23.05.1985
Sameinað þing: 86. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5617 í B-deild Alþingistíðinda. (4865)

496. mál, stefna Íslendinga í afvopnunarmálum

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Sem fulltrúi í utanrmn. er ég aðili að þeirri till. um stefnu Íslendinga í afvopnunarmálum sem nefndin flytur sameiginlega. Ég hlýt að lýsa yfir ánægju að samkomulag tókst í nefndinni um þennan tillöguflutning. Tilefni ítarlegra umr. í nefndinni og afstöðu Íslendinga til kjarnorkumála voru þær mörgu tillögur sem fyrir nefndinni lágu um þessi efni frá Sameinuðu þingi og fulltrúar úr öllum þingflokkum stóðu að með einum eða öðrum hætti. Nú tókst betur en í fyrra, þegar ekki náðist samstaða í utanrmn. eða undirnefnd á hennar vegum um þessi stóru mál.

Framlagning slíkrar till., sem væntanlega fær víðtækan stuðning hér í Sþ., sætir vissulega tíðindum. Þar er í fyrsta sinn af hálfu Alþingis tekið í ályktunarformi á afvopnunarmálum og hættunni af kjarnorkuvopnum. Alþingi áréttar þá stefnu Íslendinga að á Íslandi verði ekki staðsett kjarnorkuvopn. Hvatt er til að kannaður verði grundvöllur fyrir samningum um kjarnorkuvopnalaus svæði í Norður-Evrópu sem tæki jafnt til láðs, lagar og loftsins. Utanrmn. er falið að kanna þátttöku Íslands í umr. um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum og skila um það áliti til þingsins á þessu ári. Öryggismálanefnd er falið að taka saman skýrslu um hugmyndir sem uppi eru um afvopnun og takmörkun vígbúnaðar og verði á grundvelli hennar leitað frekari samstöðu meðal stjórnmálaflokkanna um frekari sameiginlega stefnumörkun í þessum málum.

Öllum þessum atriðum ber að fagna. Þau eru spor í rétta átt og lýsa vilja Alþingis í örlagaríkum málum. Þau atriði, sem fram koma í till. og snerta afvopnunarmálin í enn víðara samhengi, eru einnig mikilsverð. Meðal þess sem þar kemur fram er áskorun af hálfu Alþingis til ríkisstj. um að styðja og stuðla að allsherjarbanni við tilraunum, framleiðslu og uppsetningu kjarnavopna undir traustu eftirliti, þ. e. hinni svonefndu frystingu kjarnavopna sem mikið hefur verið til umr., m. a. á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, og jafnframt að hvetja til samninga um að dregið verði úr birgðum kjarnavopna.

Þá er í till. þessari lagt til að Alþingi fagni hverju því frumkvæði sem fram kemur og stuðlað getur að því að rjúfa vítahring vígbúnaðarkapphlaupsins. Þótt hér sé rætt um gagnkvæmni og samninga fagnar Alþingi Íslendinga skv. texta þessarar till. hverju frumkvæði sem fram kemur til þess að rjúfa vítahring vígbúnaðarkapphlaupsins.

Mér þótti, herra forseti, leitt að formaður utanrmn., hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, skyldi sjá ástæðu til þess að víkja hér sérstaklega að mér í sinni framsögu og það í sambandi við útvarpsviðtal sem fram fór við mig og raunar hæstv. utanrrh. af því tilefni að till. þessi var hér fram lögð. Ég ætla hér ekki að hefja neitt túlkunarstríð við hv. formann utanrmn. um texta þessarar till. En ég sé af þessari ástæðu sem hann hefur hér gefið efni til þess að ég endurtaki þau orð sem fram komu í Ríkisútvarpinu af minni hálfu um þetta efni, staðsetningu kjarnavopna á Íslandi. Þar sagði ég, með leyfi forseta:

„Ég vil nefna þar áréttingu af hálfu Alþingis að á Íslandi séu ekki staðsett kjarnorkuvopn. Þessi mál hafa mikið verið rædd hér í þinginu og það hafa komið fram ýmis sjónarmið í þeim efnum, fyrirvarar, m. a. að það gerðist ekki nema með leyfi stjórnvalda. Hér er ekkert slíkt. Hér er áréttuð afdráttarlaust stefna um það að á Íslandi skuli ekki staðsett kjarnorkuvopn.“

Ég nefni það hér að það er engin tilviljun að texti till. er þessi sem hann er. Um það er formanni utanrmn. hv. væntanlega kunnugt.

Herra forseti. Ég ætla ekki að gera hér frekar að umræðuefni þau stóru mál sem tekið er á í þessari þáltill. utanrmn. Þar kemur fram það sem samstaða er um meðal allra þingflokka og það er líklega fleira en menn höfðu gert sér vonir um fyrirfram. Um hitt sem menn greinir á um, svo sem aðild Íslands að hernaðarbandalagi og veru erlends herliðs í landinu, ætla ég heldur ekki að fjölyrða.

Með samþykkt þessarar till. um stefnu Íslendinga í afvopnunarmálum markar Alþingi stefnu af sinni hálfu og því verður að treysta að þeir, sem með framkvæmdavaldið fara, virði þá stefnumörkun. Við Alþb.-menn munum leggja okkur fram um að vinna áfram að því að leita samstöðu með öðrum flokkum hér á hv. Alþingi í afvopnunarmálum. Við hljótum að styðja alla viðleitni til slökunar í heimsmálum og það sem horfir í friðarátt.

Ég vil að endingu, herra forseti. þakka samstarfið í utanrmn. í þessu máli og öðrum mikilsverðum málum sem nefndin hefur náð samstöðu um og eru á dagskrá hér á þessum fundi Sþ. í dag og hafa sum hver þegar hlotið einróma samþykki. Svo vænti ég að einnig verði um þessa till. um stefnu Íslendinga í afvopnunarmálum.