31.10.1984
Neðri deild: 8. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 664 í B-deild Alþingistíðinda. (443)

48. mál, jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Hv. 2. þm. Reykv. ræddi um þessi mál á svipuðum nótum og hann hefur stundum gert áður og flutti margar málefnalegar aths. máli sínu til stuðnings. Málstaðurinn er vondur, sem hann berst fyrir í þessum efnum, og það er eðlilegt að menn þurfi að grípa til gamalla spreka til þess að verja sig með, en slík barátta er dæmd til að mistakast. Ég ætla þess vegna ekki að eyða orðum mínum að þeim skætingi sem fram kom í hans máli hér. Ég tel að það sé þarflaust. Það dæmir sig sjálft vegna þess að það er ekki innlegg í málið.

Ég ætla aðeins að víkja hér að þróun þessara mála, hvernig þau hafa verið hjá okkur á þessari öld, því að það er orðið býsna langt síðan Íslendingar fóru, og Alþingi Íslendinga, að ræða um þessi mál, m.a. um jafnrétti kynjanna og hvað mætti gera af hálfu Alþingis til að stuðla að því að konur öðlist jafnan rétt á við karla.

Í upphafi lagasetningar í þessum efnum var fyrst og fremst lögð áhersla á að setja lög sem banna misrétti. Það var grundvallartónninn í lögum á fyrstu áratugum þessarar aldar að því er jafnréttismál varðar. Það voru lög um að banna misrétti, banna það að konur væru beittar misrétti þar sem það hafði átt sér stað um margra alda skeið.

Þegar frv. til l. voru lögð hér fram í þessum efnum komu til sögunnar menn eins og hv. þm. Friðrik Sophusson eins og aftan úr forneskjunni og sögðu: Þetta eru siðferðismál. Það er siðferðislegt mat sem á hér að ráða. Þetta eru einkamál. Það leysir engan vanda að setja lög. Þetta hefur alltaf verið svona og hefur blessast til þessa og það er óþarfi að vera að setja lög sem breyta því. — Svona fornaldarkarlar hafa alltaf setið hér á Alþingi undir ýmsum nöfnum og á ýmsum aldri eins og gengur. Engu að síður var það svo að lög voru sett sem bönnuðu misrétti, bönnuðu að konur væru beittar misrétti, bönnuðu að ákveðnir þjóðfélagshópar væru beittir misrétti. Öll félagsmálalöggjöf á fyrri hluta þessarar aldar gekk einmitt út á það að banna misrétti, að banna eitt og annað, m.a. á vinnumarkaðinum, sem fólk hafði verið beitt á liðnum árum og áratugum. En það komu alltaf upp svona raddir eins og heyrðust hér áðan — raddir sem vitnuðu kannske í Mósebók eða þau lögmál sem tíðkuðust í grasgarðinum eða á einhverjum öðrum álíka fjarlægum stöðum. Fyrr á öldinni voru t.d. sett hér vökulög sem bönnuðu að sjómenn væru látnir vinna sólarhringum saman þangað til öryggi þeirra var stórfelld hætta búin. Þetta voru öryggislög fyrir sjómenn, félagslegt réttindamál, bann við misrétti. Þá kom þáv. formaður Sjálfstfl. eins og var rifjað upp hér í ákveðnu húsi á þinghúslóðinni í gær. Þáv. formaður Sjálfstfl. lýsti andstöðu sinni við þessi vökulög. En hann hafði einnig mörgum áratugum síðar látið það koma fram að það hefðu verið stærstu mistök síns stjórnmálaferils að leggjast gegn banninu við því að sjómenn væru þrælkaðir eins og gert hafði verið. Ég er alveg sannfærður um það líka með hv. 2. þm. Reykv. að hann mun þegar fram líða stundir sjá eftir þeirri neikvæðu afstöðu sem hann hefur í jafnréttismálum og fram kom hér áðan.

Eftir að lög um bann við misrétti höfðu verið hér í gildi um langt skeið tók við næsta stig þessara mála í okkar löggjöf — ekki lög um bann við misrétti heldur lög um jafnrétti. Það tók marga áratugi að koma á löggjöf í þeim efnum. Mörg frumvörp voru lögð hér fram á Alþingi af þessu tagi og þau voru rædd út og suður. Auðvitað komu þá upp eins og einnig hér í dag sýnishorn af þessum sérkennilega málflutningi, sem sé þeim að þetta sé óþarfi, þetta hafi blessast til þessa og það að setja lög um jafnrétti sé í raun og veru bara krafa um misrétti vegna þess að lögin feli í sér að það sé jafnvel verið að lítillækka konur í lagasetningu um jafnréttismál vegna þess að þar með sé verið að segja frá að þær geti ekki sótt þann rétt sem önnur lög og þjóðfélagið almennt vilja færa þeim. En lög um jafnrétti voru sett þrátt fyrir sjónarmið úrtölumanna sem núna heita Friðrik Sophusson en hétu fyrr á öldinni ýmsum nöfnum.

Svava Jakobsdóttir flutti hér á þingi fyrir líklega tólf árum eða svo frv. til l. um Jafnlaunaráð. Það mætti talsverðri andspyrnu, en þó má segja að sú umr. var grundvöllurinn að lögunum um jafnréttismál sem nú eru í gildi þó að þau séu ófullkomin. Það voru lög sem Gunnar Thoroddsen þáv, félmrh. beitti sér fyrir að sett voru. Á því þingi sem setti lögin um jafnrétti sem nú eru í gildi voru fluttar tillögur um svokallaða jákvæða mismunun, að það yrðu gerðar sérstakar ráðstafanir til þess að bæta stöðu kvenna. Sú till. fékk þá tvö atkv. Hún fékk atkv. Svövu Jakobsdóttur og Vilborgar Harðardóttur, sem þá sat hér á Alþingi. Önnur atkv. fékk till. þá ekki. Síðan eru liðin átta ár og margt hefur breyst og m.a. það að margir þeir sem þá voru á móti þessu ákvæði hafa núna skipt um skoðun og telja reyndar að það sé næsta skrefið að setja lög sem heimila sérstakar aðgerðir til að bæta stöðu kvenna frá því sem nú er.

Ég veit að orðasambandið jákvæð mismunun er dálítið vont og það er ekki fundið upp af mér. En það er sem sagt tilraun til að skýra ákveðna hugsun, þ.e. þá að til þess að ná jafnrétti á ákveðnu sviði megi gera ráðstafanir eða beita jákvæðum aðgerðum til þess að bæta stöðu kvenna frá því sem hún nú er. Þetta er kallað jákvæð mismunun. Það er bókstafleg þýðing á norrænum málum. Hún er heldur vond og það væri betra að finna eitthvert annað heiti yfir þetta, en menn mega ekki vera að nota þessa kannske pínulítið vafasömu þýðingu til þess að gera þessi sjónarmið tortryggileg. Þess vegna er það ekki rétt, sem kom fram hjá hv. þm. Ólafi Þórðarsyni áðan, að þetta sé mótsögn, sem felst í annars vegar svokallaðri jákvæðri mismunun og hins vegar jafnrétti, vegna þess að tilgangur allrar þessarar umræðu er sá að beitt verði jákvæðum aðgerðum — eða jákvæðri mismunun — til þess að ná jafnrétti og þessu verði beitt um skeið.

Í norrænni löggjöf um þessi mál er kveðið á um það beinlínis með þeim hætti að segja að þrátt fyrir ákvæði laga um jafnrétti megi um skeið beita slíkum tímabundnum ráðstöfunum. Þetta er í norskri, danskri og sænskri löggjöf og er núna til meðferðar í finnska þinginu. Af því að hv. þm. Friðrik Sophusson var að vitna hér í norræn lög máli sínu til stuðnings áðan mun ég gera ráðstafanir til að koma til hans gögnum um þessi mál og hvernig þau hafa þróast á Norðurlöndum. Núna á þessu ári var haldinn fundur á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar þar sem fjallað var um reynsluna af jafnréttislögum og jákvæðri mismunun á hinum ýmsu Norðurlöndum og ég held það væri mjög gagnlegt fyrir félmn. að fá þessi gögn. Ég hef gert ráðstafanir til þess að hún fái þau í hendur. Ég hafði reyndar hugsað mér að gera grein fyrir því hér, en ég taldi heppilegra að nefndin fengi það mál þegar hún tekur þetta frv. til meðferðar.

Ég held að það sé út af fyrir sig alveg ljóst og um það er enginn ágreiningur að jafnréttislög geti verið góð svo langt sem þau ná. Engum dettur þó í hug að þau leysi allan vanda, það hefur aldrei verið talað um það. En ég held að kominn sé tími til að stíga næsta skref sem er það að löggjafinn opni heimildir til þess að bæta stöðu kvenna frá því sem nú er, þ.e. til jákvæðrar mismununar svo ég noti nú þessi vondu orð aftur. Ég held að það megi jafnvel færa rök að því að þessi lög eins og þau eru núna, sem banna jákvæða mismunun, því það er það sem lögin gera núna strangt tekið því till. Vilborgar Harðardóttur og Svövu Jakobsdóttur var felld, stuðli óbreytt að ríkjandi karlaveldi í þjóðfélaginu. Og ég get flutt um það mörg rök sem ég held að liggi í augum uppi þegar fólk hugsar sig um eitt augnablik í sambandi við þessi mál. Ég held þess vegna að við séum komin að þeim óhjákvæmilegu tímamótum að Alþingi Íslendinga verði að ákveða hvort það ætlar að stíga þetta skref, sem hér er gerð till. um, eða ekki.

Hv. þm. Ólafur Þórðarson, vék að þeirri grein frv. sem fjallar um það að Jafnréttisráð eigi að vera stefnumótandi. Ég held að það sé sú grein sem hann var að tala um, þ.e. 2. tölul. 15. gr. ef ég man rétt. Hann telur að með því sé Alþingi að láta hluta af sínu valdi. (ÓÞÞ: Ég talaði um 10. gr. núgildandi laga. ) Það er greinin um hlutverk Jafnréttisráðs. En ég skildi þm. svo að hann væri að tala um þann anda gildandi laga og frv. að Jafnréttisráð hefði hluta af því valdi sem segja mætti að Alþingi ætti að hafa alla jafna.

Nú er það svo að á ýmsum sviðum, t.d. varðandi framkvæmdir og fleira afsalar Alþingi sér tilteknu valdi. Og Alþingi afsalar sér þessu valdi í hendur ráðh. sem fer með framkvæmdavaldið, en er háður vilja meiri hluta Alþingis á hverjum tíma. Ég held þess vegna að hérna sé um að ræða afskaplega algengan og eðlilegan hlut í okkar löggjöf, sem hér er verið að gera till. um, enda minni ég á að núverandi félmrh. hefur tekið undir þetta sjónarmið með frv. ríkisstjórnarinnar eins og það hér liggur fyrir, að það geti komið til greina og verið eðlilegt að afhenda einhverri slíkri stofnun eins og Jafnréttisráði stefnumótunarhlutverk. Þetta er t.d. í lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, svo ég nefni dæmi, og ég hygg að í fleiri lögum megi finna hliðstæður þessa. Ég held þess vegna að hér sé ekki um að ræða hættulegt atriði fyrir Alþingi til eða frá.

Hv. þm. Stefán Valgeirsson kom hér og sagði nokkur orð um þetta frv. Ég man eftir því að hann sagði einnig fáein orð um þetta frv. á síðasta þingi og hefur þannig sýnt þessum málum vissan áhuga. Ég vek athygli á því að þegar þessi mál voru til meðferðar í fyrra, m.a. á fundum með þm. sem Jafnréttisráð boðaði til, þá var hv. þm. Stefáni Valgeirssyni, að það sé eitthvað óeðlifrv. endurskoðunarnefndarinnar og sagði, eins og hæstv. félmrh. reyndar líka, að Framsfl. og ráðh. mundu beita sér fyrir því að leggja fram frv. endurskoðunarnefndarinnar eins og það kom frá henni. Það voru óbreytt orð ráðh. þegar fjallað var um þetta mál á hv. Alþingi 18. okt. 1983.

Við meðferð málsins í stjórnarflokkunum voru hins vegar gerðar þær breytingar á frv. sem við höfum hér verið að ræða og eru ekki til bóta. Og ég held að það hafi verið óhjákvæmilegt, úr því að hæstv. félmrh. fór að leggja fram þetta stjfrv. jafnslæmt og það er, að þm. sýndu sitt frv., frv. endurskoðunarnefndarinnar. til þess að hægt væri að hafa þau til umr. bæði í einu. Þess vegna vil ég mótmæla því sjónarmiði, sem fram kom hjá hv. þm. Stefáni Valgeirssyni, að það sé eitthvað óeðlilegra að leggja þetta þmfrv. fram en að flytja brtt. við einstakar greinar frv. hæstv. ríkisstjórnar. Auðvitað er það svo hugsanlegt, þegar málið kemur frá félmn. til 2. umr., að fluttar verði brtt. við álit n. og till. n. nema þar náist samkomulag. Hver veit nema samkomulag náist þó að fátt virðist benda til að svo verði.

Í ræðu minni áðan lagði ég á það áherslu að n. reyndi að komast eins langt og mögulegt er í því að ná samkomulagi. Ég verð að segja alveg eins og er að mér fannst ræða hv. 2. þm. Reykv., þessi skætingur, sem hann flutti áðan, ekki benda til þess að þar væri neinn vilji til þess að ná neinu samkomulagi í þessu máli. Ég tel það í rauninni mjög alvarlegt ef það er þannig innan stjórnarflokkanna að þeir skilja ekki nauðsyn þess að það náist sem víðtækust samstaða um mál af þessu tagi því að að vissu leyti má segja að frv. og lögin eins og þau eru snerti mikilvæg grundvallaratriði í allri okkar stjórnskipun. Það hefur verið regla í sambandi við stjórnarskrárumr., kosningalög og fleira og fleira, það hefur verið lögð áhersla á það, að stuðla að sem bestu samkomulagi. Ég lýsi fyrir fram ábyrgð á hendur ríkisstjórnarinnar ef hún ætlar að höggva á möguleika til samkomulags um þetta mál og slá á þá sáttahönd sem hér hefur verið rétt fram að minnsta kosti af tveimur ef ekki þremur talsmönnum þriggja stjórnarandstöðuflokka. Ég held að hæstv. ráðh. ætti að beita sér fyrir því að það næðist hér samkomulag. Ég held að það væri best fyrir hann. Ég held að hann eigi ekki að vera að pína þetta vonda frv. í gegnum þingið sem íhaldið píndi hann til þess að flytja hér. Ég held að hann eigi að stuðla að því að menn hjálpist að við þetta úr öllum flokkum, bæði stjórn og stjórnarandstöðu.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, ítreka það sjónarmið mitt í þessu máli að jafnréttisbarátta, barátta fyrir jafnrétti kvenna, sem ekki tekur á peningaþjóðfélaginu, gróðaöflunum hér í þessu landi, hún nær skammt. Það er alveg ljóst að hinn svokallaði frjálsi vinnumarkaður heldur niðri launum kvenna. Vinnuveitendasamband Íslands, sem hv. 1. þm. Suðurl. var talsmaður fyrir um árabil, hefur alltaf lagst gegn öllum jafnréttiskröfum, launajafnrétti, öllum félagslegum umbótum, alveg sama af hvaða tagi þær hafa verið. Þannig hefur einkafjármagnið hér í landinu ævinlega lagst gegn félagslegum sjónarmiðum eins og liggja til grundvallar, má segja, þeirri hugsun sem ég er hér að reyna að túlka og sumpart kemur fram í þmfrv. Ég held að við verðum að horfast í augu við þá staðreynd að peningaöflin í þjóðfélaginu hafa ævinlega staðið þversum gegn jafnréttisviðleitni af öllu tagi. Núverandi hæstv. félmrh. getur auðvitað ekki gert sér vonir um að bandalag hans við íhaldið dugi til þess að koma í gegn einhverju því sem þokar jafnréttismálum verulega áleiðis. Ef hann reynir það er sú tilraun þegar í stað í skötulíki eins og það frv. sem hér er á dagskrá er því miður. Ég vænti þess hins vegar að menn beiti sér fyrir því að taka á þessum málum í sameiningu, stuðli að sem víðtækastri samstöðu þeirra flokka sem hér eiga fulltrúa, vegna þess að hér er um að ræða stór mál. Ég held að viðeigandi væri að ljúka afgreiðslu svona máls á síðasta ári kvennaáratugarins og ég held að það væri þeim mun betra sem víðtækara samkomulag næðist um málið hér á hv. Alþingi.