28.05.1985
Neðri deild: 76. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5722 í B-deild Alþingistíðinda. (5004)

478. mál, tónlistarskólar

Frsm. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Menntmn. Nd. hefur athugað þetta frv. og er sammála um að mæla með samþykki þess, en en í nál. leggur hún áherslu á að ákvæði 1. töluliðar 1. gr., um að það sé áskilið um þá tónlistarskóla sem fullnægi þeim skilyrðum að njóta fjárhagslegs stuðnings samkv. þessum lögum að slíkir skólar hafi einn fastan kennara auk stundakennara. beri að skilja rúmt, ekki síst úti um land þar sem erfitt getur orðið að fá stundakennara til tónlistarkennslu tímabundið. Þykir n. einsýnt að slík tilvik megi og eigi ekki að draga úr fjárhagslegum stuðningi ríkisins við tónlistarskóla svo fremi að öðrum skilyrðum 1. málsgr. sé fullnægt. Þetta er raunar í samræmi við þá framkvæmd sem verið hefur á fjárhagslegum stuðningi við tónlistarskóla, en eins og ég sagði taldi nefndin nauðsynlegt að árétta þetta atriði sérstaklega.

Þá er við 3. gr. gerð sú brtt. að sveitarfélög skuli hafa tvo mánuði til að fjalla um hvort þau samþykki tónlistarskóla sem þessi lög taki til í stað eins, eins og í frv. segir, og er það í samræmi við þann tíma sem rn. er áskilinn. Þá er lagt til að ný málsgrein svohljóðandi bætist við 3. gr.:

„Skólanefnd. skipuð fulltrúum eignaraðila, fjallar um málefni skólans og fer með fjárreiður hans. Viðkomandi sveitarfélag skal ávallt eiga fulltrúa í nefndinni.“

Þessi grein er samhljóða því sem er í gildandi lögum. Mér er ekki ljóst hvaða ástæður ollu því að hún var ekki tekin upp í frv.. en þeir aðilar sem komu á fund n. voru sammála um að það væri til bóta að áfram yrði gert ráð fyrir skólanefnd við tónlistarskóla.

Í þriðja lagi er lagt til að niðurlagsorð 6. gr. falli niður. Þar er um það rætt að hafi tónlistarskóli notið styrks en sé hættur störfum skuli sveitarfélag varðveita eignir hans þar til eignarinnar er þörf í rekstur annars tónlistarskóla á sama starfssvæði. N. þykir að ekki standi rök til þess að sveitarfélag fái undir öllum kringumstæðum slíkar eignir í hendur án endurgjalds og leggur til að setningin „sem þá fá eignirnar í hendur án endurgjalds“ falli brott.

Að svo mæltu legg ég til að frv. verði samþykkt.