10.05.1985
Neðri deild: 67. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5116 í B-deild Alþingistíðinda. (4372)

416. mál, þingsköp Alþingis

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil nota þetta tækifæri, þegar rætt er frv. til l. um þingsköp Alþingis, til að ræða annað mál sem ég tel þó að falli tvímælalaust undir það og sé hluti af því málefni sem hér er til umr., en það er Alþingi sem vinnustaður, vinnutilhögun og starfsaðstaða hér á þinginu. Þau mál eru í höndum forseta og starfsmanna þingsins eins og annar daglegur rekstur þess og ég sé ekki að annar kostur gefist betri til að fjalla lítillega um þau mál en nú þegar til umræðu eru þingsköp Alþingis.

Sá sem hér talar hefur ekki áratuga reynslu af því að starfa hér, hvorki sem þm. né þingfréttaritari né annað slíkt. Þetta er mitt annað þing, herra forseti, og þar fyrir utan hafði ég sáralítil kynni af því sem hér fer fram. En stundum er sagt að glöggt sé gests augað og það er kannske ekki verra að einhver láti til sín heyra sem ekki er í hópi þeirra sem lengsta hafa starfsreynsluna hér. Það hefur a. m. k. ekki farið hjá því að ég hef nokkuð hugleitt þennan minn nýja vinnustað þau tæpu tvö ár sem ég hef hér starfað.

Eitt af því sem ég vildi gjarnan ræða, fyrir utan þá almennu starfsaðstöðu sem þm. og starfsfólk þingsins búa hér við, eru vinnubrögð og vinnuskipulag, t. a. m. vinnubrögð þingnefnda og starfsaðstæður þingnefnda. Ég er þeirrar skoðunar að það standi störfum í þingnefndum fyrir þrifum að þær skuli ekki hafa á sínum snærum aðstoðarfólk eða fasta starfskrafta sem samræma og fylgja fram málum í viðkomandi n. Ég teldi það, herra forseti, lágmark að ráðnir yrðu til starfa hér á Alþingi til að byrja með tveir til fjórir menn sem skiptu á milli sín að aðstoða nokkrar þingnefndir hver og mætti þá, að mínu viti, koma í veg fyrir ýmislegt af því sem hv. 3. þm. Reykv. rakti í sinni ræðu og er síst til framdráttar greiðum störfum hv. Alþingis.

Ég tel að þetta mundi einnig auka sjálfstæði þingsins og auka sjálfstæði þingnefnda og gera þingnefndum kleift að skoða mál óháð þeim aðilum sem í upphafi hafa lagt til upplýsingar eða unnið mál upp í hendur þingsins. Það er iðulega svo, a. m. k. er það mín reynsla af störfum í þingnefndum, að sömu menn og gert hafa frv.-drög eða lagt til upplýsingar um mál eru kallaðir fyrir þingnefndir og hafa eðli málsins samkv. langmest áhrif á þá umfjöllun sem síðan verður í n. um viðkomandi mál. Þau störf sem önnum kafnir þm. geta ekki bætt á sig sjálfir lenda iðulega hjá slíkum aðstoðarmönnum sem kallaðir eru utan í frá til að ræða viðkomandi mál. Ég tel með öllu óeðlilegt að Alþingi sjálft og þm. sjálfir skuli ekki hafa á sínum vegum aðstoðarfólk til að sinna þessu verki.

Nú kann það vel að vera, herra forseti, að ýmsir telji það óþarft, jafnvel óæskilegt, að Alþingi sem slíkt auki sjálfstæði sitt og möguleika til óháðrar umfjöllunar með þessum hætti. Ýmsir munu eflaust telja að það sé hreinlega til óþurftar að þingið sem slíkt vinni að málunum með þessum hætti. Ég er á öndverðri skoðun, herra forseti, og ég tel það þingræðislega nauðsyn að Alþingi nái að auka sjálfstæði sitt og gera sjálft sig óháðara en það er því embættismannakerfi sem að verulegu leyti leggur mál upp í hendur þingsins.

Ég tel einnig, herra forseti, að starfsaðstaða einstakra þm. sé ekki nógu góð. Ég mundi telja það lágmark að ráðnir yrðu til starfa hér á Alþingi starfskraftar sem yrðu til persónulegrar aðstoðar einstökum þingmönnum. Til að byrja með mætti hugsa sér að ráðinn yrði ritari eða aðstoðarmaður í hálfu starfi handa hverjum þingmanni. Jafnvel væri hugsanlegt að tveir þm. sameinuðust um slíkan aðstoðarmann í hálfu starfi eða svo til að byrja með. Ég er þeirrar skoðunar um þetta og um starfsmenn þingnefnda, að fljótt kæmi í ljós að þörfin fyrir slíka starfsmenn er mikil og að þeim yrði þá bætt við á næstu árum og hver þingnefnd fengi sinn starfsmann eða því sem næst og hver þm. fengi sinn sérstaka aðstoðarmann.

Nú kunna ýmsir að gagnrýna þetta á þeim forsendum að hér sé verið að bæta við báknið og það sé síst til fyrirmyndar að Alþingi sjálft standi að því að hlaða undir sjálft sig með þessum hætti. En ég bið menn að hugleiða það andartak og alveg sérstaklega ættu hæstv. forsetar þingsins að athuga hvað Alþingi er að segja um sjálft sig og um þau störf sem hér eru unnin með því að meta ekki þýðingu þeirra meir en svo og þörfina meira en svo að ekki standi t. a. m. einstökum þm. til boða þjónusta sem sérhverjum deildarstjóra eða yfirmanni í opinberum stofnunum yfirleitt stendur til boða. Og ég vil spyrja: Telja menn ekki að finna megi víða í hinu opinbera kerfi og eins í einkarekstri menn sem sinna störfum sem hvergi nálgast þau ábyrgðarstörf sem unnin eru af þm., en hafa þó næstum að segja á hverjum fingri aðstoðarmenn til að létta sér störfin?

Ég er persónulega alveg óhræddur við það. herra forseti, og ég vil að það komi fram að ég teldi það síst of í lagt þó að hverjum þm. stæði til boða aðstoðarmaður í fullu starfi. Einnig tel ég að í það minnsta hinar viðameiri þingnefndir ættu að hafa sinn sérstaka aðstoðarmann, helst sérfróðan um þau málefni sem þar eru til umfjöllunar. Einnig kæmi það til að þau tengsl sem hv. Alþingi hefur við ýmsar stofnanir og út í frá, út fyrir landsteinana, yrðu með þessum hætti miklu markvissari og þessir sérfróðu starfsmenn þingsins, t. a. m. sérstakir aðstoðarmenn utanrmn., gætu fylgt sendinefndum í þessum erindagerðum. Ég hef sjálfur farið á vegum hv. Alþingis í eina slíka sendiferð og það fór ekki fram hjá neinum að íslenska sendinefndin var nánast sú eina þar sem ekki hafði sérstaka aðstoðarmenn frá því þjóðþingi sem þar var að senda nefnd til starfa.

Ég held, herra forseti, að hv. Alþingi eigi síst allra að vanmeta þýðingu sína og starfa sinna í þjóðfélaginu með þessum hætti. Ég held þvert á móti að alþm. og hv. Alþingi eigi að búa við sem best starfsskilyrði, þau bestu sem hægt er að búa því, að sjálfsögðu innan hófsemdarmarka. Ég er hér ekki að tala um ástæðulaust bruðl að mínu mati, herra forseti. Ég held að víða sé fjármunum varið á gáleysislegri hátt en þann þó hv. Alþingi leggi til þess nokkurt fé að bæta starfsaðstöðu sína, létta starfsálag á það starfsfólk Alþingis sem hér er fyrir og vissulega líður fyrir þessa skipan mála og auka afköst og bæta markviss vinnubrögð hér á Alþingi.

Ég vil taka það sérstaklega fram, herra forseti, vegna þessara ummæla sem ég læt hér falla að ég er ekki að gagnrýna það ágæta starfsfólk sem hér vinnur og er alls góðs maklegt og vinnur að mínu viti ómetanleg störf við erfiðar aðstæður og leggur mikið af mörkum. Ég vil hins vegar gagnrýna hv. Alþingi sjálft fyrir að búa þessu fólki ekki þær starfsaðstæður sem skyldi og reyndar ekki sjálfu sér. Ég held að ekki sé hægt að slíta umræður um þingsköp úr tengslum við umræður um starfsaðstöðu og starfsfólk hv. Alþingis. Það sem að mínu mati stendur markvissum vinnubrögðum og eðlilegri starfsaðstöðu þingsins og einstakra þm. fyrir þrifum hér er óheppileg húsaskipan. Ég tel að hér vanti þjónustubyggingu sem hefur upp á að bjóða þá tæknilegu möguleika sem nútímatækni býður besta, eðlilega vinnuaðstöðu fyrir einstaka þm. og fyrir þingnefndir, nægjanlegt húsrými fyrir hvern þm. til að hafa við hendina sinn aðstoðarmann eða sína aðstoðarmenn og einnig við hendina aðstöðu fyrir minni fundi. Innan veggja þessarar byggingar þarf að sjálfsögðu að vera allur sá fjarskipta- og miðlunarbúnaður sem nútímatækni býður upp á, aðgangur að upplýsingum, bæði innan þings og tengsl við upplýsingabanka utan þings, og síðan hvers kyns samskiptatæki, símatæki, telextæki, tölvur, tölvusambönd o. s. frv.

Hér er, herra forseti, eins og okkur er báðum mætavel kunnugt, iðulega unninn langur vinnudagur. Þingnefndir hefja gjarnan störf að morgni og síðan taka við þingfundir og jafnvel kvöldfundir og iðulega er hér unnið fram á kvöld eða fram yfir miðnætti. Starfsfólk það sem vinnur til hliðar við þingsali og aðstoðar við störf þingsins tekur einnig á sig þennan langa vinnudag með hv. þm. Engu að síður er þannig búið að mönnum hér að hér er engin búningsaðstaða, hér eru engar sturtur, hér eru engin hvíldarherbergi og hér er af engu tagi sá aðbúnaður sem ég tel að á vinnustað sem slíkum eigi að vera. Ég vil láta þetta koma fram hér, herra forseti. Það finnst eflaust einhverjum að hér sé hégómaskapur á ferðinni og hreyft ómerkilegu máli þegar rædd eru sjálf þingsköp Alþingis, en ég er þeirrar skoðunar að það sé Alþingi ekki sæmandi að búa á þann hátt að sjálfu sér og starfsfólki sínu sem gert hefur verið á undanförnum árum, í öllu falli sé ekki sæmandi að haga málum þannig áfram án þess að beita sér fyrir úrbótum. Ég tel að úr þessu þurfi að bæta hið snarasta að verulegu leyti eftir því sem hægt er og það sé ekki réttlætanlegt að bíða eftir einhverjum framtíðarúrbótum hvað varðar húsnæði og annað hér, a. m. k. hvað þetta síðasta áhrærir. Það er auðvelt að finna aðstöðu fyrir slíkt í húsum í nágrenninu sem þegar eru í eigu Alþingis.

Herra forseti. Ég vildi láta þessar aths. mínar koma hér fram. Ég hef leitt nokkuð hugann að þessum málum að undanförnu og ekki síst í tengslum við umræður og aths. sem iðulega heyrast, bæði hér innan veggja hv. Alþingis og ekki síður úti í þjóðfélaginu, um þverrandi virðingu þessarar stofnunar. Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, og það skulu vera mín síðustu orð, að vegsemd og virðing Alþingis eigi fyrst og fremst að vera borin uppi og vaxa af störfum þess sjálfs, annað sé hégómi, það sé t. d. hégómi hvort þm. gegna skyldustörfum sínum dag frá degi í svörtum klæðisfötum eður ei. Störfin og vinnubrögðin og það sem eftir hv. Alþingi liggur eru þau kjarnaatriði sem eiga að vera aðalatriðin, og eins og ég segi: vegsemd og virðing Alþingis skal borin uppi af slíkum hlutum og engu öðru.

Herra forseti. Ég hef ekki miklar aths. við frv. þetta að öðru leyti að gera umfram þær sem hv. 3. þm. Reykv, kom á framfæri og ég tek undir í öllum aðalatriðum. Það er tímanna tákn að undir þessari umr. um þingsköp Alþingis, sem á að fjalla um starfsskilyrði, starfsmöguleika og starfhætti þingsins, skuli sifja þrír, fjórir og fimm þm. Það ætti kannske að vera okkur áminning um það hversu mikilvægt það er að á þessum málum verði tekið. Ég vil láta það koma fram að ég tel ótækt að þingskapanefnd ljúki svo störfum sínum og gangi svo frá þessum málum að ekki verði á einhvern hátt tekið á því vandamáli sem eru slælegar mætingar þm. og það virðingarleysi sem þeir sýna sjálfum sér og þeirri stöðu sem þeir hafa verið kosnir til með þeirri framkomu sinni.