28.05.1985
Neðri deild: 76. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5707 í B-deild Alþingistíðinda. (4986)

342. mál, verslunaratvinna

Frsm. meiri hl. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir áliti meiri hl. fjh.- og viðskn. um frv. til l. um breyt. á lögum nr. 41 frá 2. maí 1968. um verslunaratvinnu.

Nefndin hefur athugað frv. á fundum sinum. Nefndin varð ekki sammála um afgreiðslu málsins og meiri hl. leggur til að frv. verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Í stað orðsins „lausafjármuna“ í ákvæði til bráðabirgða komi: myndbanda.

Undir þetta rita á Alþingi 22. maí 1985: Páll Pétursson, Halldór Blöndal, Friðrik Sophusson, Þorsteinn Pálsson og Kjartan Jóhannsson.

Þessi breyting, sem hér er lagt til að gerð verði, er afleiðing af breytingu sem gerð var í hv. Ed. þar sem þessu frv. var talsvert breytt og það einskorðað við myndbönd í staðinn fyrir að í upphaflegu frv. var talað um miklu víðtækari útleigustarfsemi en á myndböndum. Hv. Ed. komst að þeirri niðurstöðu að það væri óþarflega víðtækt og einbeitti sér að myndböndum, en það láðist að setja orðið „myndbönd“ í ákvæði til bráðabirgða í stað orðsins „lausafjármuna“ og þá breytingu leggjum við sem sagt til að gera hér og nú.