09.05.1985
Efri deild: 69. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5027 í B-deild Alþingistíðinda. (4302)

209. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Frsm. (Valdimar Indriðason):

Virðulegi forseti. Ég kemst ekki hjá því að svara hv. þm. nokkrum orðum. Ég segi það nú þó að ég hafi sagt það áður að ég held að hans málflutningur stafi af miklum ókunnugleika. Semja eftir öðrum leiðum, sagði hann áðan. Um hvað á að semja þá? Um fiskverð? Hvernig ætlar hann að framkvæma þá samninga eins og nú er komið? Ég spyr og vona að hann geti svarað mér. Hann getur það ekki, ég fullyrði að hann getur það ekki því að eins og markaðurinn er sem við erum með hér þá getur hann ekki samið á milli aðila í þessum efnum.

Við erum búnir að læra það allt of lengi og sjá það allt of lengi í gegnum árin að menn hafa lent í algeru strandi með þessi mál sín, sjómenn og fiskkaupendur. Það hefur borið mikið í milli hjá þeim. Af hverju er það? Það er vegna þess m. a. að það hefur verið gerð gengisfelling, það er alveg hárrétt. En það er ekki sjávarútveginum að kenna og ekki gert vegna hans. Þetta er misskilningurinn í þjóðfélaginu, það er búið að safna upp vandanum í þjóðfélaginu eins lengi og mögulegt er. Þá er farið út í það að fella gengið til þess að reyna að rétta þennan undirstöðuatvinnuveg. Ég held að ég viti ekki um eina einustu ríkisstj. og ekki hv. þm. heldur sem er að gera sér það að leik að fella gengið. Ég held að allar ríkisstj. séu að reyna að forðast það eins lengi og þær geta. Það er því ekki þessari verðlagningu í Verðlagsráðinu að kenna hvort þetta er gert eða ekki. Þegar pakkinn, þegar pípurnar verða fullar af kostnaðaraukum sem eru búnir að hlaðast upp á þennan atvinnuveg þá hefur ekki önnur leið verið fundin enn þá til að reyna að koma þessu í sæmilegt horf en að fella gengið öllum til lítillar gleði.

Þetta eru því ekki lausnarorðin hv. þm. Það er hægt að tala fjálglega um þetta, boða hér frelsi og fríðindi, vera með yfirboð í þessum efnum, en koma ekki með nokkur rök fyrir því hvernig á að gera það. Hann gæti farið og fengið nokkra báta við einstök tækifæri til að landa hér í Reykjavíkurhöfn og setja í gáma þegar góður markaður er í Englandi rétt fyrir páska, alveg upplagt að kaupa þá gámafisk fyrir 30 kr. kílóið eða meira. Hvað ætlar hann að gera við fiskinn hinn tímann þegar engin markaður er erlendis? Og ég spyr hann aftur: Ætlar hann þá að reka það fólk heim sem er hér í vinnslustöðvunum hjá okkur allt í kringum landið og heldur hér uppi atvinnulífinu? Mér kemur það ekkert við, segir hv. þm. Ef þið getið ekki framleitt skó sem þið getið selt þá á að hætta að framleiða þá. Þetta eru svörin. Þetta eru ekki rök hjá BJ.