05.11.1984
Efri deild: 9. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 741 í B-deild Alþingistíðinda. (500)

85. mál, rannsóknarnefnd til að rannsaka afskipti ráðherra og embættismanna af rekstri ólöglegra útvarpsstöðv

Árni Johnsen:

Virðulegi forseti. Ég verð að biðja um að hv. þm. Ragnar Arnalds sé kallaður í sal hv. deildar. Ég vil gjarnan að hann heyri mál mitt. Þm. er hér í húsinu. (Forseti: Það skal gert.)

Það var ósmekklegt hjá hv. þm. Ragnari Arnalds í umr. á síðasta fundi hv. Ed. að núa formanni Sjálfstfl. því um nasir að hann hefði lýst yfir ánægju sinni með lögbrot, með rekstur útvarpsstöðva gegn landslögum. Hv. þm. kvað sjóræningjastöðvar hafa verið reknar á vegum Sjálfstfl. Hann kvað útvarpsrekstur gegn lögum hafa verið á vegum Sjálfstfl. Slík ummæli eru þvílíkt blaður og staðlausir stafir að ekki er hægt að komast hjá því að mótmæla slíku.

Sjálfstfl. fiskar ekki í gruggugu vatni, eins og hv. þm. fjallar um í sínu máli, og vill ekki vinna á slíkan hátt og það er hans aðalsmerki að fara að lögum. Það er ekki eins og hjá Alþb. sem fiskar í gruggugum sjó og hefur slíkt sem eyrnamerki.

Það er ástæða til þess að vitna til ummæla hv. þm. Þorsteins Pálssonar formanns Sjálfstfl. til þess að sýna fram á staðlausa stafi í ræðu hv. þm. Ragnars Arnalds. Ég held að það hljóti að vera að þm. hafi ekki verið á fundi í Sþ. 11. okt. þegar formaður Sjálfstfl. fjallaði um þetta mál, en allt um það er ástæða til að lesa hér, með leyfi forseta, úr þingtíðindum og vitna í ræðu Þorsteins Pálssonar þar sem segir:

„Þessar kjaradeilur hafa auðvitað haft í för með sér ýmsa röskun í þjóðfélaginu. Ég hygg að einna veigamest sé sú röskun sem hefur orðið á allri upplýsingamiðlun með því að blöð hafa ekki komið út í nokkuð langan tíma vegna verkfalls bókagerðarmanna og síðan stöðvuðust útsendingar Ríkisútvarpsins nokkrum sólarhringum áður en verkfall opinberra starfsmanna tók gildi og þjóðfélagið varð þannig fjölmiðlalaust. Það er fátítt, hygg ég, og sennilega einsdæmi að slík aðstaða komi upp í þjóðfélaginu. Og það er vafalaust að ef þetta ástand hefði varað lengi hefði það magnað spennuna til muna og gert vandamálin erfiðari úrlausnar. Ég hygg að það sé þess vegna ekkert óeðlilegt að borgarar í landinu víðs vegar um land hafi gripið til sinna ráða í því skyni að koma upplýsingum á framfæri.

Það er einnig svo, að í þessum efnum búum við við einokun á tjáningarfrelsi að því er útvarpsrekstur varðar. Það hefur ekki verið úr því skorið hvort þessi einokun stenst þau ákvæði stjórnarskrárinnar sem tryggja mönnum rétt til prentfrelsis. Um það hafa farið fram umræður og hljóta að blandast inn í þær umræður sem hafa orðið um útvarpsmál að undanförnu. En ljóst er að þær aðgerðir sem áttu sér stað á þessu sviði leiddu til þess að Ríkisútvarpið var að hluta til opnað á nýjan leik. Menn geta auðvitað haft mörg orð um hvort starfsemi af þessu tagi sé lögleg eða ólögleg og að sönnu er það svo, að lög bjóða að Ríkisútvarpið hafi einkarétt á útvarpssendingum.“

Þetta er mergurinn málsins. Þarna er undirstrikað að lög eru í þessu landi, en einnig undirstrikað að það er ekki að ástæðulausu að skiptar skoðanir séu uppi um réttmæti þeirra laga, en tekin af öll tvímæli um hver lögin eru.

Það hefur verið sérstætt í sambandi við hinar svokölluðu frjálsu útvarpsstöðvar, sem að mínu mati eru ólöglegar útvarpsstöðvar, það fer ekkert milli mála, að reynt hefur verið að velta Sjálfstfl. upp úr þeim rekstri. Ég er að vísu sammála því að það á að gera meiri kröfur til Sjálfstfl. en annarra flokka og það er gert. En það er furðulegt að slíkur málflutningur skuli eiga sér stað sem átti sér stað í þeim umr. sem hafa verið á undan fundinum í dag.

Það var einnig ótrúlega mikil umhyggja sem hv. þm. Eiður Guðnason bar fyrir Sjálfstfl. í sínum málflutningi, en það er þó ágætt að eiga slíkan hug hjá góðum mönnum og kannske koma þeir í skipspláss fyrr en varir hjá Sjálfstfl. Það er ómögulegt að segja um slíkt. En þarna er fiskað á undarlegan hátt. Þessi málflutningur hefur meira og minna byggst upp sem áróður á ráðh. Sjálfstfl., áróður á flokkinn í heild. Og þetta á sér ekki eingöngu stað á hv. Alþingi. Þetta átti sér stað í Ríkisútvarpinu í fréttum. Það var t.d. athyglisvert að þegar Ríkisútvarpið fjallaði um fréttir af útvarpsstöð í húsi Sjálfstfl., Valhöll, var þar talað um að sendingar hefðu átt sér stað í félagsheimili Sjálfstfl. — orð sem hafa aldrei áður verið notuð um skrifstofu Sjálfstfl. og er ekki ástæða til að nota.

Það er svo sem ekki nýtt að hv. þm. Eiður Guðnason fyllist heilagri vandlætingu og sigli fram á sjónarsviðið með ýmsa glæpi sem hann vill meina að eigi sér stað í þjóðfélaginu. Það má minna á að stundum hefur kappið verið meira en forsjáin. Ég minnist eins dæmis um slík vinnubrögð hjá hv. þm. þegar hann sem fréttamaður sjónvarps, á fyrstu árum sjónvarps, kallaði í sjónvarpssal Þorgeir í Gufunesi, ef ég man rétt. (EG: Nei, nei, nei, alveg rangt.) Ja, hestabóndi var það. (Gripið fram í.) Hestabóndi var það. Málið var að hestar höfðu verið á beit í Engey frekar en Viðey. Á því er ekki meginmunur. En með mikilli og heilagri vandlætingu stillti fréttamaður því upp að nú hefði átt sér stað mikill glæpur, mikil valdbeiting gegn dýrum og níðingsháttur. Síðan dró fréttamaðurinn spýtu upp úr pússi sínu og vildi undirstrika með því að svo væru hestarnir svangir að þeir nöguðu spýturnar. Auðvitað vissu allir, sem eitthvað þekkja til hesta, að slíkt var ekki óeðlilegt því að hestar leita í salt og oft er rekaviður þannig nagaður af hestum. Þetta var dæmi um hvernig átti að krossfesta bónda fyrir glæp, en málflutningurinn var á vitlausum forsendum. (Gripið fram í.) Sá maður sem á hesta er bóndi hvað sem þm. kallar fram í.

Hv. þm. Eiður Guðnason fjallaði einnig um það að nú væru vatnaskil í Sjálfstfl. Auðvitað er Sjálfstfl. búinn þeim eiginleikum að þar gætir flóðs og fjöru, þar er titringur og lífsmark, þar eru skiptar skoðanir. Það er þess vegna sem svo stór hluti þjóðarinnar aðhyllist stefnu þess flokks og fylgir honum. En það er ekki um Sjálfstfl. að segja eins og Alþfl. að þar sé sífellt háfjara og ekki hægt að tala um nein vatnaskil. Þess vegna kom það úr hörðustu átt að hv. þm. Eiður Guðnason skyldi taka upp þessar samlíkingar. (Gripið fram í: Vatnaskil eru á fjöllum.) Já, það er einmitt styrkur Sjálfstfl. að það er fjallað þar um landið og miðin í heild.

Það var ástæða til að undirstrika að hér hefur málflutningur byggst á útúrsnúningum, vangaveltum norður og niður og á þeim nótum kannske eðlilegast að

svara viðkomandi ræðumönnum. En fyrst og fremst fannst mér ástæða til þess að benda hér á staðreyndir þar sem hv. þm. Ragnar Arnalds reisti níðstöng formanni Sjálfstfl., hv. þm. Þorsteini Pálssyni.