21.05.1985
Sameinað þing: 85. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5496 í B-deild Alþingistíðinda. (4738)

365. mál, vegáætlun 1985--1988

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Það hefur nú ekki verið venja að ræða einstaka þætti vegáætlunar sérstaklega við síðari umr. það hefur venjulega verið gert við fyrri umr., þar sem menn hafa sérstaklega viljað leggja áherslu á ákveðin atriði, og skal ég þess vegna ekki fara inn á þá braut hér. Ég vil þó minna á að ég tel að með því merkasta sem hér hefur verið samþykkt á Alþingi hafi verið það samkomulag sem náðist hér á breiðum grundvelli um að gera langtímaáætlun og standa þannig að henni að það var fyrir fram vitað að menn úr öllum stjórnmálaflokkum ætluðu að sameinast um að við hana yrði staðið. Þó það hafi orðið nokkur frávik er ljóst að þessu markmiði hefur verið náð, jafnvel umfram það sem væri hægt að gera ráð fyrir miðað við efnahagsástandið hverju sinni. Ég vil einnig segja það, sem var ástæða þess að ég kom hér upp, að ein mikilvægasta ákvörðun sem var tekin jafnhliða langtímaáætlun var ákvörðun um hin svokölluðu Ó-verkefni sem byggist á því að taka sérstaklega til framkvæmda lífshættulegar samgönguæðar milli þéttbýlisstaða sem verður að framkvæma með sérstökum hætti þannig að ekki dragist úr hömlu sú framkvæmd eftir að byrjað er á henni.

Það sem ég vildi svo vekja athygli á hér við þessa umr. er það að mér finnst að það hafi verið helst til fljótt klippt á fjármagn til framkvæmda við Ólafsvíkurenni. sú framkvæmd er merkilegt átak og myndarlegt í alla staði og tókst vel til í sambandi við það útboð sem þar var gert. Hins vegar er þetta framkvæmd sem liggur út í sjó og ekki fullvitað enn hvernig hún stenst þau átök sem höfuðskepnurnar láta dynja á því mannvirki. Þess vegna hefði ég talið ástæðu til að láta meira fjármagn á árinu 1985 og jafnvel fram á árið 1986 í þetta verkefni en raun er á orðin. Ég er alls ekki með þessu að draga úr gildi þess að þessi framkvæmd tókst svona vel og tók svo skamman tíma, þannig að hægt er að snúa sér af meiri krafti á næsta Ó-verkefni, við Óshlíð, heldur finnst mér að þarna sé ekki nógu varlega að staðið því að það getur þurft á þessu fjármagni að halda ef illa tekst til með undirstöður vegarins á öllu svæðinu. Ég vildi vekja athygli á þessu um leið og ég undirstrika mikilvægi þess að sú ákvörðun var tekin á sínum tíma að taka þessa þrjá lífshættulegu Ó-vegi fyrir sérstaklega.

Ég get ekki látið hjá líða, fyrst ég er kominn hingað upp, að minnast á eitt atriði, sem ég tel að Alþingi þurfi að fjalla um ásamt með yfirstjórn vegamála í landinu, og það er í sambandi við þá þróun, sem allir eða flestir eru sammála um, að auka útboð á verkum í sambandi við vegagerð og brúagerð jafnvel einnig, en þar á ég við þá árekstra sem hafa orðið víðs vegar um landið hjá ýmsum aðilum sem hafa byggt á þessu tilveru sína á hinum ýmsu stöðum, svo sem vörubílstjórar og vinnuvélaeigendur. Ég álít að skoða ætti vandlega hvort ekki væri hægt að finna einhverja viðmiðunarreglu sem tryggði að einhverju leyti tilvist þessara aðila í héruðunum. Það er hægt að setja upp hugmyndir um vissa prósentu eða eitthvað þess háttar sem væri fast verkefni á viðkomandi svæði og tryggði þar með þessum aðilum visst öryggi. Ég tel að þýðingarmikið sé að þetta sé skoðað og beini því til yfirstjórnar vegamála að farið verði að vinna að því að komast að niðurstöðum um þetta mál og átta sig á því hvað væri skynsamlegt í þessu tilfelli.

Í sambandi við það sem kom hér fram hjá hv. 1. þm. Vesturl. og hv. 4. þm. Vesturl. heyri ég að við þm. Vesturl. eigum eftir ýmislegt ótalað í sambandi við framkvæmd vegáætlunarinnar. Ég vænti þess að við munum ræða það fljótlega því ég skildi ekki almennilega það sem hér kom fram, a. m. k. ekki það sem kom fram hjá hv. 4. þm. Vesturl. Við eigum eftir að ræða þessi mál, þm. Vesturlands.

Ég vil svo að lokum segja það sem mína skoðun að vegamálin, eins og allir eru væntanlega sammála um, eru eitt þýðingarmesta byggðamál hér á landi. Ég leyni því ekki, og ég hef sagt það úr þessum ræðustól áður, að ég hef þá skoðun að við Íslendingar ættum að taka þróunarlán til að gera stórátak í vegagerð á skömmum tíma hér á landi, svo mikil er nauðsyn þess að flýta a. m. k. aðalframkvæmdum í vegagerð í landinu. Ég hef enn þessa skoðun og hef látið hana í ljós víða og held áfram að halda henni fram. Mér finnst að við eigum mikið ógert og að við þurfum að nýta tæknina. Til þess að ljúka við þessar framkvæmdir á styttri tíma þurfum við augljóslega að leita fanga um fjármagn. Ég kem ekki auga á hagstæðara fjármagn í stórátak sem þetta en ef við gætum átt kost á þróunarláni að þessu leyti til. Við erum á vissan hátt vanþróaðir í vegagerð hér á landi.