23.05.1985
Neðri deild: 75. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5634 í B-deild Alþingistíðinda. (4900)

363. mál, lagmetisiðnaður

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Það er athyglisvert hvernig þetta mál er hér afgreitt. Hér er verið að afgreiða framlengingu á lögum um Sölustofnun lagmetis og hæstv. iðnrh. talaði fyrir þessu frv. þrautpíndur fyrir nokkrum dögum, en átti tæplega margra annarra kosta völ þar sem ég býst við að ekki sé tryggt að annar aðili geti annast sölu lagmetis nema með einhverjum undirbúningi. Það er hins vegar athyglisvert að langflestir þm. Sjálfstfl. hér í deildinni hverfa í burtu til þess að þurfa ekki að taka afstöðu til þessa máls og hirða þá lítt um hvað verður um fiskafurðir landsmanna. Vegna þess að ég hef nokkra samúð með hæstv. iðnrh., ef honum er einhver alvara að stjórna þessu málum, þá ætla ég að sýna honum þann drengskap að segja já þó að ég hefði kosið að frá þessum málum hefði öðruvísi verið gengið. En ég vil ekki stefna þessu þýðingarmikla afurðasölumáli þjóðarinnar í hreinan voða og því hlýt ég að segja já.