22.05.1985
Efri deild: 79. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5550 í B-deild Alþingistíðinda. (4788)

428. mál, gjöld af tóbaksvörum

Haraldur Ólafsson:

Virðulegi forseti. Ég skal ekki vera langorður um þetta mál.

Hv. síðasti ræðumaður hefur rakið flest rök sem mæla gegn því að þetta frv. verði samþykkt og ég vil taka undir flest af því sem hann sagði. Það er augljóst mál að þessi frv. verða ekki greind í sundur. Þessi frv. brjóta á bak aftur margt af því sem reynt hefur verið að gera í tóbaksvörnum hér á landi, ganga algerlega á snið við lög um reykingavarnir sem samþykkt voru á síðasta ári. Ef að lögum yrðu mundu þau ýta undir verðstríð. Það mundi um leið ýta undir aukna notkun tóbaks. Næsta skrefið er vafalaust að tóbakskaupmenn mundu reka upp ramakvein og fara að gera atlögu að reglum um auglýsingar á tóbaki. Við höfum séð hvernig þessi mál ganga fyrir sig. Við höfum orðið vitni að því á undanförnum árum hvernig krafist hefur verið breytinga á lögum í kjölfar lögbrota og ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að tóbaksinnflytjendur muni notfæra sér þá bættu aðstöðu sem þeir fá. ef þessi frv. yrðu að lögum, til þess að koma vöru sinni betur og girnilegar á framfæri.

Hér er verið að brjóta gegn lögunum um tóbaksvarnir. Hér er verið að undirbúa verðstríð á tóbaksmarkaði sem ekki yrði til annars en að auka neyslu tóbaks. Í þriðja lagi ryður þetta brautina fyrir tóbaksauglýsingar. Og í fjórða lagi, og það er kannske ekki minnst um vert, er sá ótrúlegi og mér liggur við að segja ósvífni tvískinnungur sem fram kemur í þessu máli. Það er tekið fram í grg. að það sé ekki hæfilegt fyrir ríkið að annast tóbakssölu þar eð sýnt hafi verið fram á skaðsemi tóbaks. Því í ósköpunum skyldi þá ríkið taka að sér að ýta undir tóbaksnotkun í stað þess að hafa tækifæri, með þeirri einkasölu sem það hefur á tóbaki, til þess að draga úr tóbaksnotkun? Ég held að þessi tvískinnungur, sem er bæði í þessu máli og áfengismálum, og nú síðast í bjórmálinu, sé kannske mesta hættan sem stafar af öllum hugmyndum um að gefa slíka hluti frjálsa.

Ég mun ekki geta greitt þessu frv. atkv. mitt og verði till. hv. minni hl. um að vísa málinu til ríkisstj. felld mun ég greiða atkv. gegn frv.