30.05.1985
Sameinað þing: 89. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5767 í B-deild Alþingistíðinda. (5087)

485. mál, málefni myndlistarmanna

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Það má segja að ánægjulegt er að fá hér til umr. ályktun Myndlistarþings í formi þáltill. Það gefur tilefni til þess að víkja að einstökum þáttum ályktana Myndlistarþings og reyndar örfáu sem þeim tengist.

Hv. 2. þm. Norðurl. e. hefur nú gert ítarlega grein fyrir starfi þeirrar nefndar sem nú fjallar um laun listamanna, m. a. þeim þætti sem ég tel mjög mikilvægan einnig og varðar lífeyrisréttindi listamanna, en að baki því verki þarf að liggja ítarleg könnun. Það þarf að afla mikilla upplýsinga til að hægt sé að gera glöggar og skynsamlegar tillögur um það efni. Þó að það sé ljóst að bæði eru málin flókin og svo líka viðkvæm eins og oft er þegar meta þarf og vega að einn hljóti og annar ekki er engu að síður hér um mál að ræða sem við verðum að taka fastari tökum og taka á af meira samræmi en verið hefur.

Þetta Myndlistarþing, sem við höfum rætt hér um, hafði yfirskriftina „Myndlist sem atvinna“. Það leiðir hugann að því sem ég tel vera eitt stærsta hagsmunamál myndlistarmanna nú á dögum, þ. e. hvernig á að gera myndlistina að stærri hlut í öllu atvinnulífinu, hvernig á að gera myndlistina að eðlilegum þætti í atvinnulífi þjóðfélagsins og það er einmitt það atriði sem menn hafa e. f. v. betri vitund um nú á síðustu tímum en áður var. Til að taka eitt atriði sem hefur beina þýðingu í þessu sambandi, þá vil ég nefna listhönnun sem verður æ mikilvægari í allri iðnaðarframleiðslu nútímans, hvort heldur er um smáa skrautgripi að ræða, blómavasa og kertastjaka, annars vegar ellegar þá þungavinnuvélar og skip hins vegar. Þetta atriði skiptir ótrúlega miklu máli fyrir verðmætasköpun þjóðfélaganna. Þetta er um myndlistina sem beinan þátt í atvinnulífinu.

Menn hafa líka verið að vakna æ betur til vitundar um það víða um lönd hvernig umbreyting verðmætanna, til þess að menn eigi hægara með að nota þau sér til lífsframfæris, verður auðveldari þegar listinni er teflt fram. Það hljómar kannske einkennilega að það sé auðveldara að selja fisk eða kjöt ef við kynnum list, myndlist, tónlist, leiklist, danslist eða bókmenntir. En sú þjóð, sem nær miklum árangri á menningarsviðinu og listasviðinu, er líka líkleg til að ná miklum árangri almennt í þjóðlífinu og í slíkum löndum er betra að búa en þar sem menn koma ekki auga á verðmætin og lífsnautnina í listinni.

Því nefni ég listhönnunina að hún verður æ mikilvægari þáttur í menntun myndlistarmanna. Gert er ráð fyrir sérstakri deild í hönnun, í listiðnaði, í hinum nýja myndlistarháskóla sem ég von að komist á Laggirnar ef Alþingi samþykkir frv. sem fyrir því liggur um myndlistarháskóla. Ég sagði þegar ég mælti fyrir því frv. í hv. Ed. nú í vetur að ég gengi út frá því að hv. alþm. þyrftu tíma til að velta því fyrir sér ef breyta ætti slíkum skóla sem Myndlista- og handíðaskólanum í skóla á háskólastigi. En einmitt þetta atriði er, að því er fjölmargir myndlistarmenn telja, mikið hagsmunamál myndlistarmanna. Það er mál sem horfir til framtíðar og horfir til þess að skapa myndlistinni enn hærri sess í öllu þjóðlífinu en verið hefur og er þó ekki að neinu leyti úr því dregið hverju máli myndlistin hefur skipt í okkar landi.

Ef ég vík að einstökum atriðum beinlínis úr ályktun Myndlistarþingsins hafði hv. 2. þm. Norðurl. e. gert grein fyrir hvernig mál stæðu um fyrsta atriðið, athugun á stofnun launasjóðs og hvaða atriði þyrftu að liggja fyrir til þess að unnt yrði að taka á því máli á raunhæfan hátt. Í öðru lagi hafði hv. þm. gert grein fyrir því hvernig framkvæmd aðildar að Flórens-sáttmála yrði, en við samþykktum, eins og hv. þm. muna, bæði þál. og frv. um það efni í fyrra. Nú er að hlaupa af stokkunum ákvörðun um að stækka hlut tækja til myndlistar í þeim vöruflokkum sem verða tollfrjálsir eftir aðild að Flórens-sáttmála. Það atriði á vafalaust eftir að hafa mjög mikil bein áhrif fyrir myndlistarmenn á þann veg að það dregur úr kostnaði við gerð listaverka þeirra.

Í þriðja lagi er nefnt að samin verði drög að lagafrv. sem tryggi betur en nú er gert að myndlistarmenn fái notið réttar síns skv. höfundalögum. Eins og hv. þm. er sennilega kunnugt starfar á vegum menntmrn. fastanefnd um höfundarétt sem vinnur mjög mikilvægt og vandasamt starf. Þessi nefnd hefur einmitt þetta málefni til meðferðar. Þetta er mjög vandasamt. Það segir sig sjálft þegar e. t. v. þarf að taka afstöðu til — eins og einhverjir hafa nú sagt að nokkru leyti að gamni sínu en því gamni fylgir nokkur alvara — hvernig eigi að haga greiðslum til höfunda listaverka sem standa á torgum við fjölfarin stræti í milljónaborgum. Á að haga höfundaréttargreiðslum öðruvísi en fyrir það að horfa á listaverk sem eru í úthverfum eða þá í fámennari borgum? Af þessu tagi eru þau efni sem þarf m. a. að taka afstöðu til.

Dæmi sem hins vegar er e. t. v. auðveldara að afmarka er einmitt um listaverk sem prentaðar eru myndir af í bókum eða í kvikmyndum eða myndböndum. En allt þetta er þáttur í hinni flóknu þróun höfundaréttar nú á tímum sem einmitt hefur breyst með nokkrum hætti og er í umbreytingu vegna breyttrar tækni. Þetta atriði er mikilvægur þáttur sem einmitt er til athugunar og umfjöllunar í höfundaréttarnefnd.

Í fjórða lagi er nefnt hér að ákveðið verði hvernig ríkið framvegis styður Listasafn Sigurjóns Ólafssonar. Ég vil skýra frá því að nú snemma í vetur var þetta mál sérstaklega rætt í menntmrn. og fyrir lágu allsnemma í vetur drög að samningi um þetta safn. Hugsunin er sú að tryggt verði að safnið verði þar sem bústaður Sigurjóns heitins var og listaverkin verði á sínum stað í Laugarnesi í námunda við þær grágrýtisklappir sem þau eru svo skyld og raunar unnin úr. Hugsunin er að þarna gæti orðið til frambúðar safn eitthvað á svipuðum grundvelli og t. d. Ásgrímssafn, en aðild ríkisins að samningi um safnið í vetur stóð að nokkru leyti á fjárframlagi ríkisins eða ákvörðunum um það. En ég vil skýra frá því að það liggur fyrir nú og er nokkuð síðan að aukafjárveiting hefur einmitt fengist til þess að unnt sé fyrir ríkið að standa að því að tryggja tilvist safns Sigurjóns Ólafssonar. Þetta er mjög mikilvægt og sameiginlegt hagsmunamál ríkis og Reykjavíkurborgar. Heyrt hef ég fleygt hugmyndum um að áhugi sé hjá sumum listamönnum á því að framtíðarstaður myndlistarháskóla kunni að verða valinn í námunda við þetta safn inni í Laugarnesi. En um það liggur engin ákvörðun fyrir. Þetta er einungis nefnt til að sýna fram á hve mikilvægt menn telja fyrir myndlistina í landinu að safninu sé tryggður frambúðargrundvöllur þar sem það nú er.

Sjötta atriðið er að Listskreytingasjóður fái það fjármagn sem honum er ætlað skv. lögum. Nú er það svo að mjög hefur dregið úr nýframkvæmdum á vegum ríkisins á síðasta ári og framlagið til Listskreytingasjóðs er í hlutfalli við nýbyggingar á vegum ríkisins. Þess vegna er það að framlagið er ekki hærra í ár en raun ber vitni, en það mun ekki vera fjarri lagi að núna sé það í samræmi við það sem vera á eftir lögum og er það kannske meira en mátt hefur segja á stundum áður. Við könnumst við það þegar ákvæði um Listskreytingasjóð hefur verið breytt með t. d. lögum um efnahagsráðstafanir eða í einhverjum af þeim bandormsfrv. sem afgreidd hafa verið á seinustu vikum þings. En núna voru nýframkvæmdirnar ekki meiri en svo að til þessa kom ekki. Að sjálfsögðu er það mjög mikilvægt að þessum sjóði sé einmitt tryggt þetta fjármagn.

Nú vitum við um ýmsar opinberar byggingar sem notfærðu sér lagaákvæðið um prósentustig af byggingarkostnaði til listskreytinga eftir ákvörðun þeirra sem að byggingunum stóðu. Það hefur vissulega haft mikla þýðingu og verið bæði augnayndi þeim sem um þær byggingar ganga og til uppörvunar bæði þeim sem þar starfa svo og listamönnunum. Það atriði dregur alls ekki úr því að skynsamlegt sé að láta Listskreytingasjóð starfa með þeim hætti sem hann gerir, en til þess þarf hann vissulega það fjármagn sem lögin ætlast til.

Þessi atriði, herra forseti, vildi ég nefna. Ég vildi geta þess líka að það hefur verið komið á nokkuð glöggu skipulagi á fyrirkomulag myndlistarsýninga erlendis, þátttöku íslenskra listamanna í ýmsum sýningum erlendis. Vona ég að það geti verið myndlistinni lyftistöng og kynni okkar menningu á þann veg sem okkar landi verður til sóma og framdráttar.

Hér er í grg. rætt um að þörfum fyrir vinnustofur hafi lítið sem ekki verið sinnt. Nú er að koma á laggirnar suður í Hafnarfirði vinnustofa sem gefin er af einstaklingi og er eitt af þeim góðu fordæmum sem einstaklingar gefa oft til eflingar listinni og uppörvunar listamönnum. Slíkar vinnustofur geta þurft opinberan styrk. Það er um norrænar gestavinnustofur að ræða líka sem við Íslendingar tökum þátt í og þátttaka í slíkum vinnustofum hefur verið aukin nú á síðasta og þessu ári en meira mætti þó af því vera. Ég hygg þó að sú viðleitni sem uppi er höfð sé af hinu góða og leiðir vonandi til frekari starfsemi af því tagi.

Herra forseti. Ég vildi láta þetta duga sem nokkrar skýringar á því hvað það er af því sem nefnt er í þessari till. sem þegar er annaðhvort komið í framkvæmd eða unnið að nú á vegum ríkisstj.