21.05.1985
Sameinað þing: 85. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5500 í B-deild Alþingistíðinda. (4743)

365. mál, vegáætlun 1985--1988

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil þakka formanni fjvn. og fjvn. allri fyrir vinnu nefndarinnar og tillögur og sömuleiðis þm. í hinum einstöku kjördæmum sem hafa haft eins og jafnan áður góða samvinnu um skiptingu á því fjármagni sem úr hefur verið að spila og till. gerir ráð fyrir.

Ég get tekið undir það með hv. stjórnarandstæðingum að það hefði verið æskilegra að eiga meira fjármagn til framkvæmda á þessu ári og standa við langtímaáætlun í vegamálum. En við verðum líka að hafa það í huga að það hefur orðið verulegur samdráttur í þjóðfélaginu. Það hafa komið nýir útgjaldaliðir á mörgum sviðum og við þurfum einnig að fjármagna alla þá liði. Því er það ekki óeðlilegt að nokkurs samdráttar gæti og það kemur í raun og veru engum þm. á óvart því að hér er byggt á forsendum fjárlaga sem afgreidd eru í desembermánuði hvað snertir framkvæmdir í vegamálum á þessu ári.

Hitt skiptir enn meira máli, hvernig þessar framkvæmdir standa. Hefur fjármagnið verið nýtt þannig að við höfum getað staðist þennan samdrátt? Ef við lítum á fyrsta tímabil þessarar svokölluðu langtímaáætlunar standa eftir í árslok 1984 1493 millj. Á þessu ári er fjármagn til almennra framkvæmda 203 millj., til bundinna slitlaga 145 millj., sérstök verkefni 149 millj., Óvegir 42 millj. og brýr 12 millj. eða samtals 551 millj. Á árinu 1986 eru almennar verklegar framkvæmdir 230 millj. áætlaðar, bundið slitlag 160 millj., Ó-vegir 27 millj. og brýr 17 millj. eða samtals 609 millj. I>essi vegáætlun gerir því ráð fyrir að greiða af þessum 1493 millj. 1160 millj. Eru þá eftir 333 millj. eða 22%. En þá er því við að bæta að á árinu 1986 er óskipt fjármagn samtals 151 millj. þannig að eftir standa 182 millj. eða 12% af verðtryggðum framkvæmdum.

Þessu hefur verið mætt m. a. með útboðum. Sumir gagnrýna útboð og telja að menn bjóði óvarlega í, fari á hausinn, standi ekki við greiðslur og annað slíkt. En það er ýmislegt fleira sem hefur verið gert til þess að nýta betur fjármagnið. Það var tekið upp haustið 1983 að bjóða út snemma hausts þannig að verktakar gætu fengið betri og lengri vinnu fyrir sín tæki. Afskriftirnar eru þær sömu hvort sem er en nýtingin bæði á mannafla verktaka og tækja var allt önnur. Allt er þetta liður í því að fá meira fyrir peningana.

Ég skil mjög vel áhuga tækjaeigenda víðs vegar af landinu. Það hugsar hver um sig. En Vegagerðin og þeir sem vegagerð stjórna, bæði vegamálastjóri og hans starfsmenn og sömuleiðis samgrn. sem yfirstjórn vegamála, verða fyrst og fremst að hugsa um það að fá sem mesta vinnu fyrir það fjármagn sem úr er að spila hverju sinni. Við höfum haft þá stefnu að draga mjög úr starfsemi Vegagerðarinnar sjálfrar, bæði starfsmannafjölda, draga mjög úr eigin tækjum og fara eftir þeim lögum, sem Alþingi hefur samþykkt, að bjóða sífellt meira út af framkvæmdum. En við erum einnig með það í huga að bjóða aftur meira út í viðhaldi þannig að þeir sem tæki eiga víðast úti um land geti boðið í hin smærri verkefni. Við höfum einnig í huga að móta skýrari og ákveðnari stefnu um lokuð útboð til að koma til móts við þetta fólk. Þetta er allt vandmeðfarið. Við stefnum að því sama og gert hefur verið í okkar nágrannalöndum öllum um langt árabil að auka verktakastarfsemi.

Við verðum líka að hafa í huga að þegar miklar framkvæmdir verða á ákveðnum stöðum í öðrum málaflokkum, eins og virkjunarframkvæmdum, vilja menn gjarnan kaupa mikið af tækjum. Þá verður framboðið miklu meira þegar þeirri framkvæmd er lokið þannig að þau árleg, venjuleg verkefni geta ekki veitt öllum þessum tækjum og fólki vinnu. Þetta hafa menn skilið ákaflega vel þegar menn ræða þessi mál í alvöru og í rólegheitum og skiptast á skoðunum án hleypidóma.

Mér finnst rétt að geta þess hér að á s. l. ári voru útboð um 220 millj. Ef við færum þau til verðlags á þessu ári eru þetta um 280 millj. En á þessu ári eru áætluð útboð — þetta er gróf tala sem ég bið þm. að taka ekki alveg nákvæmlega — um 400 millj. Heildarframkvæmdir verða aftur upp á 560 millj. og þá er álagning 30, landbætur 10, eftirlit og hönnun 40, efni, sem verður einnig útboð, um 80 millj. og svo eigin flokkar 400 millj. Mér finnst rétt að þetta komi hér fram til glöggvunar.

Út af þeim orðum, sem fóru hér fram og komu frá hv. 11. landsk. þm. varðandi Austurland, ætla ég ekki að segja mikið og því síður að blanda mér í umr. þær sem fóru á milli hv. 3. þm. Vestf. og tveggja þm. Austurl. annarra. En ég vil aðeins upplýsa það að lán, sem tekin voru til vegagerðar á árinu 1980, námu 50.3 millj. til bundinna slitlaga, 26.1 til hafísvegar og 22.8 til jaðarbyggðavega. Lán tekin 1981 námu 24.6 millj. Þessar lántökur nema því 123.8 millj. á þessum tveimur árum og hlutfall þeirra eftir kjördæmum þannig að Austurland var hæst með 25.8 millj. og Norðurl. e. kom næst með 22 millj. kr. Ég vildi aðeins að þetta kæmi fram hér til upplýsingar ég ætlast ekki til að menn fari að deila um þessi atriði.

Hv. 5. þm. Reykn. ræddi hér mikið um vegaframkvæmdir í þéttbýli og að þær væru 15% á móti 85% annars staðar af landinu. Vafalaust er þetta mjög nærri sanni. Þó að ég hafi ekki alveg tilteknar tölur treysti ég þessum þm. að fara með rétt mál hvað þetta snertir því að ég þekki hann ekki að öðru. Hins vegar verðum við að taka, eins og hann réttilega tók fram, meira með í reikninginn. Við verðum að taka það með í reikninginn að framkvæmdir víða úti á landi eru nú rétt að byrja hvað snertir varanlegt slitlag sem búið er að vinna hér á þessum stöðum. Ég vil líka minna á það að það er tiltölulega nýlokið breikkun Hafnarfjarðarvegar þannig að nú eru þar tvær akreinar í hvora átt. Við reiknum með að tengja Reykjanesbrautina á árinu 1986 þó að henni verði ekki fyllilega lokið á því ári. Þetta eru gífurlega mikilvægar framkvæmdir fyrir þéttbýlið og ég vil á engan hátt draga úr nauðsyn framkvæmda hér í þéttbýlinu. En víðast hvar annars staðar hefur verið beðið lengi og á enn þá eftir að bíða lengi, eins og við vitum, skv. þeirri langtímaáætlun sem við stefnum að. Langtímaáætlun er fyrst og fremst byggð á umferðarþunga, að tengja þéttbýlisstaði víðast hvar á landinu saman þar sem ekki er hægt að tengja þá á þessu tímabili við aðalakvegakerfi landsins.

Ég er ánægður með framkvæmd þessarar langtímaáætlunar miðað við þær aðstæður sem eru fyrir hendi og ég tel að við förum nokkuð langt fram úr því sem við gerðum ráð fyrir. Þó að við segðum hér áðan að það vantaði ákveðna upphæð til að standa við fyrsta tímabilið verðum við einnig að taka með í reikninginn að lagt hefur verið bundið slitlag á ákveðna kafla sem tilheyra öðru tímabili. Þrátt fyrir samdráttinn á s. l. ári náðist sá árangur að leggja á 163 km. Ég vona að fengnum upplýsingum þeirra vegagerðarmanna að við förum yfir þetta mark á þessu ári. Vitaskuld ræður veðrátta mjög miklu. Ef það verður þurrkasumar og hagstæð tíð til þess að leggja þetta á verður þetta öruggt og veðráttan getur breytt því aftur. Við getum ekki fullyrt það á þessari stundu. En við skulum ekki draga fjöður yfir það að þarna er ekki að öllu leyti um tvöfaldar akreinar að ræða heldur er að hluta til, þar sem umferð leyfir, fjögurra metra breitt slitlag. Þetta tel ég allt vera mjög til góðs og ég vil líka vekja athygli á því að við erum nú að bæta framlög til þess að auka viðhald á vegum sem er ekki síður mikilvægt en annað.

Ég ætla ekki, herra forseti, að hafa þessi orð fleiri, en ég endurtek þakkir mínar til fjvn. um leið og ég vil segja það að það hefur verið mjög ánægjulegt að eiga jafngott samstarf og samgrn. hefur átt við Vegagerðina. Samstarf hefur verið náið og samstaða góð í sambandi við afgreiðslu þessara mála allra.