rétt, sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, að daginn eftir eða svo staðfesti ég að svona væri. Misskilningurinn er í því fólginn að ég var ekki með í huga algert frelsi til auglýsinga, enda má náttúrlega spyrja hvaða umboð ég hafði. Kannske menntmrh. hafi haft umboð til að semja um svo umdeilda grein.

En um auglýsingar eða ekki auglýsingar má vitanlega lengi deila og fyrst ég er staðinn hér upp vil ég fara fáum orðum um þetta frv.

Ég er því hlynntur að hér verði leyft svokallað frjálst útvarp. Ég lít svo á að það sé eðlilegt eins og frelsi er til að gefa hér út dagblöð. Ég verð hins vegar að viðurkenna að ég hef mínar efasemdir um tímann sem til þessa er valinn. Ég veit að vísu að e. t. v. verður ekki mikið fjármagn bundið í slíkum útvarpsstöðvum en þó er það nokkuð. Og nú er þannig ástatt í okkar þjóðfélagi að við þurfum satt að segja að gæta mjög vel að því hvernig við ráðstöfum bæði opinberu fé, fé fyrirtækja og fé einstaklinga. Þjóð sem skuldar 63% sinnar þjóðarframleiðslu erlendis þarf að hugleiða það mjög vel hvernig hún ráðstafar sínu fé. Þess vegna hefði ég reyndar talið að átt hefði að bíða nokkuð með að veita það frelsi sem hér um ræðir þangað til við höfum aðeins betur rétt úr kútnum. Ég hef hins vegar fallist á þetta á þeirri forsendu að miðstýring að þessu leyti sé heldur ekki sérstaklega eftirsóknarverð og menn verði þá sjálfir að bera ábyrgð á þeirri fjárfestingu sem þeir leggja í þó að hvert skipbrot á því sviði sé að sjálfsögðu einnig dýrt fyrir þjóðarbúið eins og er. Ég tek fram að þannig styð ég þetta mál og mikill meiri hluti þingflokks framsóknarmanna.

Um auglýsingarnar gegnir dálítið öðru máli. Við leggjum á það ríka áherslu að hér verði rekið öflugt ríkisútvarp og sjónvarp sem nái til allra landsmanna og við teljum að auglýsingar séu mikilvægur þáttur í rekstri þess útvarps. Að öðrum kosti sýnist okkur að vel kunni svo að fara að skattborgarar þurfi að greiða meira með rekstri ríkisútvarps og sjónvarps ef auglýsingatekjur minnka. Þess vegna eru ýmsir hjá okkur þeirrar skoðunar að það ætti að hafa harðari ákvæði um auglýsingarnar eða banna þær alveg á reynslutíma hins frjálsa útvarps. En ég lýsti því áðan að hins vegar ákvað meiri hlutinn að fallast á frv. í því formi sem er nú.

En það er margt fleira sem inn í þetta spilar. Ég var t. d. að fá bréf frá Félagi kvikmyndagerðarmanna sem ég ætla að lesa, með leyfi forseta. Þar segir:

„Í tilefni af umræðum um nýtt frv. til útvarpslaga vilja Félag kvikmyndagerðarmanna og Samband ísl. kvikmyndaframleiðenda benda á eftirfarandi:

Um leið og frelsi til miðlunar á sjónvarpsefni er aukið, verður enn þá mikilvægara en áður að finna leiðir til að efla innlenda dagskrárgerð, bæði hjá Ríkisútvarpinu og hjá nýjum sjónvarpsstöðvum. Verði nýjum sjónvarpsstöðvum heimilað að birta auglýsingar má reikna með því að það auðveldi þeim að standa undir innlendri dagskrárgerð. Þó er rétt að setja um birtingu auglýsinga strangar reglur, líkt og gilt hafa í Ríkisútvarpinu með góðum árangri.

Til að stuðla enn frekar að öflugri innlendri dagskrárgerð gerum við að tillögu okkar að tekið verði gjald af öllu erlendu dagskrárefni sem renni í sérstakan dagskrársjóð. Af hverri sýningarmínútu erlends efnis verði greitt allt að 50% innkaupsverðs til sjóðsins sem væri í umsjá sjónvarpsstöðvanna og kvikmyndaiðnaðarins og hefði það hlutverk að fjármagna gerð innlends dagskrárefnis. Með slíku fyrirkomulagi yrðu ný útvarpslög ekki aðeins til að auka framboð á erlendu dagskrárefni heldur einnig til að renna stoðum undir gerð vandaðrar innlendrar dagskrár.“

Undir þetta skrifa átta einstaklingar úr Félagi kvikmyndagerðarmanna. Þorsteinn Jónsson, formaður, Hrafn Gunnlaugsson, Þórarinn Guðnason, Hjálmtýr Heiðdal, Þráinn Bertelsson, Sigfús Guðmundsson, Björn Björnsson, Kristín Jóhannesdóttir.

Því nefni ég þetta að í þessu er vakin athygli á að fleiri sjónvarpsstöðvar munu væntanlega auka mjög framboð á erlendu sjónvarpsefni og þá er spurningin: Hvernig mun innlendri gerð slíks efnis ganga að keppa við oft ódýrt erlent efni sem inn á markaðinn kemur? Ég held að þetta sé mjög verðugt umhugsunarefni. Ætlum við að ýta þessu innlenda efni nánast út af markaðinum eða getum við þá um leið tryggt því öruggan sess í sjónvarpsefni hérlendis?

Einn af þessum ágætu mönnum, sem skrifa undir bréfið, Þráinn Bertelsson, ræddi reyndar um þetta við mig í dag og benti á að ýmsar leiðir eru farnar í þessu sambandi. T. d. tjáði hann mér að í Bretlandi og Ástralíu væru ekki leyfðar án sérstakrar greiðslu auglýsingar sem útbúnar væru erlendis. Það yrði að útbúa auglýsingaefnið innanlands. M. ö. o., margar þessar miklu og fjölskrúðugu auglýsingar sem við sjáum nú, fyrir Coca Cola og Pepsí og ég veit ekki hvað og hvað, þær yrði þá að útbúa innanlands eða greiða sérstakt gjald. Þetta er kannske ágæt hugmynd sem mætti hugleiða. E. t. v. ætti að gefa auglýsingar frjálsar en setja sem kröfu að þær væru útbúnar innanlands. Eða erum við Íslendingar enn þá lengra komnir á þessari frjálsræðisbraut en t. d. Bretar og Ástralíumenn og fleiri sem hafa nú ekki verið kenndir við of mikla miðstýringu? Ég held sem sagt að um leið og þetta skref er stigið, ég tala nú ekki um ef auglýsingar verða algerlega frjálsar, þá sé mjög athugandi hvort ekki á einmitt að fara einhverjar svipaðar brautir og þarna hefur verið gert og nota þá tækifærið og þennan fjölmiðil í nýju formi, frjálst sjónvarp og útvarp, til þess að styrkja og efla slíkan iðnað hér innanlands.