13.05.1985
Efri deild: 72. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5133 í B-deild Alþingistíðinda. (4408)

470. mál, Þroskaþjálfaskóli Íslands

Davíð Aðalsteinsson:

Hæstv. forseti. Á milli funda hafa nokkrir aðilar úr heilbr.- og trn. tekið til athugunar 5. gr. frv. um Þroskaþjálfaskóla Íslands, b-lið þeirrar greinar, en í þeirri grein er fjallað um inntökuskilyrðin í Þroskaþjálfaskóla Íslands. Í b-liðnum er gert ráð fyrir að inntökuskilyrði séu stúdentspróf eða hliðstætt nám, eins og stendur þar í frv.

Það hefur verið bent á að í grg. um 5. gr. stendur svo, með leyfi forseta.

„Inntökuskilyrði í skólann skv. reglugerð frá 1977 eru þau að viðkomandi sé orðinn 18 ára og hafi lokið a. m. k. tveggja ára námi í framhaldsskóla í þeim námsgreinum sem skólinn gerir kröfu til eða hliðstæðu námi. Ekki er í reynd lögð til nein efnisbreyting varðandi það sem þegar hefur verið í gildi.“

Okkur þótti eðlilegt með tilliti til þessa að segja hreinlega í b-lið 5. gr.: stúdentspróf eða tveggja ára nám í framhaldsskóla. Það gefur auga leið að í reglugerð, sem mun verða sett á grundvelli þessara laga eins og stendur í 6. gr. frv., mun að sjálfsögðu verða tekið fram að þeir sem hafa að baki tveggja ára nám í framhaldsskóla muni fremur hafa lagt stund á þau fræði sem tilheyra þroskaþjálfastarfinu. Þetta þarf ekki að taka fram.

En niðurstaða okkar er sú að rökvísara sé að segja „tveggja ára nám í framhaldsskóla“ í lagagreininni sjálfri fremur en „nám hliðstætt stúdentsprófi“.

Þetta er að sjálfsögðu skrifleg brtt. sem n. flytur og afhendi ég hana forseta.