21.05.1985
Sameinað þing: 85. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5519 í B-deild Alþingistíðinda. (4762)

468. mál, ferðaþjónusta

Flm. (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Efnahags- og atvinnumál eru einatt að vonum fyrirferðarmesta umræðuefnið í íslenskum stjórnmálum. Undanfarna mánuði og jafnvel ár hefur orðið „nýsköpun“ heyrst æ ofan í æ og má segja að það hafi verið notað sem töfraorð sem öllu muni bjarga.

Síst skyldi dregið úr þörf fyrir nýja áður óreynda atvinnukosti, en ekki má heldur láta undir höfuð leggjast að hlúa að því sem fyrir er og byggja upp atvinnugreinar sem þegar hafa haslað sér völl. Um það hefur minna verið rætt.

Ferðaþjónusta er atvinnugrein sem að margra áliti hefur alla möguleika sem verulega arðbær atvinnugrein, bæði gjaldeyrisskapandi og vinnuveitandi, ef markvisst og ötullega er unnið að uppbyggingu hennar. Það sannar þróunin að undanförnu, sem sýnir miklu meiri aukningu í þessari grein en ráð var fyrir gert, og sólarmerki gefa tilefni til bjartsýni á framhaldið.

Það gegnir því nokkurri furðu hve hljótt hefur verið um þessa vænlegu atvinnugrein í allri umræðunni um nýsköpun og eflingu atvinnulífsins, nánast ekki á hana minnst þrátt fyrir síendurteknar fréttir af vaxandi áhuga erlendra ferðamanna á Íslandi og vaxandi áhuga Íslendinga sjálfra á að ferðast um eigið land.

Til er faglega unnin skýrsla, sem gerð var að frumkvæði ferðamálaráðs árin 1982–1983, um stöðu ferðamála og líklega þróun þeirra allt til ársins 1992. Er þar gert ráð fyrir 3.5% meðaltalsaukningu erlendra ferðamanna hingað til lands frá 1984–1992. Aukningin á síðasta ári nam hins vegar um 10%, en þá komu hingað 85 290 erlendir ferðamenn. Nú bendir allt til þess að á þessu ári verði aukningin ekki innan við 7–8% og að hingað komi um 92 þús. erlendir ferðamenn. Það er því nauðsynlegt að endurmeta stefnuna í ferðamálum með tilliti til þessara staðreynda.

Til að mæta þessari miklu fjölgun erlendra ferðamanna þarf að leita allra hugsanlegra leiða til að lengja ferðamannatímann og auka nýtingu hótela og annarrar þjónustu sem þegar er fyrir hendi. Það er staðreynd að hótelskortur er hemill á þróun þessarar atvinnugreinar, bæði í Reykjavík og úti á landi. Á töluvert löngu tímabili í sumar, þ. e. seinni hlutann í júní, júlí og eitthvað fram eftir ágúst, er fullbókað eða öllu heldur yfirbókað allt hótelrými í Reykjavík og hafa ferðamálafrömuðir af því miklar áhyggjur. Þessi mál þarf að leysa sem fyrst.

Þá þarf að gera ráðstafanir til þess að hægt sé að beina ferðamönnum í ríkari mæli út um landið, en til þess skortir tilfinnanlega aðstöðu víðast hvar utan höfuðborgarinnar og brýnt að bæta úr því hið fyrsta. Við skulum hafa í huga að uppbygging ferðaþjónustu úti á landi hefur auk þess þann mikilvæga kost að skapa atvinnu í dreifbýtinu og stuðla að jafnvægi í byggð landsins sem ekki er vanþörf á einmitt nú. Hluti af uppbyggingu ferðaþjónustu á landsbyggðinni hlýtur að flokkast undir eflingu atvinnu í stað hefðbundinna búgreina.

Af þessu öllu má ljóst vera að nauðsynlegt er að efla Ferðamálasjóð og gera honum kleift að veita lán með hagstæðum kjörum til uppbyggingar ferðaþjónustu um allt land. Er í hæsta máta eðlilegt að ætla honum skerf af fjármagni Þróunarfélagsins sem verið er að stofna um þessar mundir. Er það þeim mun brýnna þar sem Alþingi er nú í þann veginn að svipta ferðamálaráð og Ferðamálasjóð lögbundnum tekjum sínum af rekstri fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli með samþykkt lánsfjárlaga, en samkv. lögum ber að láta 10% af söluverðmæti fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli renna til ferðamála.

Það er raunar kapítuli út af fyrir sig sem vert væri að hafa um langt mál. Ég veit ekki hvort hv. þm. vita það allir eða muna eftir því að þegar þetta ákvæði var sett í lög, að 10% söluverðmætis fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli rynni í ferðamálaráð og Ferðamálasjóð, þá var allt áfengi og tóbak í fríhöfninni hækkað um 10% til þess að mæta því. En þannig fer því miður oft um markaða tekjustofna og er mál til komið að Alþingi fari að taka á því vandamáli. Það nær auðvitað ekki nokkurri átt að Alþingi brjóti sífellt þau lög sem það setur sjálft.

Til þess að þrýsta á um aðgerðir í þessum málum höfum við þm. Kvennalista ásamt þm. úr Bandalagi jafnaðarmanna, Alþb. og Alþfl. lagt fram eftirfarandi till. til þál. á þskj. 810, með leyfi forseta;

„Alþingi ályktar að fela samgrh. að láta kanna fyrir mitt þetta ár hversu mikið fjármagn þarf til að kosta þær framkvæmdir sem nauðsynlegar eru til að mæta 78% fjölgun erlendra ferðamanna á ári sem ferðamálaráð áætlar að muni verða. Enn fremur að leggja fram í tæka tíð fyrir gerð næstu fjárlaga tillögur um aukinn fjárframlög til Ferðamálasjóðs svo að hann geti veitt lán til nauðsynlegra framkvæmda í samræmi við ofangreinda áætlun ferðamálaráðs.“

Flm. auk mín, eru hv. þm. Helgi Seljan, Guðrún Agnarsdóttir, Karvel Pálmason, Sigríður Dúna Kristmundsdóttir og Kolbrun Jónsdóttir. Rétt er að geta þess að ég leitaði enn fremur eftir meðflm. í þingflokkum framsóknar og Sjálfstfl. Þeir hv. þm. sem ég leitaði til tóku þessu mjög vel og kváðust styðja þetta, en vegna þess að einmitt næstu daga eftir að þessi þáltill. kom fram var lagt fram stjfrv. um ferðamál fannst þeim ekki rétt að standa að flutningi þessarar till.

Jafnframt því sem brugðist er með skjótum hætti við skyndilegri aukningu ferðamanna, miklu meiri aukningu en ráð var fyrir gert fyrir aðeins þremur árum, þarf að móta stefnuna í framtíðaruppbyggingu ferðaþjónustu hér á landi með eftirfarandi markmið í huga:

Í fyrsta lagi er þörf átaks og samræmingar í landkynningu og sölustarfsemi á sviði ferðamála. Nú þegar endurskoðun og nýskipan á sér stað í útflutningsmálum okkar er mikilvægt að ferðamálin verði þar ekki út undan. Nú stendur til að stofna útflutningsráð og heyrst hafa áform um fjölgun sendiráða eða a. m. k. einhvers konar útflutningssendiherra og ég legg áherslu á að ferðamálin verði með í þeirri mynd.

Í öðru lagi ber að leggja áherslu á varðveislu þeirra séríslensku þátta sem heilla erlenda ferðamenn mest, þ. e. sérstæða óspillta náttúru, ómengað loft og tært vatn. Þetta er náttúrlega afar mikilvægt atriði sem ekki verður of mikið úr gert. Ég minnist þess að hafa séð úttekt, að vísu óvísindalega úttekt, á skrifum um Ísland í ýmsum erlendum ferðamálablöðum. Þessi úttekt birtist í DV fyrir hálfu öðru ári eða svo. Það fór ekki á milli mála í þessari úttekt hvert var aðdráttarafl lands okkar. Það aðdráttarafl skulum við varðveita með öllum ráðum. Þeir sem alltaf hugsa í krónum og aurum mættu oftar muna að hreina loftið okkar, tæra vatnið og villt náttúran eru ekki síður auðlind, að mínum dómi miklu dýrmætari auðlind en mengandi iðjuver af ýmsu tagi. Í þriðja lagi þarf að nýta náttúrlegar aðstæður til uppbyggingar heilsustöðva og stefna að því að selja útlendingum þjónustu á sviði heilsuræktar og lækninga. Á því sviði eru að mínum dómi miklir möguleikar og um það eru mér ýmsir sammála, m. a. hv. þm. Gunnar G. Schram sem ásamt þremur öðrum sjálfstæðismönnum hefur lagt fram till. til þál. um nýtingu jarðhita í heilsubótarskyni. Auk þess þykist ég hafa heyrt það á hv. heilbrmrh. að hann sér möguleika á því að selja útlendingum þekkingu á sviði læknisfræði.

Í fjórða lagi ber að vinna skipulega að því að laða hingað fjölþjóðlegar ráðstefnur sem mest utan aðalferðamannatímans, en slíkar ráðstefnur eru einn arðbærasti þáttur ferðamála þar eð ráðstefnugestir eyða hlutfallslega meiri gjaldeyri að meðaltali en hinn venjulegi ferðamaður. Sumar skýrslur segja alla að fimm sinnum meiri.

Síðast en ekki síst þarf að byggja upp menntunarskilyrði fyrir þá sem að ferðamálum starfa. Þeim þætti hefur verið lítill gaumur gefinn og ekki seinna vænna að taka þar til hendi. Nú stendur til bygging hótel- og veitingaskóla í tengslum við Menntaskólann í Kópavogi og er sjálfsagt að nota tækifærið og byggja þar upp frá grunni alhliða námsbraut á sviði ferðamála.

Herra forseti. Okkur Íslendingum er brýn nauðsyn að auka gjaldeyristekjur okkar með öllum ráðum til þess að ná okkur upp úr feni erlendra skuld. Einn af vænlegri kostum í þeim efnum er efling ferðaþjónustu. Talið er að ferðaþjónusta hafi skilað rúmlega 2 milljörðum kr. í þjóðarbúið á s. l. ári. Um 1100 millj. voru gjaldeyrir sem ferðamenn skiptu hérlendis, um 930 millj. skiluðu sér um flugfélögin. Þetta nemur um 8% af útflutningsverðmætum þjóðarbúsins og fyrir þessum verðmætum unnu 5–6% af mannafla þjóðarinnar.

Auk þess skal svo minnt á að ferðaþjónusta er atvinnuvegur sem býður upp á fjölbreytt störf sem flest virðast henta konum vel. Breyttir atvinnuhættir, tæknivæðing og aukin sérhæfing hefur bitnað í ríkara mæli á konum en körlum og þær eru oftast í meiri hluta atvinnulausra. Það er staðreynd sem ekki má gleymast við uppbyggingu atvinnulífs á Íslandi.

Herra forseti. Mörgum kann að virðast illmögulegt að vinna slíkt verk, sem hér er lagt til, á svo skömmum tíma sem fyrir mitt ár. Sú ætlan okkar flm. sýnir aðeins hversu knýjandi okkur finnst að bregðast skjótt við. Í þessu máli sem öðrum, gildir orðtakið kunna, „vilji er allt sem þarf“. Það kann enn fremur að virðast óhófleg bjartsýni að ætlast til afgreiðslu þessarar till. fyrir þinglok á þessu vori. Ég ætla nú samt að láta þá von í ljós. Okkur þm. er nú þessa dagana ætlað að afgreiða stærri mál en þetta. Yfir okkur er dembt hverju stórmálinu á fætur öðru sem okkur er ætlað að afgreiða fyrir þinglok og hygg ég að stjórnarliðar hafi ekki enn a. m. k. upp á okkur þm. stjórnarandstöðu að klaga hvað það varðar.

Að mínum dómi þarf nefndin, sem fær mál þetta til umfjöllunar, ekki að vefja því mikið fyrir sér. Ég hef þegar fengið ákaflega jákvæð viðbrögð aðila sem vel þekkja til. Ég tel mig ekki brjóta nokkurn trúnað þó ég nefni hér tvo menn, þá Kjartan Lárusson formann ferðamálaráðs og forstjóra Ferðaskrifstofu ríkisins sem hefur lýst stuðningi við þessa till. og Birgi Þorgilsson ferðamálastjóra, en frá honum fékk ég bréf eftir að þessi till. var lögð fram þar sem hann þakkar okkur flm. þetta mjög svo tímabæra frumkvæði eins og hann orðaði það og hann segir hér orðrétt:

Grg. er bæði rétt og markviss og ætti því að vera auðskiljanleg þeim sem á annað borð vilja skilja þýðingu þess að efla þessa arðbæru atvinnugrein.“

Herra forseti. Að lokinni umr. um þessa till. legg ég til að henni verði vísað til hv. atvmn.