09.05.1985
Neðri deild: 66. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5040 í B-deild Alþingistíðinda. (4335)

479. mál, ferðamál

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Í september 1983 skipaði ég nefnd til að endurskoða gildandi lög um skipulag ferðamála. Þau lög eru nr. 60 frá 1976. Nefndinni var sérstaklega falið að kanna eftirfarandi ákvæði gildandi laga:

„a. Ákvæði 8. gr. um álagningu sérstaks gjalds á vörusölu Fríhafnarinnar í Keflavík, sem skuli nema 10% af árlegu söluverðmæti og renna til landkynningarverkefna o. fl.

b. Ákvæði III. kafla laganna sem fjalla um Ferðaskrifstofu ríkisins, rekstur hennar og rekstur sumarhótela.

c. Ákvæði IV. kafla laganna sem fjalla um almennar ferðaskrifstofur.

d. Ákvæði laganna um Ferðamálasjóð.

Í nefndina voru skipaðir Friðjón Þórðarson alþm., formaður, Ólafur S. Valdimarsson ráðuneytisstjóri, Heimir Hannesson formaður Ferðamálaráðs, Hólmfríður Árnadóttir framkvæmdastjóri Sambands veitinga- og gistihúsa og Ingólfur Hjartarson lögfræðingur Félags ísl. ferðaskrifstofa. Ritari nefndarinnar var Pétur Pétursson fyrrv. alþm. sem sat alla fundi og tók virkan þátt í störfum nefndarinnar.

Auk þeirra ákvæða sem nefndinni var sérstaklega falið að kanna skv. framansögðu gerði hún tillögur um þrjár nokkuð veigamiklar breytingar á gildandi lögum um skipulag Ferðamálaráðs, svo og ýmsar minni háttar lagfæringar.“

Ég taldi nauðsynlegt að gera nokkrar breytingar á frv.-drögum nefndarinnar og er gerð sérstök grein fyrir þessum breytingum í almennum aths. með frv. Þegar saman eru teknar tillögur nefndarinnar og breytingar mínar á þeim verður lagafrv. í eftirfarandi meginatriðum frábrugðið gildandi lögum:

1. Gert er ráð fyrir að fjölgað sé í Ferðamálaráði um fimm fulltrúa, miðað við gildandi lög, úr 14 í 19 fulltrúa. Fimm fulltrúar skulu skipaðir án tilnefningar í stað þriggja í dag og skal einn þeirra vera formaður ráðsins og annar varaformaður. Þar sem ferðamálasamtökum í einstökum sveitarfélögum og landshlutum hefur vaxið mjög fiskur um hrygg á undanförnum árum er sjálfsagt að þau hafi sína talsmenn í Ferðamálaráði og hér er gert ráð fyrir að Reykjavíkurborg tilnefni sérstaklega einn fulltrúa og ferðamálasamtök utan Reykjavíkur tilnefni tvo fulltrúa.

2. Tillaga er gerð um að Ferðamálaráði sé skipuð fimm manna framkvæmdastjórn sem sé að meiri hluta skipuð fulltrúum helstu hagsmunaaðila ferðaþjónustunnar, þ. e. frá Félagi ísl. ferðaskrifstofa, Flugleiðum hf. og sambandi veitinga- og gistihúsa. Formaður Ferðamálaráðs yrði jafnframt skipaður án tilnefningar formaður framkvæmdastjórnar og fimmti stjórnarmaðurinn yrði tilnefndur af Ferðamálaráði til eins árs í senn og mundu þá væntanlega hinar ýmsu greinar ferðaþjónustunnar skiptast á um að tilnefna fulltrúa í framkvæmdastjórnina.

Undanfarin ár hefur sérstök þriggja manna stjórnarnefnd farið með svipað hlutverk og framkvæmdastjórninni er ætlað. Hefur sú tilhögun gefið góða raun og því er þessi tillaga gerð. Jafnframt því að framkvæmdastjórn yrði lögfest yrði ekki þörf á að Ferðamálaráð allt kæmi saman eins oft og nú er þar sem ráðið er orðið nokkuð fjölmennt, en næsta víst að þessi skipulagsbreyting hefði í för með sér fljótari og virkari afgreiðslu mála en unnt er í dag.

3. Ákvæðum III. kafla gildandi laga um Ferðaskrifstofu ríkisins og starfsemi hennar er breytt verulega að því leyti að nú er gerð tillaga um að breyta skrifstofunni í hlutafélag. Margir líta svo á að ríkið eigi ekki að hafa með höndum þann rekstur sem í starfsemi ferðaskrifstofunnar felst, bæði hvað snertir ferðaskrifstofustarfsemina sjálfa og rekstur hótela í sambandi við hana. Á hitt er þó jafnframt að líta að af ýmsum ástæðum kemur ekki til greina að leggja rekstur Ferðaskrifstofu ríkisins niður, m. a. vegna þeirra víðtæku viðskiptasambanda sem hún hefur aflað sér og þeirrar ómetanlegu reynslu sem hún hefur í rekstri sumarhótela. Ég geri hins vegar um það tillögu að ríkisstj. skuli beita sér fyrir stofnun hlutafélags um starfsemi skrifstofunnar skv. nánari ákvæðum þar um. Þar er m. a. gert ráð fyrir að 30% af hlutafé í væntanlegu hlutafélagi séu seld á næstu fimm árum til starfsfólks Ferðaskrifstofu ríkisins. Þótt þessar breytingar séu gerðar hér í samræmi við breyttar aðstæður í þjóðfélaginu vil ég leggja sérstaka áherslu á að starfsemi Ferðaskrifstofu ríkisins hefur alla tíð verið ómetanleg lyftistöng fyrir íslensk ferðamál, bæði hvað snertir sölu á ferðum til Íslands og ferðalög um Ísland fyrir erlenda ferðamenn, svo og rekstur Edduhótelanna í húsnæði heimavistarskóla sem á sínum tíma var bylting í ferðamálum hér á landi og hefur verið nauðsynlegur þáttur í því að ferðamenn, bæði innlendir og erlendir, gætu farið á sæmilega þægilegan hátt um dreifðar byggðir landsins.

4. Í 24. gr. þessa frv. „er gert ráð fyrir að samgrh. skipi sérstaka þriggja manna stjórn fyrir Ferðamálasjóð. Formaður sjóðsstjórnar er skipaður án tilnefningar, en tveir stjórnarmenn skv. tilnefningu Ferðamálaráðs. Sjóðurinn hefur eflst verulega frá því hann var fyrst stofnaður með lögum um ferðamál frá 1964 og þykir mér því rétt að lögbinda að með mál hans fari sérstök stjórn, en hann sé ekki að öllu leyti undir stjórn Ferðamálaráðs, eins og nú er. Ráðið hefur þó áfram meiri hluta í stjórn hans.“

Ýmsar aðrar minni háttar breytingar eru gerðar á núgildandi lögum í þessu frv. T. d. er gert ráð fyrir að Ferðamálaráð annist skipulagningu námskeiða fyrir aðila ferðaþjónustunnar um samskipti og þjónustu við ferðamenn og að Ferðamálaráð starfræki sérstaka bókunarmiðstöð, en svipuð starfsemi fer fram í nágrannalöndum okkar á vegum þarlendra ferðamálaráða og þykir nauðsynleg.

Nefndinni, sem samdi frv., var m. a. falið að kanna ákvæði 8. gr. gildandi laga um skipulag ferðamála, um álagningu sérstaks gjalds á vörusölu Fríhafnarinnar í Keflavík, sem skuli nema 10% af árlegu söluverðmæti og renna til landkynningarverkefna o. fl.

Eins og kunnugt er hefur Ferðamálaráð aldrei fengið þetta gjald til starfsemi sinnar nema að hluta til. Nefndin sá hins vegar ekki ástæðu til að gera breytingar á álagningu þessa gjalds en lagði til að ákvæði um það yrðu gerð ótvíræðari en nú er svo ekki yrði hjá því komist að inna þetta gjald af hendi til Ferðamálaráðs. Enda þótt verulegur misbrestur hafi verið á því að Ferðamálaráð fengi það fé til starfsemi sinnar sem ákveðið er í 8. gr. tel ég rétt að þessi ákvæði verði áfram óbreytt og unnið verði að því að afla þessa fjár til starfsemi Ferðamálaráðs, enda er hér um mjög vaxandi atvinnugrein að ræða eins og ég kem nánar að hér nú.

Í nær tveggja ára gamalli úttekt sem samgrn. lét gera um ferðamál á Íslandi, þjóðhagslega þýðingu þeirra, spá um þróun til 1992 og tillögur um ferðamálastefnu kemur fram að miðað við árlega fjölgun ferðamanna, um 7% árið 1983 og síðan árlega aukningu um 3.5%, yrðu erlendir ferðamenn um 106 þús. talsins á árinu 1992, þ. e. 45% heildaraukning á þessu tíu ára tímabili. Þegar haft er í huga að þessi atvinnugrein skapar þjóðarbúinu verulegar gjaldeyristekjur, auk þess sem 4–5% af vinnuafli landsmanna tengist henni á einn eða annan hátt verður ekki fram hjá því gengið að aukning þessa atvinnuvegar hefur veruleg áhrif fyrir þjóðarbúið. Eins og fram kemur í áður nefndri skýrslu er greinin gjaldeyrisskapandi án verulegrar fjárfestingar og hún getur, ef rétt er á haldið, skapað fjölmörg ný atvinnutækifæri á komandi árum. Öll fjárfesting í þessari atvinnugrein kemur auk þess íslenskum ferðamönnum sjálfum að notum þar sem aukinn straumur erlendra ferðamanna hingað til lands tryggir enn betur samgöngur okkar við umheiminn en nú er. Því tel ég að okkur beri að líta til ferðamála sem atvinnugreinar enn frekar en verið hefur á undanförnum árum og að því er m. a. stefnt með till. þeim sem fyrir liggja í þessu frv.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. samgn.