09.05.1985
Neðri deild: 66. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5034 í B-deild Alþingistíðinda. (4328)

47. mál, barnalög

Frsm. meiri hl. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Allshn. hefur fjallað um frv. til l. um breytingu á barnalögum nr. 9 frá 15. apríl 1981. Nefndin sendi frv. til umsagnar tveggja aðila, Félags einstæðra foreldra, sem lýsir stuðningi við málið, og Tryggingastofnunar ríkisins en þaðan hefur engin umsögn borist. Þess má geta að frv. til barnalaga var samið af sifjalaganefnd á vegum dóms- og kirkjumrn. Höfð voru til hliðsjónar nýleg ákvæði Norðurlandaþjóða um sama efni. Frv. var fyrst lagt fyrir Alþingi vorið 1976. Það var flutt fimm sinnum alls en varð að lögum vorið 1981. Lögin tóku gildi 1. janúar 1982.

Hér er um að ræða frv. til breytinga á einu ákvæði þessara barnalaga. En um ákvæði þeirra laga er það að segja að þau eru mjög samtvinnuð löggjöf um almannatryggingar. Það er vitað að sú löggjöf er nú í heildarendurskoðun. Stjórnskipuð nefnd undir forustu Helga V. Jónssonar hæstaréttarlögmanns vinnur að því verkefni. Með hliðsjón af þessu m. a. leggur meiri hl. n. til að frv. þessu, ásamt brtt. við það sem lagðar hafa verið fram, verði vísað til ríkisstj.

Undir þetta nál. rita fimm af sjö nefndarmönnum í allshn., alþm. Gunnar G. Schram, Friðjón Þórðarson, Páll Dagbjartson, Magnús Reynir Guðmundsson og Stefán Guðmundsson.