14.05.1985
Sameinað þing: 82. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5205 í B-deild Alþingistíðinda. (4495)

436. mál, framhald samningaviðræðna við Alusuisse

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Þann 5. nóv. 1984 undirritaði hæstv. iðnrh. fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands samning við Alusuisse sem staðfestur var með samþykkt á frv. til l. 29. nóv. s. l. eftir miklar umræður hér á Alþingi. Við þessa samningsgerð náði Alusuisse m. a. fram því markmiði sínu að kljúfa í sundur þau efnisatriði sem leysa átti samtímis skv. bráðabirgðasamningi ríkisstj. og Alusuisse frá 23. sept. 1983. Auðhringurinn fékk sakaruppgjöf vegna skattsvika liðinna ára gegn greiðslu 3 millj. dollara eða um 120 millj. kr. upp í kröfur íslenska ríkisins, án þess að lokið væri samningum um breytingar á skattgreiðslu til ÍSALs. Jafnframt knúði Alusuisse fram ýmsar breytingar á áður gildandi skattareglum og allar sér í hag. Fólst í þeim stórfelld fjármunaleg eftirgjöf auðhringnum til handa um ókomin ár, auk grundvallarbreytinga á viðmiðun varðandi aðföng ÍSALs, þ. e. svonefnd bestu-kjaraákvæði.

Um þá þætti samninga, sem hlaupist var frá 5. nóvember s. 1., var gert sérstakt bréf um samkomulag, dags. 5. nóvember s. 1., og var það birt sem fylgiskjal VI með frv. um lagagildi viðaukasamningsins á þskj. 148. Í bréfi þessu er vísað til bráðabirgðasamningsins frá haustinu 1983, sem eins og þar segir „verður áfram í gildi skv. ákvæðum sínum.“ Í bréfinu er síðan fjallað um fjóra efnisþætti:

1. Breytt skattkerfi varðandi ákvörðun á framleiðslugjaldi ÍSALs og muni aðilar, eins og þar segir orðrétt, „leitast við að ljúka umræddri endurskoðun eigi síðar en hinn 1. júní 1985.“ Það er eindagi sem rennur út innan rúmlega tveggja vikna eða í lok þessa mánaðar.

2. Efnisatriði eru um stækkun álbræðslunnar í Straumsvík um 40 þúsund tonna ársafkastagetu, eða nálægt 50% frá því sem nú er. Til slíkrar stækkunar þyrfti um 600 gígawattstundir á ári, eða hátt í framleiðslugetu fullbúinnar Blönduvirkjunar. Um það segir orðrétt í nefndu bréfi ríkisstj. og Alusuisse:

„Mun ríkisstj. afhenda Alusuisse bréf, þar sem tilgreind verði fyrirhuguð kjör og skilmálar varðandi afhendingu á raforku frá Landsvirkjun til þeirrar stækkunar. Alusuisse mun skjótlega svara með því að staðfesta við ríkisstj. hvort það telji kjör þessi og skilmála viðskiptalega raunhæfa og í því tilviki munu aðilarnir taka upp aðgerðir til að leita að þriðja aðila, sem þeir geti báðir fellt sig við, er hafi áhuga á að taka þátt í þessari stækkun með Alusuisse.“ Þetta var orðrétt.

Þriðja atriði þessa bréfs varðar forathugun á því að koma upp rafskautaverksmiðju við álverið og átti hún að hefjast eigi síðar en um síðustu áramót.

Fjórða atriðið er um heimild til handa ríkisstjórn Íslands að óska eftir hlutdeild í ÍSAL, sjálfstætt eða í sambandi við tilkomu þriðja aðila sem hluthafa í fyrirtækinu.

Hæstv. iðnrh. hefur ekki séð ástæðu til þess að greina Alþingi frá framvindu þessara stóru mála sem eftir voru skilin við gerð samkomulagsins í nóvember s. l. Heldur ráðh. þar uppi sama hætti og áður að láta þögnina hjúpa allar viðræður við Alusuisse. Aðeins menn í innsta hring ríkisstjórnarflokkanna fá að sjá eitthvað á spilin. Þó kemur fyrir að hæstv. ráðh. hentar að leka einhverju í fjölmiðla um gang mála eftir því sem hann telur sér henta pólitískt.

Þannig hafði Morgunblaðið það eftir ráðh. 20. apríl s. l. að nú væru yfirgnæfandi líkur á því að samningar næðust um stækkun álversins í Straumsvík og yrðu þeir væntanlega frágengnir fyrir mitt þetta ár. Samningaviðræður Alusuisse við japanski fjölskyldufyrirtæki, sem framleiðir rennilása, væru langt komnar, um að það gerðist þriðji aðilinn að stækkuninni. Í ljósi þessa setti ríkisstj. væntanlega inn í frv. til lánsfjárlaga sérstaka heimild upp á 82 millj. kr. til að herða á framkvæmdum við Blönduvirkjun, eins og þar segir, „ef svo skyldi fara, sem mestar líkur eru á, að samningar gangi hratt fyrir sig.

Ég tel það ekki seinna vænna að fá það upplýst hér á Alþingi hver er staðan í áframhaldandi samningamakki við Alusuisse og m. a. hvaða kjör og skilmála ríkisstj. hafi tiltekið gagnvart Alusuisse vegna 50% stækkunar álversins sem hæstv. iðnrh. gefur nú í skyn að semjast muni um á næstu vikum. Hér er um slík stórmál að ræða að ráðh. og ríkisstj. ættu raunar ótilkvödd að láta Alþingi fylgjast með því sem er á döfinni. Til þess að fá létt af þessu hulunni hef ég borið fram á þskj. 731 eftirfarandi fsp. til hæstv. iðnrh. um framhald samningaviðræðna við Alusuisse:

1. Hvað hefur gerst í samningaviðræðum ríkisstj. og Alusuisse í samræmi við bréf um samkomulag frá 5. nóvember 1984?

2. Hver er staðan í samningum varðandi fyrirhugaðar breytingar á framleiðslugjaldi ÍSALs sem aðilar ætla að leitast við að ljúka „eigi síðar en hinn 1. júní 1985“ og hvaða breytingum stefnir ríkisstj. að varðandi skattgreiðslukerfi álversins?

3. Hvenær afhenti ríkisstj. Alusuisse bréf um fyrirhuguð kjör og skilmála varðandi stækkun álbræðslunnar, hverjir eru þessir skilmálar og hver er staðan í samningum um stækkun álversins?