12.10.1984
Sameinað þing: 4. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í B-deild Alþingistíðinda. (44)

Skýrsla ríkisstjórnarinnar um kjaradeilurnar

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég tel að þær umr. sem hér fara fram séu, þrátt fyrir það hversu langar og leiðinlegar þær eru, ákaflega gagnlegar. Annars vegar vegna þess að það er auðvitað sjálfsagt að hleypa gufunni út hjá stjórnarandstöðunni, sem er málþola eins og heyrist á löngum ræðum, m.a. ræðu hv. síðasta ræðumanns, og eins vegna hins, að það hlýtur að vera nauðsynlegt fyrir okkur nú, við þá erfiðleika og í því verkfalli sem nú ríkir, að fjalla um þau vandamál sem uppi eru og gera okkur grein fyrir því með hverjum hætti hægt sé að leysa þau.

Í þessum umr. hefur komið fram mjög rækilega jafnt hjá stjórn sem stjórnarandstöðu að enn á þessu ári dregst þjóðarframleiðslan saman og hafði hún þó gert það nokkur undanfarin ár. Fall þjóðarframleiðslunnar hér á landi er svo mikið að ef við tökum það í dollurum, sem er einmitt sá mælikvarði sem oft er notaður til að bera þjóðir saman, þá get ég nefnt það sem dæmi að árið 1981 var þjóðarframleiðslan um það bil 12 500 dollarar á mann, í ár aðeins 9400 dollarar.

Nú ber auðvitað að taka tillit til þess að dollarinn hefur styrkt sig í sessi og er sterkari gjaldmiðill en flestir aðrir. En við verslum mikið í þessum gjaldeyri og þessar tölur sýna betur en nokkuð annað við hvaða vandamál er að fást hér á landi. Þetta verðum við að hafa í huga þegar rætt er um það hverju sé að skipta. En þetta er ekki nóg. Skuldir þjóðarinnar hafa vaxið frá árinu 1980, svo að ég taki það ár til viðmiðunar einkum og sér í lagi til að votta hv. síðasta ræðumanni virðingu mína, en þá settist hann í ríkisstj., frá þeim tíma hafa erlendar skuldir vaxið úr 34% af þjóðarframleiðslu í 60% þegar hann hvarf úr ríkisstj. M.ö.o., hv. síðasti ræðumaður var ráðh. í ríkisstj. þegar best aflaðist á Íslandsmiðum, en það dugði ekki til. Hann jók skuldir íslensku þjóðarinnar með þeim hætti að þær hafa aldrei vaxið hraðar. Þannig tókst honum og þeim sem störfuðu með honum í ríkisstj. að halda úti fölskum lífskjörum um sinn. Nú er svo komið, og reyndar vissu íslenskir kjósendur það á s.l. ári, að ekki er hægt að halda þessum leik áfram. Við getum ekki endalaust tekið erlend lán til að standa undir launum almennings í landinu. Þessa þróun varð að stöðva.

Til að nefna dæmi um hvaða þýðingu það hefur að skulda mikið erlendis skal ég nefna það að greiðslubyrði erlendra lána, þ.e. sú upphæð sem við verðum að greiða á ári hverju eins og skilvísir aðilar í vexti og afborganir af þeim lánum sem hv. síðasti ræðumaður tók til þess að halda hér uppi fölskum lífskjörum í landinu, nemur 23% af öllum útflutningstekjum Íslendinga. Til að skýra þetta enn betur, þá er þetta meira en sem nemur öðrum hverjum þorski sem dreginn er úr sjó, og er þó þorskur aðaluppistaðan í fiskafla Íslendinga, sá fiskur sem Íslendingar hafa byggt afkomu sína á. Þetta nefni ég hér í upphafi til þess að við áttum okkur á því við hvaða vandamál er að etja um þessar mundir þegar stór hluti þjóðarinnar stendur í verkfalli. Ef þessar skuldir væru ekki væri hægt að hækka laun með þeim hætti að greiða það sem þar munar, um 14%. Og eins og fram hefur komið þurfum við Íslendingar að leggja á okkur mun meira en nágrannar okkar til þess að framleiða álíka mikið og þeir gera pr. einstakling.

Það var við þessar aðstæður sem núv. ríkisstj. tók við. Það var við þessar aðstæður sem núv. ríkisstj. þurfti að takast á við það stórbrotnasta verkefni sem nokkur ríkisstj. hefur nokkurn tíma þurft að taka á, að koma verðbólgunni úr 130% hraða. Það þurfti kjark til. Það þurfti kjark til þess að segja íslensku þjóðinni, öllum launamönnunum, heimilunum og þeim sem þurftu fyrir öðrum að sjá, að nú yrði að herða mittisólina, því að auðvitað getur sú ríkisstj. sem nú situr ekkert frekar en sú sem síðast var skapað verðmæti öðruvísi en þau verðmæti komi frá fólkinu sjálfu. Og þessi ríkisstj. getur ekkert frekar en sú ríkisstj. sem hvarf sparað nema sá sparnaður bitni á þjóðinni sjálfri. Svo einfalt er þetta mál. Ríkisstj. hafði forustu í þessu máli, naut stuðnings og skilnings alls almennings og þess vegna tókst þetta.

Ég óska eftir því, herra forseti, að hv. síðasti ræðumaður komi hér í sjónmál. Ég þarf að eiga við hann orðastað. Mér dettur ekki í hug að hv. síðasti ræðumaður, formaður Alþb., sem ég vonast til að þingvörður finni einhvers staðar í húsinu, hafi gert það viljandi að láta verðbólguna fara upp í 130 stig. Í raun og veru held ég hið gagnstæða. Alþb. hefur verið sá flokkur sem hvað skeleggast hefur bent á að ekkert sé meiri og betri kaupmáttarvörn en að koma verðbólgunni niður. f yfirlýstri stefnu, yfirlýsingu Alþb., sem Þjóðviljinn tók fram s.l. sumar að væri enn í fullu gildi segir orðrétt með leyfi forseta:

„Verðbólgan hefur fært tekjur og sparifé almennings til skuldakónga, bæði til að standa undir óhófseyðslu þeirra og til að fjármagna atvinnurekstur þeirra og byggingarstarfsemi. Verðbólgan elur alls kyns afætur og heldur við stórkostlegri þjóðfélagslegri sóun. Almennt má því segja að verðbólgan þjóni þeim sterku í efnahagslífinu og stuðli að aukinni misskiptingu þjóðartekna borgarastéttinni í hag. Verðbólgan veikir þær atvinnugreinar sem eiga gengi sitt undir verðlagi á erlendum mörkuðum og er það sjávarútveginum sérstaklega háskalegt. Af völdum hennar vex tilhneiging til fjárfestingar, en síður í framleiðslugreinum, og síst við útflutningsframleiðslu. Verðbólgan leiðir til stöðugs skorts á rekstrarfé hjá framleiðslufyrirtækjum og rekstrartruflana af þeim sökum. Hún skekkir áætlanir fyrirtækja og framleiðsluhagnað og raskar yfirleitt öllum rekstrarviðmiðunum þeirra. Á svipaðan hátt leikur hún einstaka opinbera aðila. Verðbólgan er þannig einhver versti óvinur allrar uppbyggingar og framleiðslu. Peningamagninu er ekki beint inn á þær brautir sem skila mestum arði í þjóðarbúið til lengdar“.

Ég var ekki að lesa upp úr stjórnarsáttmála núv. ríkisstj. Ég var að lesa úr stefnuskrá Alþb. sem Þjóðviljinn sagði s.l. sumar að væri enn í fullu gildi. Og það er þess vegna, hv. 3. þm. Reykv., sem ég veit að það var ekki viljaverk af þinni hálfu né þeirrar ríkisstj. sem þá sat að koma verðbólgunni upp í 130%.

En hv. síðasti ræðumaður kom hér í ræðustól áðan og leyfði sér að rifja upp sín eigin ummæli um „slétt skipti“ sem hann sagði að hefðu verið gerð til þess að verja kaupmáttinn í landinu. Í málgagni Alþb., málgagni sósíalisma, verkalýðshreyfingar og þjóðfrelsis, sem hv. síðasti ræðumaður var einu sinni ritstjóri fyrir, segir hinn 6. jan. 1981- en ég veit að hv. þm. muna það að hv. 3. þm. Reykv. rifjaði það upp hér áðan í hverju slétt skipti höfðu verið fólgin í tilefni af því að 7 verðbólgustig voru tekin af launþegum með brbl. til að ná verðbólgunni niður. Áður en ég hef lesturinn vil ég benda á að þetta var eitt þeirra 14 skipta, sem hv. síðasti ræðumaður stóð að slíkri skerðingu með lögum, með valdboði, með lögum sem meiri hl. Alþingis setti til þess að almenningur í landinu, launþegarnir, fengju ekki umsamin laun, svo að ég noti hér orðalag sem hann mundi ugglaust nota hér í þessum ræðustól. Það segir í þessum leiðara Þjóðviljans:

„Hvernig á að tryggja kaupmáttinn?“ Og svarað í leiðaranum: „... með því að koma verðbólgunni úr um 70% sem framundan var og niður fyrir 50% á árinu 1981, en slíkur árangur felur í sér einn sér a.m.k. 2% hærri meðalkaupmátt yfir árið en ella, vegna þess að kaupmáttarskerðingin meðan menn bíða eftir næstu verðbótum verður minni sé verðbólgan minni.“

Svo mörg voru þau orð. M.ö.o., minni verðbólga, meiri kaupmáttur. Ég endurtek: Hv. síðasti ræðumaður sagði: Minni verðbólga, meiri kaupmáttur. Og það segir meira í þessum leiðara. Það segir orðrétt að með því að taka verðbólguna niður úr 70%, sem hún ekki var orðin heldur átti hugsanlega eftir að verða, og halda henni í 50%, þá græddu launþegar 2%. Þetta getur ekki verið skýrara og ég spyr: Af hverju birtir ekki hv. síðasti ræðumaður þennan leiðara aftur og reiknar svo út hvaða kaupmáttarbót það er að taka verðbólguna úr 130 stigum niður í 15 stig? Ég veit svarið. Svarið er einfalt. Hann þorir það ekki. Hann þorir ekki að horfa framan í sannleikann, hann þorir ekki að horfa framan í sín eigin skrif sem voru skrifuð fyrir nokkrum árum síðan. En hann kemur hingað upp í trausti þess að menn muni ekki, kemur hér í ræðustól af því að hann sér að það stendur fólk á pöllunum, fólk sem er í verkfalli, fólk sem þarf hærri laun og ætlast til þess að þetta fólk sé búið að gleyma. En við sem sitjum á hinu háa Alþingi og allur almenningur í landinu man hv. síðasta ræðumann þegar hann sat í ríkisstj. og óskar ekki eftir slíkri stjórn aftur.

Með þessu er ég ekki að segja, og skal ítreka það enn á ný, að hv. síðasta ræðumanni, hv. 3. þm. Reykv. Svavari Gestssyni hafi gengið illt til. Mér dettur ekki í hug að halda að þær löngu ræður sem hann hefur flutt hér af þessu tilefni, sem hafa verið mestmegnis árás á stjórnina, að með slíkum málflutningi gangi honum illt til. Það dettur mér ekki í hug að halda. En hann veit jafnvel og ég að verðmætin verða ekki til í kjarasamningum. Hann veit jafnvel og ég að það er ekki hægt að skipta meiru en því sem til skiptanna er. Og hann veit að sé slíkt reynt, þá endar það annaðhvort í stórfelldu atvinnuleysi eða í mikilli verðbólgu eins og gerðist á stjórnarárum þeirrar ríkisstj. sem síðast sat og hv. þm. átti sæti í. Þetta veit hv. þm. og hann veit að það er ekki hægt að bregðast við með sama hætti og þá. Aðalatriðið er nefnilega að stækka það sem til skiptanna verður. Það skiptir öllu máli í þeirri stöðu sem við erum að við leggjumst á eitt, reynum að efla þá atvinnuvegi sem standa undir allri starfsemi í þessu þjóðfélagi, sem standa undir heilbrigðismálum, sem standa undir skóla- og fræðslumálum, sem standa undir öllum launum opinberra starfsmanna. Það er þetta sem skiptir máli og það er að þessu verkefni sem við eigum auðvitað að snúa okkur.

Herra forseti. Það var nokkuð rætt um fleiri atriði en beinlínis kjarasamningana í þessum umr. Ég verð þó að segja það áður en ég læt umr. lokið um kjarasamninga að einn var sá maður úr þingliði Alþb. sem talaði af einhverju viti. Það var hv. 7. þm. Reykv. Guðmundur J. Guðmundsson, formaður Verkamannasambandsins og formaður Dagsbrúnar. Ef maður dregur frá nokkur kímniorð og gamanmál, en hann er mjög gamansamur maður og hefur oft á vörum sér ágætis gamansögur, þá verður að segjast eins og er að í ræðu hans örlaði á skilningi á þessum málum. Hann veit nefnilega að ef við hækkum nú launin ótæpilega mikið án þess að eiga nokkra innistæðu fyrir þeim, þá getur það ekki annað en bitnað á þeim sem verst eru settir. Og hv. 7. þm. Reykv. er fulltrúi þessa fólks. Hann veit sem er að ef reynt verður að blekkja almenning í þessu landi með því að hækka launin umfram það sem hægt er, þá bitnar það á hans umbjóðendum. Þess vegna talaði hv. 7. þm. Reykv. Guðmundur J. Guðmundsson af viti.

Af því að hér á hinu háa Alþingi er löggjafarvaldið skulum við átta okkur á einu og það er það, að vera kann að við getum í þessu verkfalli eins og því síðasta sem opinberir starfsmenn háðu reynt að læra. Við skulum reyna hér í sameiningu, og það gildir þá jafnt um stjórn og stjórnarandstöðu, að átta okkur á því hvernig við getum útbúið leikreglurnar þannig að til sem minnstra árekstra komi. Þetta segi ég vegna þess að það eru augljósir gallar á þeim lögum sem gilda um kjaradeilur opinberra starfsmanna. Það er augljóst mál að sú lagagrein, sem fjallar um skyldu sáttanefndar til að leggja fram sáttaboð áður en til verkfalls er gengið, leiðir til þess að ekki verður samið, ef mikið skilur á milli, án þess að verkfall sé skollið yfir. Þetta liggur fyrir. Þessu skulum við breyta. Það á ekki að skylda sáttasemjara og sáttanefnd til að leggja fram slíkt tilboð nema þeir telji að það geti leyst deiluna. Því að það er lakara að þurfa að leysa kjaradeilur þegar verkfall er skollið á en að gera það með öðrum hætti. Þetta kann að vera framlag til þeirra mála.

Í öðru lagi er augljóst að sá ágreiningur sem hefur komið upp um kjaradeilunefnd leiðir til þess að það lagaákvæði verður að endurskoða. Hér á hinu háa Alþingi liggur fyrir frv. þess efnis frá hv. þm. Jóni Baldvin Hannibalssyni. Það sýnir að það er skilningur á því í röðum a.m.k. sumra stjórnmálaflokka að þessu lagaákvæði þarf að breyta. Ef menn sætta sig ekki við það að kjaradeilunefnd sé æðsti úrskurðaraðili um það hverjir eigi að vinna í verkfalli, á grundvelli þess sem stendur í lögum um öryggisgæslu og heilsugæslu, þá er þessi lagabókstafur dauður, því að það er rétt, sem kom fram hjá hæstv. iðnrh. í þessum umr., að það þýðir ekki að reyna að fara að lögum sem allur almenningur er á móti, hvort sem það eru útvarpslög eða lög um kjaradeilur opinberra starfsmanna.

Það kemur að mínu áliti miklu fremur til greina að þeir sem alveg örugglega þurfa að vinna í verkfalli, lögreglumenn og hjúkrunarfólk, láti af hendi verkfallsréttinn, hafi auðvitað sinn samningsrétt en verkfallsrétturinn þrengist að þessu skapi. Ég segi þetta vegna þess að það kemur dálítið spánskt fyrir sjónir að þær stéttir, þeir aðilar sem þurfa hvort sem er að vinna í verkfalli geti í raun og veru sent hinn helminginn útlátalaust í verkfall til þess að heimta betri kjör og hærri laun. Slík atriði skulum við skoða. Mér er ekki þessi skoðun föst í hendi. Það eina sem mér gengur til er að við í sameiningu, við hér á hinu háa Alþingi og allur almenningur í landinu og þá ekki síst opinberir starfsmenn átti sig á því að þessi lagagrein er ónýt. Það eru svona atriði, hv. þm., sem við eigum að skoða þegar þessari kjaradeilu linnir.

Hér hefur jafnframt í þessum umr. mikið verið rætt um útvarpsstöðvar og spurninguna um það hvort þær séu löglegar eða ólöglegar. Um það getur enginn sagt í dag. Það mál liggur fyrir dómstólum. Það er þó ljóst og það ber öllum lögfræðingum saman um — hér er talað um lögfræðideilur og að ágreiningur sé uppi um lögfræðileg málefni — en öllum lögfræðingum, sem fjölluðu um það hvort ætti að greiða laun fyrir fram eða ekki, bar saman um að það væri ólögmæt ráðstöfun að leggja niður störf 1. okt. þótt laun væru aðeins greidd í þrjá daga. Og ég undanskil ekki lögfræðing BSRB. Allir þessir aðilar voru sammála um að það að fá ekki útgreidd laun nema í þrjá daga réttlætti ekki að leggja niður vinnu 1. okt. þótt hins vegar megi deila um það hvort greiða eigi launin út allan mánuðinn eða ekki. Um það er lögfræðilegur ágreiningur. Þess vegna er það alveg ljóst að þegar kennarar og útvarpsstarfsmenn lögðu niður vinnu var það ólögmætt athæfi. Enginn hefur bent á annað. Enginn lögfræðingur hefur bent á annað. Við slík skilyrði verður að skoða einkaleyfi Ríkisútvarpsins til útvarpsreksturs í því ljósi. Hvað um það þegar starfsmenn taka svo harða afstöðu til þjóðmála að þeir leggja niður starfsemi sína? Er þá hægt að treysta því að útvarpsrekstri hjá einokunarfyrirtæki verði haldið áfram? Ég held að svarið sé augljóst. Svarið er það að því er ekki treystandi. Eina leiðin, og um það er meiri hl. hv. Alþingis sammála, er að breyta lögum. Við skulum ekki karpa lengi um það hvort lögmætt var að halda úti þessum frjálsu útvarpsstöðvum. Þær hafa þegar gert það að verkum að útvarpslögin eru ónýt. Alveg á sama hátt og opinberir starfsmenn hafa eyðilagt þann úrskurðaraðila sem þeir stóðu sjálfir að í lögum um kjaradeilur opinberra starfsmanna, þeir hafa eyðilagt þann lagabókstaf og við verðum að skilja það og reyna að endurskoða þau lög, þá verða menn að átta sig á því að útvarpslögin í núverandi búningi eru ónýt.

Það kom mér satt að segja á óvart að hlusta á hv. þm. Eið Guðnason reyna í löngu máli í tveggja daga ræðu að koma höggi á Sjálfstfl. fyrir það að hleypa ekki lögreglumönnum inn í hýbýli sín án þess að þeir hefðu dómsúrskurð þar að lútandi. Hann gekk svo langt að taka fram í fyrir dómstólum og halda því fram að þarna væri um ólögmætt athæfi að ræða, jafnvel þótt það sé umdeilt í alla staði. Meira að segja er hægt að halda því fram að eftir að útvarpsstarfsmenn komu allir til starfa séu lagarök fyrir því að halda frjálsum útvarpsrekstri áfram. Því hefur verið haldið fram af fleiri en einum og fleiri en tveimur lögfræðingum. Það er umdeilt efni. En eitt er alveg ljóst. Það kemur ekki til mála að í þessu landi séu lög sem gilda aðeins fyrir suma en ekki alla.

En hv. þm. Eiður Guðnason gerði annað. Hann vitnaði til nýrra laga um fjarskipti, sem tóku við af lögum sem voru sett á stríðsárunum, nánar tiltekið 1940, og til fróðleiks skal ég benda á það að samkvæmt þeim lögum var það líklega ólögmætt að hafa stefnuljós á bílum eða dyrasíma í húsum. Svo úrelt voru þau lög orðin enda datt ekki nokkrum í hug að fara eftir þeim. En á síðasta ári voru þessi lög endurskoðuð og sett ný lög um fjarskipti og hv. þm. vísaði til lagagreinar sem hann las upp og var svohljóðandi með leyfi forseta:

„Menn sem í þágu Póst- og símamálastofnunarinnar þurfa að fara um lendur eða hýbýli vegna starfa sinna skulu forðast að valda eigendum eða íbúum meiri óþægindum en brýnasta nauðsyn krefur“.

Og síðan sagði hv. þm.: Það er gert ráð fyrir því að þeir geti vegna starfa sinna farið inn í hús og hýbýli. Og það er alveg rétt. En það verður bara að skoða fyrri hlutann. Það er nefnilega þannig að í fyrri hlutanum er verið að tala um allt, allt aðra hluti. Og hver skyldi kaflafyrirsögnin vera? Hún er: Uppsetning og vernd fjarskiptavirkja o.fl. Þessi lagagrein á með öðrum orðum við það þegar verið er að setja upp á vegum Pósts og síma fjarskiptaútbúnað. Þá hafa þeir auðvitað samkvæmt heimild húsráðenda leyfi til að fara um hús og hýbýli og laga til eftir sig. Og nú spyr ég: Dettur einhverjum það í hug að fulltrúi Pósts og síma hafi verið að koma upp útvarpsstöð í Valhöll? Ég held ekki.

Svona geta menn gengið langt í sínum lagatilvitnunum í trausti þess að ekki sé flett upp á þeim til að reka þær aftur ofan í kokin á þeim. Nei ég hef ekki áhuga á því að ræða frekar um þetta mál. Ég hef áhuga á því að við, sem sitjum á hinu háa Alþingi, tökum okkur saman í andlitinu og breytum þessum lögum, þessum úreltu lögum. Og ég veit, og ég fagna því, að hv. þm. Eiður Guðnason verður einn þeirra sem gengur í lið með stjórninni að koma þessu frv. í gegn fljótt og vel, þó ekki væri nú nema vegna þess að hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, flokksbróðir hans, lagði þetta frv. fyrstur fram á Alþingi. Hann tók nefnilega frv. úr skrifborðsskúffu þáverandi menntmrh., hv. þm. Ingvars Gíslasonar, og lagði frv. fram á Alþingi. slík stuðningsyfirlýsing er svo mikil að ekki verður hjá því komist að halda að hún þýði það að þeir muni greiða frv. atkv. Eða er ekki svo, hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson?

Herra forseti. Það er aðalatriði málsins að frjálsir samningar geti náðst í þeim kjaradeilum sem nú standa yfir, ekki einungis í þeirri kjaradeilu sem opinberir starfsmenn eiga við ríkisstj., heldur einnig í hinni, þar sem verkföll hafa enn ekki verið boðuð. Það skiptir mestu máli, þegar um það er rætt að leysa eigi þessar kjaradeilur saman, t.d. með skattalækkunum, að þær verði leystar á tiltölulega svipuðum tíma. Því miður hefur verkfall skollið á hjá BSRB. En við getum ekki leyst úr því verkfalli fyrr en allir aðrir, ASI og VSÍ eru tilbúnir til þess að koma inn í þessa mynd og leysa málið með okkur. Og meðan að hv. þm. Guðmundur J. slær á puttana á Ásmundi Stefánssyni þá er þetta mál vandleyst. En nú skilst mér að þau innanhúsvandamál Alþb. séu að leysast og Ásmundur Stefánsson fái leyfi til þess að taka þátt í viðræðum ASÍ og VSÍ og ríkisvaldsins. Þegar svo er komið þá er hægt að ganga til lausnar á þeim grundvelli sem formaður Sjálfstfl. lýsti í sjónvarpi í síðasta mánuði, á þeim grundvelli þjóðarsáttar, þar sem Alþingi Íslendinga, þar sem fjárveitingavaldið, þar sem ríkisstj. leggur sitt af mörkum. En það verður ekki gert nema verulega verði skorið í opinberar framkvæmdir og að hagræðingar og sparnaðar verði gætt í opinberum rekstri. Við skulum ekki ímynda okkur að það kosti ekki sársauka hjá mörgum. Við skulum ekki loka augunum fyrir því að þetta þýðir það að við verðum að fresta því sem við vildum gjarnan gera og það bitnar auðvitað á okkur öllum. Þessu verðum við að átta okkur á. Ef við værum eins og hagsýn húsmóðir, svo ég taki nú hér upp orðatiltæki sem stundum heyrist í þessum sal, að gæta þess að láta ganga fyrir þau verkefni sem gefa okkur eitthvað í aðra hönd, láta ganga fyrir þau verkefni sem gera það að verkum að verðmætin aukist, þau verðmæti sem til skiptanna eru, aðeins þannig verða til raunverulegar hækkanir í kjarasamningum.

Herra forseti. Þessa þings bíður mikið starf, fyrst og fremst vegna þess að þess verður krafist af hv. alþm., ekki einungis þm. ríkisstj. heldur einnig hv. stjórnarandstöðuþm., að þeir leggist á plóginn með ríkisstj. í því að leysa þetta mikla vandamál. Niðurskurður á fjárlögum, lækkun skatta gengur aldrei fram í samningum við aðila vinnumarkaðarins nema alþm. sýni í verki að þeir séu tilbúnir til að taka á sig óvinsældir. Auðvitað er það óvinsælt fyrir þm. sem kemur utan af landi, að geta ekki staðið við loforð um vegarspottann sinn. Auðvitað er það óvinsælt fyrir marga þm. sem hafa flutt lagafrv. þess efnis að það eigi að gera meira fyrir aldraða og sjúka að geta ekki staðið við það. En þetta verðum við, herra forseti, að láta yfir okkur ganga. Og þetta verðum við að gera með þeim mannsbrag að okkur sé sómi að. Ef við stöndum þannig að málum er ég viss um að á þessu landi getur ríkt friður á næsta ári, vinnufriður sem er forsendan fyrir því að okkur takist að komast út úr þeim vanda sem íslenska þjóðin á við að glíma. En það er vandi sem byggist á því að við höfum framleitt minna en undanfarin ár. Við skulum þess vegna stefna að því saman. Ég heiti á stjórnarandstöðuna að standa við hlið okkar og ég veit að þeir hafa vilja, þó þeim hafi mistekist í síðustu ríkisstj., þeir hafa vilja til þess að gera landi sínu gagn.

Herra forseti. Ég læt máli mínu lokið.