13.05.1985
Neðri deild: 68. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5195 í B-deild Alþingistíðinda. (4483)

86. mál, áfengislög

Frsm. meiri hl. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Austurl. spurðist fyrir um það í umr. hér fyrir 2 eða 3 dögum á hvern hátt við, sem stöndum að flutningi brtt. á þskj. 733, hefðum hugsað okkur framkvæmd á dreifingu áfengs öls ef frv. verður samþykkt. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson taldi að miklir erfiðleikar yrðu á því að hægt væri að koma þessum dreifingarmálum þannig fyrir að sæmilegs jafnvægis yrði gætt. Þeir sem búa langan veg frá áfengisútsölum mundu eiga í miklum erfiðleikum með að ná í þessa vöru og hljóta af því þá aukinn kostnað. Enn taldi hv. þm. að ef ætti að nálgast þessa vöru með póstflutningum mundi verða mikil örtröð á póststofum.

Í framsöguræðu minni fyrir áliti meiri hl. skýrði ég brtt. nefndarinnar og í 4. brtt., sem hér er spurst fyrir um, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins annast dreifingu og sölu áfengis, hvort sem það er innflutt eða framleitt innanlands, sbr. lög um verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf, nr. 63/1969.“ Síðan segir: „Allt áfengt öl, sem Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins selur, skal selt í margnota umbúðum.“ Lýk ég þar tilvitnun, en einnig er í þessari grein ákvæði um áletranir sem ekki koma þessu máli við.

Ég vil gjarnan láta það koma fram sem svar við þessum fsp. að meiri hl. allshn. hafði það meginsjónarmið fyrir augum að verslun með áfengt öl skyldi lúta áfengislögum, að innflutningur, framleiðsla og verslun með þessa vöru skyldi lúta áfengislögum eins og um annað áfengi væri að ræða. Þess vegna er meiri hl. nefndarinnar ekki með neinar tillögur um það að greiða fyrir verslun og dreifingu á áfengu öll umfram það sem gildir með annað áfengi. Þetta þýðir vitaskuld að ekki verður um jafna aðstöðu fólks hvarvetna á landinu að ræða til að nálgast þessa vöru og að því lúta ekki tillögur nefndarinnar.

Á það ber að líta að dreifing og verslun með áfengi fer þannig fram í dag að menn búa alls ekki við sömu skilyrði hvað þetta snertir.

Nú er það rétt hjá hv. 5. þm. Austurl. og tek ég alveg undir það með honum að pósturinn sé ekki nothæfur sem flutningsleið fyrir áfengt öl nema í litlum mæli, t. d. ef menn fá sér ölglas á gamlárskvöld eða einu sinni, tvisvar á ári eða eitthvað þess háttar, en það er auðvitað kunnugt að fleiri flutningsleiðir eru notaðar fyrir áfengi hér á landi en pósturinn og er þá gert ráð fyrir að verslun sé með lögmætum hætti. Áfengi er auðvitað keypt í áfengisverslunum og flutt út um land með flutningabílum, vafalaust með strandferðaskipum Skipaútgerðar ríkisins og enn fremur með flugvélum.

Ég geri ráð fyrir því að útsjónarsamir menn, sem búa fjarri áfengisútsölum, kunni að nota sér slíkar flutningsleiðir með áfengt öl. Hitt er vitaskuld rétt að af þessu leiðir nokkurt óhagræði og aukinn kostnað umfram það sem þeir búa við sem eru búsettir við hliðina á áfengisútsölu.

En ég lít svo á að með þessu hafi ég í raun svarað fsp. hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar um tillögur meiri hl. nefndarinnar í þessu efni. Og ég get bætt því við að við munum að sjálfsögðu seint geta búið svo um þessi mál að þar séu allir nokkurn veginn jafnsettir með það að ná í þessa vöru, nema þá því aðeins að slakað sé miklu meira á meðferð þessara mála en við gerum tillögur um. Við erum ekki talsmenn þess að sala á áfengu öll verði með líkum hætti og víðast hvar gerist í okkar nágrannalöndum þar sem þessi vara fæst í flestum eða öllum matvörubúðum.

Ég tel þá að ég hafi með þessu svarað þeim fsp. sem til mín hafa borist frá hv. 5. þm. Austurl.

Ég ætla ekki hér að hefja málefnalegar umræður eða rökræða um þetta mál við þm. sem hér hafa talað í þessum umræðum. Þar hefur margt verið sagt sem að sjálfsögðu væri unnt að gera athugasemdir við og mun svo lengi ganga. Ég vil aðeins taka það fram að einn hv. þm. hefur vitnað í mína ræðu, þegar ég mælti fyrir áliti meiri hl. allshn., og talið sig hafa eftir mér orð sem ég vil ekki láta festa í þingtíðindum án þess að því sé mótmælt. Þetta var hv. þm. Stefán Valgeirsson. Ég sé hann nú ekki hér í salnum. Hann segir í fyrsta lagi í ræðu sinni, með leyfi hæstv. forseta:

Hv. þm. Pálmi Jónsson talaði í sinni framsöguræðu um hve illt ástand væri í áfengismálum hér. Eftir því sem sagan segir okkur hafa menn þvegið hendur sínar annað slagið síðustu 2000 árin. Hann sagði að það væri svo slæmt ástandið að það gæti ekki versnað þó að bjórinn bættist við. Það er a. m. k. andstætt þeirri reynslu, sem annars staðar er.“

Ég vænti að hv. þdm. skilji það að ég vildi ekki láta kenna þessa klausu við mig. Ég hef lesið mína ræðu mjög vandlega og get alls ekki fundið hana í mínu máli.

Annað mælti þessi sami hv. þm. þar sem hann tók svo til orða, með leyfi hæstv. forseta:

Hv. þm. Pálmi Jónsson sagði að það væri yfirdrepsskapur sem kæmi fram í máli þeirra sem mér skildist að ekki væru á sama máli og meiri hl. nefndarinnar.“

Þetta er rangt. Um þetta sagði ég ekki eitt einasta orð í minni ræðu. Ég minntist ekki á það einu einasta orði að um yfirdrepsskap væri að ræða í máli eða skoðunum þeirra manna sem hefðu aðrar skoðanir en meiri hl. nefndarinnar um þessi efni. Hins vegar sagði ég í minni framsöguræðu, sem ég skal lesa með leyfi forseta, orðrétt:

„Eins og öllum er kunnugt, þá held ég að það sé varla nokkur Íslendingur sem geti sagt að núverandi ástand í þessum efnum sé þjóðinni til sóma og þar með ekki Alþingi til sóma. Í fyrsta lagi má segja að framkvæmd og ástand þessara mála sé mótað af miklum tvískinnungi, nærri því tvöfeldni eða yfirdrepsskap.“

Það er sem sé allt annað það sem ég segi um ástand áfengismála í landinu nú í dag og um þessar mundir, eða það hvaða skoðanir þeir kunna að hafa sem ekki eru á sama máli og ég, og um það sagði ég ekki eitt einasta orð. Ég vænti að hv. þdm. skilji muninn á þessu og ég hlýt að taka það fram að mér þykir auðvitað betra að eiga orðastað við þá hv. andmælendur mína sem geta haft orðrétt eftir.

Hér hafa verið fluttar tvær brtt. Í fyrsta lagi á þskj. 849 frá hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur, þar sem lagt er til að í stað 0.5% í 6. brtt. nefndarinnar komi 1%. Að sjálfsögðu er það mikið álitamál hversu langt skuli stefna í slíkum ákvæðum. Alkunna er að þeir sem standa fyrir málum, a. m. k. af hálfu meiri hl. Alþingis, hverju sinni leitast við að varast að festa mjög háa markaða tekjustofna í lögum. Og reynslan sýnir að ef það er gert, þá ber það stundum við að þessir mörkuðu tekjustofnar eru ekki virtir heldur skertir með lagaákvæðum kannske á hverju Alþingi. Nú hef ég ekkert í sjálfu sér um þessa till. að segja fyrir hönd nefndarinnar, eða meiri hl. hennar, vegna þess að meiri hl. hefur ekki rætt hana og ekki tekið til hennar neina afstöðu. Ég vil aðeins segja frá því að við höfðum á okkur nokkra varúð í þessum efnum og vildum ekki spenna bogann of hátt í mörkuðum tekjustofni til þess að auka fræðslu í áfengismálum hér á landi. En ég tel auðvitað að það megi kalla álitamál hvort þarna eigi að vera 0.5% eða 1% enda þótt tillaga meiri hl. nefndarinnar liggi ljós fyrir.

Í öðru lagi er hér brtt. á þskj. 853 frá Karvel Pálmasyni þar sem segir að lögin skuli þó ekki framkvæma nema þau hafi áður hlotið samþykki meiri hluta í þjóðaratakvæðagreiðslu sem fari fram eigi síðar en 15. september n. k. Ég held að ég megi segja það fyrir hönd meiri hl. nefndarinnar að við höfum talið afdráttarlaust rétt að Alþingi taki af skarið í þessum efnum, taki afstöðu og velji ekki þá leið að leggja þetta mál undir þjóðaratkvæðagreiðslu. Meiri hl. nefndarinnar taldi, og jafnvel einnig þeir sem skipa minni hl. þó að ég vilji nú ekki tala fyrir þeirra munn, þá er mér ekki grunlaust um að þeir hafi einnig talið tímabært að taka afstöðu í þessu máli. Meiri hl. taldi að það væri búið að vefja þetta mál það oft og það lengi á hv. Alþingi að nú væri kominn tími til að taka afstöðu annaðhvort af eða á. Og við það miðast tillögur nefndarinnar. Ég geri því ekki ráð fyrir að þessi brtt. á þskj. 853 hljóti stuðning frá okkur sem skipum þennan meiri hl.