31.10.1984
Efri deild: 8. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 641 í B-deild Alþingistíðinda. (426)

85. mál, rannsóknarnefnd til að rannsaka afskipti ráðherra og embættismanna af rekstri ólöglegra útvarpsstöðv

Haraldur Ólafsson:

Virðulegi forseti. Það er ekki ætlun mín að fara að ræða hér langt mál um löglegar eða ólöglegar útvarpstöðvar. Ég á von á því að innan nokkurra vikna komi hér til umr. frv. um ný útvarpslög og þá er tækifæri til þess að ræða um ýmiss konar fyrirkomulag sem hugsanlegt er á útvarpsrekstri. En ég get ekki látið hjá líða að minnast hér á örfá atriði sem hafa komið fram í þessum umr. um þáltill. um skipun rannsóknarnefndar. Þar virðist mér að menn hafi leyft sér að fara heldur vítt og breitt í stað þess að einbeita sér að kjarna málsins, þ.e. hvort ráðherrar hafi látið undir höfuð leggjast að sinna ótvíræðum skyldum sínum eða hafi með atbeina sínum torveldað réttum aðilum rannsókn þessara mála.

Ef hér væri um mjög mikilsvert mál að ræða, alveg gífurlegt mál, þá ætti slík till. fullan rétt á sér. En ég held að eðli sínu samkvæmt sé þetta mál þannig vaxið að flestir þættir þess séu næsta augljósir. Ég lít svo á að tilgangur hv. flm. till. sé fyrst og fremst að gefa ráðh. tækifæri til þess hér á hinu háa Alþingi að skýra mál sitt. Þeir hafa þegar gert það að nokkru leyti og ég á von á því að þeir muni svara ýmsum þeim spurningum sem þegar hafa komið fram.

Ég tek undir það, sem hv. þm. Tómas Árnason sagði, að ég tel ekki ástæðu eðli málsins vegna til að skipa slíka rannsóknarnefnd og ég mun greiða atkv. gegn skipun hennar. En það breytir því ekki að ég tel ýmis atriði í þessu máli vera þess eðlis að full ástæða og réttmæt sé að ræða það hér á hinu háa Alþingi.

Það er aðeins ein spurning sem ég vildi leggja fyrir hæstv. menntmrh. vegna þess að hennar hefur ekki verið spurt enn þá. Það er í sambandi við Ríkisútvarpið. Það hefur farið dálítið fyrir brjóstið á mér og öðrum að hin mjög svo ótímabæra útganga útvarpsfólks kl. 1, 1. okt. s.l. hefur verið notuð til þess að réttlæta og jafnvel að varpa einhverjum ljóma á starfsemi — ég leyfi mér að segja — ólöglegra útvarpsstöðva í landinu. Ég er dálítið hissa á því núna að enn skuli þetta vera tekið upp hér í þessari umr. að það að útvarpsfólkið gekk út skuli vera notað til þess að meira en réttlæta, jafnvel að telja að nauðsynlegt hafi verið að slíkar stöðvar risu. Ég er þessu algerlega ósammála. Ég vil vísa á bug allri slíkri röksemdarfærslu.

Það er alveg augljóst mál að hinar svokölluðu frjálsu útvarpsstöðvar voru tilbúnar að hefja starfsemi þegar er verkfallið hæfist. Það voru ýmis teikn á lofti sem bentu til þess að útvarpið mundi hætta útsendingum að morgni 4. okt. A.m.k. var hæstv. fjmrh. svo viss um það að hann greiddi starfsfólki BSRB ekki laun 1. okt. á þeirri forsendu að verkfallið mundi hefjast hinn 4. En ég vil að mjög skýrt komi fram að ég tel rangt að tengja þetta tvennt. En spurning mín er þessi: Hvernig stóð á því að ekki var gripið til þeirra ráða sem ríkisstj. hafði yfir að ráða til þess að tryggja starfsemi Ríkisútvarpsins áfram í verkfallinu? Það var í lófa lagið að setja brbl., ekki um frjálsar útvarpsstöðvar, heldur um einhverja tiltekna starfsemi Ríkisútvarpsins. Til þess kom ekki fyrr en kjaradeilunefnd heimilaði mjög takmarkaða fréttaþjónustu útvarpsins. Ég veit að hæstv. menntmrh. mun hafa svar við þessari spurningu. Ég vil að hún komi fram vegna þess að hún er innlegg í þetta mál allt saman.

Að öðru leyti hef ég ekki miklu við þetta að bæta. En ég verð þó að láta í ljós dálitla undrun með það að Ríkisútvarpið skuli ekki kallast frjálst útvarp, en hins vegar útvarpsstöðvar, sem spretta upp við ýmis undarleg skilyrði, eru kallaðar frjálsar. Ég er ekki svo viss um að það sé til öllu frjálsari starfsemi á Íslandi en einmitt sú sem fram fer í Ríkisútvarpinu, bæði hljóðvarpi og sjónvarpi. Ég held að einmitt það form sem þar hefur nú tíðkast um meira en hálfrar aldar skeið hafi að ýmsu leyti verið mjög heppilegt fyrir þessa fámennu þjóð og ég mun koma að því nánar þegar útvarpslagafrumvarp verður rætt hér.

Hins vegar er ég fylgjandi því og hef verið nú um skeið að önnur form útvarpsrekstrar verði tekin upp og ég tel alveg sjálfsagt að einkaréttur útvarpsins verði mjög takmarkaður og reyndar afnuminn. Ég hefði að vísu óskað eftir nokkuð lengri umþóttunartíma um þetta og það má vera að það komi fram í umr. um útvarpslagafrumvarpið. En hvort frelsi hinna frjálsu verður svo miklu meira, það er ég ekki viss um.

Það eru allmörg ár, sem betur fer, liðin síðan málflutningur var kenndur við menn eins og Göbbels. Ég segi, sem betur fer, því að það er óréttmætt og það er rangt og við eigum ekki að stunda slíkt, hvorki í ljósvakanum né í blöðum. Þess vegna hrökk ég óneitanlega við þegar ég las í leiðara DV núna hinn 23. okt. s.l. setningu eins og þessa með leyfi virðulegs forseta:

„Lesendur þurfa ekki lengur að gera sér að góðu hlutdrægni fréttastofu Ríkisútvarpsins og hinar mjög svo vanstilltu BSRB-fréttir, sem voru skrifaðar í heiftúðugum stíl Völkischer Beobachter.“

Ég átti ekki von á að þurfa að lesa svona í íslensku blaði haustið 1984. Ég held a$ við ættum að taka til athugunar að tjáningarfrelsi er ekki frelsi til að ausa óhróðri og kasta skít hver í annan, heldur frelsi til að ræða málin á skynsamlegan og yfirvegaðan hátt.