28.05.1985
Neðri deild: 76. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5710 í B-deild Alþingistíðinda. (4990)

342. mál, verslunaratvinna

Frsm. meiri hl. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það er rétt að ítreka að fjh.- og viðskn. Ed. lagði til breytingar á þessu frv. Þetta er efrideildarmál og breytingin var raunverulega gerð þar í Ed. Hins vegar færðum við texta ákvæðis til bráðabirgða til samræmis við áður gerðar breytingar í Ed. Við féllumst á þær röksemdir sem efrideildarnefndin lagði til grundvallar, þ. e. að Verslunarráð Íslands sendi umsögn um þetta mál þar sem það taldi að þessi allsherjarlöggjöf væri of víðtæk þannig að mjög torvelt væri að framkvæma hana. Það væru of mörg tilfelli sem væru alveg á mörkum og það væri erfitt að framkvæma þetta út í ystu æsar hvað væri leiga og hvað væri leiga í atvinnuskyni.

Hins vegar er myndbandaleiga orðin umfangsmikil viðskipti og ég held að menn eigi ekki að þurfa að greina á um að eðlilegt sé að það séu settar reglur um þessi viðskipti. Um bílaleigur er reglugerð og þar þurfa menn að uppfylla ákveðin skilyrði. Það er tiltölulega ný atvinnugrein að leigja út myndbönd og menn hafa ekki þurft nein leyfi, það hefur ekki verið háð neinum reglum. Hins vegar hefur, því miður, komið fyrir að það hafa verið brotnar reglur, t. d. reglur um höfundarétt, önnur lög brotin, ofbeldiskvikmyndir hala verið í trássi við lög hafðar til útleigu og fleira mætti tína til.

Þess vegna er eðlilegt að það sé bundið leyfum að stunda þessi viðskipti. Þá þegar af þeirri ástæðu að það er hægt að svipta menn, sem ítrekað verða brotlegir í þessum viðskiptum, leyfi til þessara viðskipta og þá mega þeir ekki stunda þessa atvinnu. Það er alls ekki að hér sé verið að ráðast með einum eða neinum hætti að þeirri stétt manna sem leigir út myndbönd eða gera henni torvelt fyrir. Margir af þessum mönnum hafa nú þegar verslunarleyfi og þetta er rekið sem þáttur í annarri verslunarstarfsemi fyrirtækjanna. En þetta mundi verða til þess að efla gott siðferði með þeim sem leigja út myndbönd.

Mér finnst að það sé langsótt samlíking að jafna þessu við hestaleigur eins og hv. þm. Guðmundur Einarsson orðaði það að hestaleigur kynnu að hafa hrekkjótta hesta til útleigu. Ég hef ekki trú á því að sú hestaleiga mundi þrífast sem hefði hrekkjótta hesta til útleigu vegna þess að viðskiptavinirnir mundu hvekkjast og það mundi koma illt orð á þá hestaleigu. Að sjálfsögðu er framúrskarandi gott siðferði meðal hestanna og þeirra sem stunda útleigu á hestum og engin ástæða til þess að búast við því að þar séu hafðir einhverjir hrekkjajálkar til útleigu.