30.05.1985
Sameinað þing: 89. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5763 í B-deild Alþingistíðinda. (5086)

485. mál, málefni myndlistarmanna

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það er auðvitað ekki nema ánægjulegt að fjórir þm. Alþb. hafi tekið upp efni ályktana Myndlistarþings og gert að þáltill. sinni hér í sölum Alþingis, sem gefur tilefni til þess að listamannalaun, almennir styrkir ríkissjóðs til málefna listamanna og listgreina, verði rædd hér á hinu háa Alþingi. Skal ég ekki skorast undan því að taka þátt í þeim umr. eins og tilmæli hafa komið fram um og hefði raunar gert þótt slík tilmæli hefðu ekki borist.

Það er rétt að fyrir tæpu einu og hálfu ári var skipuð nefnd af hæstv. menntmrh. til þess að gera till. um það hvernig unnt yrði að verja betur því fé sem á fjárlögum er varið til styrktar list í landinu og athuga hvort unnt yrði að ná víðtækri samstöðu um það hversu slíkum málum yrði háttað. Þessi nefnd hefur skilað tveim áfangaskýrslum til hæstv. menntmrh. án þess að um beinar till. sé þar að ræða heldur miklu fremur ábendingar og hugleiðingar um þetta viðkvæma mál. Í þeim efnum er nauðsynlegt að hafa fyrst og fremst tvennt í huga, annars vegar eru því að sjálfsögðu takmörk sett hversu miklu fé unnt er að verja til þessa málefnis þótt gott sé og hins vegar stangast á hagsmunir mismunandi listgreina þegar kemur að því að ráðstafa því fé sem Alþingi er reiðubúið að verja til þessa málefnis.

Ég vil fyrst vekja athygli á því að á fjárlögum á þessu ári er varið 2 976 000 kr. til listamannalauna, hinna gömlu listamannalauna, sem veitt eru lögum samkvæmt. Í þeim lögum er kveðið á um að flokkar listamanna eða upphæðir skuli vera tvær, listamönnum skuli skipað upp í tvo flokka og skuli annar flokkurinn fá tvöfaldan styrk hins. Jafnframt er kveðið á um það að þessi listamannalaun skuli veitt án umsókna. Strax eftir að þessi lög voru sett komst sú venja á að þeir listamenn sem lentu í efra flokki skyldu haldast þar uns þeir féllu frá, afþökkuðu launin eða nytu heiðurslauna. Þetta var á þeim tíma að sjálfsögðu umdeild ákvörðun, en sú ákvörðun var tekin og nú á síðustu árum hefur legið í loftinu að listamannalaunin yrðu felld niður og af þeim sökum hefur ekki þótt ástæða til að endurskoða þetta atriði.

Það hefur líka komið fram í skrifum um listamannalaun að fjölmargir listamenn, einkum þeir yngri, telja að þessi skipan mála sé úrelt og vilja leggja listamannalaunin niður. Á hinn bóginn mundi slík ákvörðun vera mjög viðkvæm og skapa sárindi hjá mörgum einstaklingum. Þess vegna hafa ýmsir menn úr röðum listamanna, ýmsir menn í stjórn Bandalags ísl. listamanna, haldið því fram að rétt sé að halda þessum gömlu listamannalaunum nokkuð lengur þannig að ekki er samstaða um það í þeirra hópi að fella þessi gömlu listamannalaun niður. Þó sjá allir að meðan er eins mikil gróska og verið hefur í hinum ýmsu listgreinum á undanförnum árum er ógerningur fyrir nokkurn að fylgjast með öllu því sem gerist og það fé, sem veitt er, er ónógt til að hægt sé að gæta samræmis, sérstaklega í efri flokknum, þar sem menn haldast í honum hvað sem raular og tautar og hvort sem menn eru sammála um það eða ekki að aðrir þeim snjallari hafi komið fram á sjónarsviðið.

Á síðustu árum hefur af hálfu listamanna verið lögð meiri áhersla á það að listamannalaun eigi að vera starfslaun, þau eigi að veita árlega á grundvelli umsókna og er í þessum sjóðum ákveðið að slík starfslaun séu veitt innan tiltekins árs. Ef litið er yfir nöfn þeirra manna sem notið hafa starfslauna, t. d. í Launasjóði rithöfunda, sjáum við fljótt að sömu nöfnin ganga þar aftur og aftur. Starfslaunin hafa því smátt og smátt þróast upp í það að verða að hluta til fastar, árvissar tekjur fyrir lítinn hóp listamanna. Starfslaunin koma því ekki af þeim sökum að haldi þeim ungu mönnum og konum sem eru að láta að sér kveða, stíga sín fyrstu skref, eins og upphaflega hafði þó verið ætlunin.

Þessi þróun á rætur sínar í því að sú krafa og það sjónarmið er mjög ofarlega hjá flestum þeim sem um þessi mál hafa fjallað að rétt sé að miðaldra listamenn og eldri, þeir sem hafa lagt mikið fram til menningar þjóðar sinnar, eigi það inni hjá samfélaginu að fá nokkurn lífeyri árvisst sem þeir geti treyst á og þurfi ekki að sækja um starfslaun eins og hinir yngri listamenn eigi að gera. Þetta er mjög viðkvæmt mál og ef gengið er út frá því að svipað fé renni til þessara mála og verið hefur er engan veginn auðgert að skera úr því hvaða hópur eða hversu stór hópur listamanna eigi að njóta þeirra forréttinda að hafa þannig árvissar tekjur í takt við efri flokk listamannalaunanna gömlu.

Hér í ályktun myndlistarmanna er sett fram ósk um það að stofnaður verði Launasjóður myndlistarmanna og bent á ákveðnar tekjur sem skuli vera þar til grundvallar. Það er einfalt mál í sjálfu sér að stofna sérstakan launasjóð myndlistarmanna, sérstakan launasjóð rithöfunda, sérstakan launasjóð tónskálda og kannske líka almennan starfslaunasjóð og hugsa sér að hver listgrein sé þannig út af fyrir sig og lúti sérlögum að þessu leyti. Eftir sem áður hlýtur sú spurning að vakna með hvaða hætti rétt sé að skipta því fé, sem ríkisvaldið er reiðubúið að láta af höndum til þessara starfslaunasjóða, á milli sjóðanna. Er t. d. rétt að hugsa sér að stjórn Bandalags ísl. listamanna fái árlega ákveðna fjárhæð í hendur frá Alþingi í einhvers konar yfirsjóð og komi sér síðan saman um það hversu því fé skuli skipt milli einstakra listgreina og varpa þannig ábyrgðinni á listamennina sjálfa, að þeir eigi að gera það upp sín á milli hvernig þessu fé skuli skipt annars vegar milli myndlistarmanna, rithöfunda, skálda, tónskálda, dansara, leikara, arkitekta o. s. frv.?

Ég hef bryddað á þessari hugmynd við ýmsa menn úr röðum listamanna og þeir hafa beðið mig að taka þann kaleik frá listamönnunum sjálfum. Þessi aðferð muni ekki og geti ekki gengið upp.

Þá er spurningin: Hvað er þá annað til ráða? Ég hef varpað fram þeirri spurningu hvort rétt sé að stofnaður verði sérstakur yfirsjóður allra starfslaunasjóða sem skipaður sé þingkjörinni stjórn. Síðan fái þessi stjórn í hendur yfirlit um þær umsóknir og þá fjárþörf sem hver listgrein telur sig þurfa að fullnægja þannig að þessi þingkjörna stjórn deili fénu á milli rithöfunda, myndlistarmanna, tónskálda o. s. frv. Þessari hugmynd hefur einnig verið hafnað.

Þá spyr maður: Er það þá vilji listamanna að Alþingi ákveði það út í bláinn hversu mikill hlutur myndlistarmanna skuli vera og hversu mikill hlutur rithöfunda skuli vera? Eins og ég skil þetta mál virðist sú skoðun ráðandi í samtökum listamanna. Þeir vilja ekki telja að sínir kostir séu bestir, þeir að hver listgrein fyrir sig herji á Alþingi og stjórnmálamenn og reyni að ná sínum málum fram en þessi barátta sé ekki háð í heild. Þannig skil ég þessi mál.

Þegar rætt er um að leggja gömlu listamannalaunin niður kemur undir eins upp í hugann að þótt þær fjárhæðir, sem þar er um að ræða, séu ekki háar liggur fyrir að í hópi aldraðra listamanna eru nokkrir, kannske þó nokkrir, sem munar um þetta fé, fólk sem ekki er í lífeyrissjóði og hefur ekki starfskrafta eins og áður til að afla sér tekna með list sinni.

Það er mismunandi í einstökum listgreinum hversu listamennirnir eru staddir gagnvart eftirlaunum og lífeyrissjóðsréttindum. Ég geri t. d. ráð fyrir því að það sé mjög algengt um flesta tónlistarmenn að þeir hafi kennt um lengri eða skemmri tíma og eigi þess vegna aðild að Lífeyrissjóði opinberra starfsmanna. Svipaða sögu er að segja um marga rithöfunda. Á hinn bóginn hygg ég að það sé miklu fátíðara að myndlistarmenn njóti slíkra réttinda.

Skv. íslenskum lögum eiga allir menn aðild að lífeyrissjóði og hafa listamenn því fullan rétt á því að greiða til Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda og hefur það mjög verið rætt í nefndinni og af menntmrh. að sá háttur skuli upp tekinn að í þennan sjóð verði greitt af starfslaunum listamanna eftirleiðis. Hins vegar yrðu listamenn að greiða bæði hlut sinn og hlut vinnuveitandans eins og aðrir sjálfstæðir atvinnurekendur, vil ég segja, að því marki sem þeir afla tekna án þess að starfslaun komi til, sem yrðu þá um 10% af þeim áætluðu tekjum sem þeir mundu gefa upp.

Það er einfalt út af fyrir sig að segja: Nú skulum við gefa listamönnum kost á því og greiða fyrir því að þeir geti greitt í Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda og við skulum beita okkur fyrir því að með starfslaunin verði farið eins og með önnur laun að þessu leyti. En vandi listamanna er ekki leystur með því vegna þess, eins og ég sagði áðan, að nokkur fjöldi listamanna er þegar kominn á þann aldur að þeir hafa enga slíka tekjutryggingu í sinni elli. Það er þess vegna mikil spurning hvort ekki sé rétt að verja hinum gömlu listamannalaunum til þess að greiða, ég vil segja, tekjuuppbót eða lífeyrisuppbót handa þeim listamönnum öldruðum sem engin slík réttindi hafa. Ég hef því miður engar upplýsingar um það um hversu stóran hóp er að ræða. Ég hef farið fram á það við stjórn Bandalags ísl. listamanna að mér yrðu látnar slíkar upplýsingar í té og mér er sagt að verið sé að vinna að því. Ég hitti í gær tvo menn úr stjórn Bandalagsins og þeir sögðu mér að verið væri að vinna að því að afla þessara upplýsinga.

Inn í þetta mál varðandi myndlistarmenn kemur svo sérstaklega Listskreytingasjóður ríkisins sem stofnaður var fyrir 2–3 árum, en mjög lítil reynsla er enn komin af þeim sjóði. Málefni myndlistarmannanna hljóta að koma til skoðunar sérstaklega í tengslum við þann sjóð og ég geri ráð fyrir því að ekki sé ágreiningur um það milli mín og þeirra.

Í þessari þáltill. er rætt um það að samin verði drög að lagafrv. sem tryggi betur en nú er gert að myndlistarmenn fái notið réttar síns skv. höfundalögum. Er þá haft í huga að rétt sé að myndlistarmenn fái nokkra þóknun fyrir þau listaverk sem séu til sýnis á opinberum vettvangi. Ég get vel tekið undir það að nauðsynlegt sé að athuga þessa hugmynd og vil í því sambandi einnig taka fram að ég tel að skáldum og rithöfundum sé ekki greidd nægileg þóknun vegna þeirrar notkunar sem er á bókum þeirra í almenningsbókasöfnum eða í skólum.

Tökum dæmi af listamönnum sem hafa lagt mikið af mörkum til menningar þjóðar sinnar. Ég vil taka sem dæmi Hannes Pétursson skáld. Ég tel engan vafa á því að slíkur maður eigi að fá þá þóknun fyrir notkun á sínum verkum að um hana muni þegar hann gerir upp sínar árstekjur. Því fer þó víðs fjarri að svo sé ef skoðað er hvaða greiðslur renna úr Rithöfundasjóði Íslands til einstakra listamanna. Ég tel að það mál verði allt að taka til nýrrar endurskoðunar og þá í tengslum við þá hugmynd að myndlistarmenn fái nokkrar tekjur ef verk þeirra eru til sýnis í listasöfnum eða sett upp í opinberum stofnunum. Erlendis munar rithöfunda og myndlistarmenn um þetta þar sem þessi háttur hefur verið upp tekinn og þá er ég auðvitað að tala um þá sem fram úr skara.

Ég vil mjög taka undir það að það er ekki nema sjálfsagt að sýna Sigurjóni Ólafssyni þann sóma sem list hans á skilið. Ég vil líka taka undir með hv. frummælanda að það er ánægjulegt að sveitarfélög skuli í meira mæli en áður verja fé til myndlistarmála, og ekki aðeins myndlistarmála heldur menningarmála yfirleitt. Er sjálfsagt að reyna að örva þá starfsemi. Ég dreg ekki úr því.

Hér er talað um að Listskreytingasjóðurinn fái fjármagn sem honum er ætlað að lögum og loks er minnt hér á tillögugerðir myndlistarmanna á liðnum árum. Í því sambandi vil ég minna á það að fyrir nokkrum árum var samþykkt till., sem við fluttum nokkrir þm. Sjálfstfl., um það að athuga sérstaklega hversu bæta mætti hag myndlistarmanna. Fólst í okkar tillögugerð m. a. að felld yrðu niður aðflutningsgjöld á efni til listsköpunar. Ég man ekki betur en það hafi verið gert að vissu marki í tíð síðustu ríkisstj. en fyrir liggur að ríkisstj. hefur ákveðið — um það liggur fyrir yfirlýsing, bæði frá hæstv. menntmrh. og hæstv. fjmrh. — að inn í þá endurskoðun á tollalögum, sem nú er í undirbúningi og hugsað var að tæki gildi um næstu áramót, kæmu aðföng til myndlistar og hefur verið ákveðið að fella niður tolla af slíkum aðföngum.

Ég veit ekki, herra forseti, hvort ástæða sé til að fara mörgum orðum um þetta á þessu stigi. Það kemur mjög til álita hvernig hið opinbera getur nýtt og notað margvísleg húsakynni í opinberri eigu víðs vegar úti um landið þannig að þau geti nýst myndlistarmönnum. Við getum líka sagt: öðrum listamönnum eða fræðimönnum. Ég er líka sammála því að ástæða sé til að huga að því hvernig unnt sé að auðvelda myndlistarmönnum að hafa vinnustofur-og þá þannig að þessar vinnustofur gangi frá kynslóð til kynslóðar myndlistarmanna en á það hefur nokkuð skort hér á landi að svo hafi orðið.

Að síðustu vil ég svo aðeins vekja athygli á því að við getum gert meira en gert hefur verið um hríð til að kynna íslenska myndlist erlendis. Það er enginn vafi á því að ef nýtt yrðu þau persónulegu sambönd, sem ýmsir fulltrúar okkar í sendiráðum erlendis hafa, skapaðist möguleiki til þess fyrir íslenska myndlistarmenn að sýna á sýningum erlendis og mundi það geta orðið þeim mikill styrkur.

Ég vil að síðustu aðeins segja það að um leið og um hægist höfum við ráðgert að hittast að nýju, sú nefnd sem hæstv. menntmrh. skipaði. Við höfum gert ráð fyrir því að hitta þá menn aftur úr stjórn Bandalags ísl. listamanna sem hafa ráðrúm til þess að koma til fundar og gera enn tilraun til þess að leggja fram ákveðnar en gert hefur verið tillögur sem lúta að því að það fé opinbert, sem fer til menningarmála, nýtist betur en verið hefur.