13.05.1985
Neðri deild: 68. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5169 í B-deild Alþingistíðinda. (4470)

424. mál, erfðalög

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Það er ekki þörf á að hafa mörg orð um þetta frv., aðeins örfá til upprifjunar. Það er rétt hjá hv. 10. landsk. þm. að málið, 53. mál, um breytingu á erfðalögum, var búið að velkjast lengi í allshn. Nd. Nm. gátu ekki orðið sammála um það. Þeir kölluðu á sinn fund marga færustu menn, þ. á m. bæði frá borgardómi og fógetarétti. Þegar sýnt var að málið hafði ekki meirihlutafylgi í nefndinni var horfið að því að flytja nýtt frv., það sem er hér á þskj. 696. Öll allshn., þ. á m. hv. 10. landsk. þm., sameinaðist um að flytja þetta frv. sem hér liggur fyrir frá allshn. Það var allsherjar samkomulag í nefndinni.

Nú vill hv. 10. landsk. þm. flytja brtt. við þetta frv. sem allsherjar samkomulag var orðið um. Þetta finnst mér skjóta nokkuð skökku við. Ég benti á það um daginn að sá maður sem hefði átt mestan þátt í að ná þessari niðurstöðu, þessari málamiðlun, hv. 2. þm. Reykn., prófessor Gunnar G. Schram, væri ekki á landinu þegar málið var rætt síðast. Nú mun hann kominn til landsins en hefur hins vegar ekki komið til þings í dag. Ég hvarfla ekki frá því, sem ég hélt fram hér síðast, þegar þetta mál var rætt, að mér finnst engin nauður reka til þess að fara að rjúfa það allsherjar samkomulag sem varð í nefndinni um þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 696. Verð ég þess vegna að leggjast gegn þeirri brtt. sem hv. 10. landsk. þm. o. fl. hafa nú flutt á þskj. 740.