29.05.1985
Neðri deild: 77. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5736 í B-deild Alþingistíðinda. (5049)

397. mál, veitinga- og gististaðir

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Í fjarveru hæstv. samgrh. mæli ég hér fyrir frv, til laga um veitinga- og gististaði á þskj. 1018. Í ágústmánuði 1983 skipaði hæstv. samgrh. nefnd til að endurskoða gildandi lög um veitingahúsa- og gististaðahald o. fl. Þau eru frá árinu 1963 og eru því orðin 22 ára gömul.

Miðað við þær öru breytingar og þá miklu þróun, sem hefur orðið á þessum málum undanfarna tvo áratugi, var full þörf þessarar endurskoðunar. Raunar er orðið nokkuð langt síðan mönnum var ljóst að lög þurfti um starfsemi þessa. Þannig eru lög frá 1963 byggð á eldri lagabálkum frá árinu 1926.

Í nefndinni, sem samdi frv. sem hér liggur fyrir, áttu sæti Lúðvíg Hjálmtýsson þáv. ferðamálastjóri, sem var formaður nefndarinnar, Hólmfríður Árnadóttir sem var framkvæmdastjóri Sambands veitinga- og gistihúsa og Kolbrún Harðardóttir heilbrigðisráðunautur.

Frv. er flutt hér að öllu í óbreyttum búningi frá því frv. sem nefndin skilaði því. Aðeins er skotið inn í 2. gr. ákvæði sem til var í lögum nr. 57/1982 og fjallar um það að nafn á fyrirtæki og/eða atvinnustarfsemi skuli falla að hljóðkerfi og beygingu í íslensku máli. Af hálfu rn. hefur hins vegar verið farið gaumgæfilega yfir efni frv. og lítils háttar breytingar gerðar á framsetningu þess. Þetta nýja frv. er töluvert frábrugðið núgildandi lögum. Þannig er greinum fækkað verulega og felld eru niður ákvæði sem tekin hafa verið inn í önnur lög sem jafnframt ná til veitinga- og gistihúsa. Einnig eru felld úr ákvæði sem ekki eiga heima í lögum um veitingasölu og gististaðahald svo og ákvæði sem vegna breyttra aðstæðna eru orðin úrelt.

Ákvæði þessara laga ná yfir alla sölu á gistingu, hvort heldur er á almennum gististöðum eða einkaheimilum. Einnig ná þau til allrar veitingasölu sem almenningur á aðgang að að undanskildum mötuneytum og stofnunum. Loks ná ákvæðin til leigu á samkomusölum til funda eða skemmtistaðahalds hvort sem er með veitingum eða án þeirra.

Í 8. og 9. gr. er leitast við að flokka þá starfsemi sem undir frv. fellur. Við þessa skiptingu er það fyrst og fremst haft í huga að gesturinn geti gert sér sem gleggsta hugmynd um þá starfsemi og þjónustu sem í boði er og er áréttað að öll sala á veitingum og gistingu, sem almenningur á aðgang að, fellur undir þessi lagaákvæði.

Eins og sjá má á frv. er það frekar einfalt í sniðum enda er gert ráð fyrir því að nánari ákvæði verði sett með reglugerð þar sem reglugerðin er sveigjanlegri og auðveldara um breytingar á henni með breyttum starfsháttum og aðstæðum í þessari atvinnugrein sem er í örri þróun. Sérstaklega er þörf á að ákveða í reglugerð um búnað gististaða og veitingastaða. Ekki er ástæða til að fara fleiri orðum um þetta frv. á þessu stigi máls enda þarfnast margar af þeim 15 greinum sem frv. hefur að geyma ekki sérstakra skýringa.

Ég vil þó vekja athygli hv. þm. á og ljúka máli mínu með því að frv. þetta var lagt fram í hv. Ed. Alþingis og benda þá á brtt. á þskj. 986 sem skýra sig sjálfar. Að svo mæltu, virðulegi forseti, legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og til samgn.