15.05.1985
Neðri deild: 70. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5366 í B-deild Alþingistíðinda. (4622)

430. mál, bankaráð ríkisbankanna

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Aths. mín er þessi: Hv. þm. Halldór Blöndal segir að þessi setning úr grg. sem ég nú vitna til, „Eins og fram hefur komið samþykktu bankaráð ríkisbankanna nýlega að greiða bankastjórum árlegan launaauka að upphæð 450 þús. kr. í stað bifreiðahlunninda,“ sé röng. Ég fullyrði aftur á móti að þessi setning standist og sé rétt. Þessi samþykki var fyrst lögð fram í bankaráði Landsbanka Íslands 28. des. og, eftir því sem mér er tjáð, á sama tíma í bankaráði Seðlabankans. Þessi ályktun var birt í blöðum þó að ég hafi hana ekki undir höndum.

Að því er varðar Útvegsbanka Íslands fer ekkert á milli mála um að þessi ályktun var samþykkt, nákvæmlega þessi. Spurningin er eingöngu um atburðarás í Búnaðarbanka Íslands. Mínar upplýsingar eru þær að þar hafi verið lögð fram á bankaráðsfundi nákvæmlega sama ályktunin og lögð var fram í bankaráði Landsbankans. Henni var síðan breytt. Fyrir liggur í bókum Búnaðarbankaráðs bókun frá fulltrúa Alþfl. þar sem hann gerir aths. við þessa samþykki. Aths. eru tvær: Í fyrsta lagi að ákvæðið um vísitölutryggingu skv. lánskjaravísitölu sé brot á lögum. Hin síðari var að úr því að bankaráð hinna bankanna hefðu samþykki þennan kaupauka í þessu formi treysti bankaráðsmaðurinn sér ekki til þess að greiða atkv. gegn því að kjör bankastjóra Búnaðarbankans skyldu vera hin sömu og í öðrum ríkisbönkum. Hitt treysti ég mér ekki til þess að fullyrða um nákvæmlega, í hvaða tímaröð eða á hvaða stundu þessi bókun var lögð fram. En bókunin felur það í sér að samþykktin var gerð. Skv. þessu er það rétt, sem hér stendur, að í bankaráðum ríkisbankanna var samþykki gerð um þennan launaauka og þessa viðmiðun, 450 þús. kr.

Hitt er annað mál hvort þessi ályktun fékk einhvern tíma staðfestingu, hvort hún var borin undir eða leitað staðfestingar ráðh. Um það höfum við ekki fullyrt, enda málið með þeim hætti að þegar það er upplýst í fjölmiðlum varð mikið írafár. Viðskrh. snéri sér til bankaráðanna og bað um frestun. Þau hafa áreiðanlega öll orðið við því. Ég minnist frásagna úr blöðum af því að því er varðar Búnaðarbanka að þar komu fram hugmyndir um að bankaráð Búnaðarbankans væri með tillögur í mótun um að færa þessi mál aftur í sitt fyrra horf. (SV: Þetta er rangt eins og annað.)

Í seinni setningunni, herra forseti, segir: „Þrjú af fjórum bankaráðum ríkisbankanna ákváðu einnig vísitölubindingu launaaukans sem þó er andstæð lögum.“ Þessi setning er rétt. (SV: Hún er röng.) Þessi ályktun var gerð í bankaráði Útvegsbankans. Fullyrðingar um að vísitölubindingin sé ekki brot á lögum er skoðun sem menn mega hafa mín vegna. Orðalagi á þessu var breytt síðar, en þó er staðfest að hún fól í sér vísitölubindingu. Digurbarkaleg ummæli hv. þm. Halldórs Blöndals um að hér sé farið rangt með eru því ósannað mál.

Ég hef ekki tíma til þess, herra forseti, að víkja að öðrum efnisatriðum. Ég er hér eingöngu til þess að svara fullyrðingum hv. þm. um að hér sé farið með rangt mál. Aðrar pólitískar ábendingar hans get ég látið bíða betri tíma.