05.11.1984
Efri deild: 9. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 737 í B-deild Alþingistíðinda. (494)

129. mál, umferðarlög

Davíð Aðalsteinsson:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð. Ég ætla ekki að draga í efa að hv. 2. þm. Austurl. hefur nokkuð fyrir sér í því að í einstaka tilvikum hafi menn bjargast vegna þess að þeir voru ekki í bílbelti. Hitt er hygg ég alveg ljóst að samdóma álit allra þeirra sem mest fjalla um öryggi í umferðinni er á þann veg að bílbeltin séu óumdeilanlegt öryggisatriði. Tilvikin séu svo miklu, miklu fleiri þar sem bílbeltin verða bæði bílstjórum og farþegum til bjargar að annað sé óhæfa en reka nokkuð stríðan áróður fyrir því að þau verði notuð.

Hitt kann að vera álitamál í hugum sumra hvort eigi að hafa einhver viðurlög við því að bílbelti eru ekki notuð. Ég var þeirrar skoðunar í fyrra og er það enn að rétt sé að gera ekki undantekningu í þessu efni. Þarna er um lög að ræða og þegar lagabrot á sér stað fylgir því refsing. Það má auðvitað deila um það hvað refsingin sem slík áorkar að einstaklingar fari að lögum. Ég ætla ekki að fara út í þá umr. hér.

En vegna orða hv. 2. þm. Austurl., sem ég vék fyrst að hér, þ.e. að til væru þau tilvik að einstaklingar hefðu bjargast vegna þess að þeir notuðu ekki belti, þá hef ég nýlegt dæmi um bílveltu úti á landi þar sem einstaklingur bjargaðist óumdeilanlega vegna þess að hann var í belti. Svona geta menn sagt tíðindi frá atvikum, í sumum tilvikum í belti og í öðrum ekki.

Hv. þm. Karl Steinar Guðnason vék að því í sinni ræðu að málið hefði ekki fengið framgang í Nd. Reyndar hygg ég að ég hafi tekið rétt eftir að hann vék orðum sínum í þeim efnum til dómsmrh. án þess að hæstv. dómsmrh. hefði hugmynd um hvernig á því hefði staðið. Ég vil geta mér þess til, svo sem eins og hv. þm. Karl Steinar Guðnason hefði kannske getað gert, að skoðanir fara ekki alltaf saman í Ed. og Nd. Ég hygg að hv. þm. hefði auðveldlega getað kynnt sér umr. um þessi mál í deildinni, hafi þær einhverjar orðið.

Ég stóð hér upp fyrst og fremst til að lýsa fylgi mínu við þetta frv. Ég er eindregið fylgjandi notkun bílbelta og ég mundi fremur hyggja að því að auka þá notkun, þ.e. að bílbelti yrðu jafnframt notuð í aftursætum bifreiða. Ég skal játa það að framan af var ég fremur tregur í taumi vegna notkunar á bílbeltum. Ég skal ekkert segja um af hverju það stafaði. En eftir að ég fór að kynna mér þessi mál, bæði það sem sérfræðingar höfðu skrifað um þau og athugað sem og reynslu hins almenna manns og skýringar og frásagnir af atvikum, þá hef ég mjög styrkst í þeirri skoðun minni að bílbelti verði áfram lögleidd og ekki einasta það heldur varði brot á þeim hluta umferðarlaganna jafnframt sektum.