31.05.1985
Neðri deild: 79. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5793 í B-deild Alþingistíðinda. (5132)

470. mál, Þroskaþjálfaskóli Íslands

Frsm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. heilbr.- og trn. hv. deildar um lagafrv., sem komið er frá Ed., um Þroskaþjálfaskóla Íslands. Ljóst er að þetta mál hefur fengið vandaða meðferð hjá Ed. Þar voru gerðar nokkrar breytingar á frv. sem við vorum sammála um í nefnd okkar í Nd. með þeirri undantekningu þó að skiptar skoðanir voru um 5. gr. frv. Við vorum þó öll sammála um það í nefndinni að mæla með samþykkt þess og vinna að því að það næði fram á þinginu. Þrír nm. skrifuðu þó undir með fyrirvara og áskildu sér rétt til að flytja eða fylgja brtt.

Nú hafa þegar komið fram brtt. frá nokkrum hv. þm., en þeir hafa jafnframt lýst því yfir að þeir dragi þessar brtt. til baka til 3. umr. m. a. með hliðsjón af því að ég hef boðað til fundar í nefndinni n. k. mánudag til þess að freista þess að ná samkomulagi um þær brtt. og samræma skoðanir þeirra sem hafa látið álit sitt í té á þessu máli.

Í athugasemdum við lagafrv. er forsögu þessa máls lýst mjög vel og einnig því af hverju nú er talið nauðsynlegt að flytja þetta frv. Þar kemur m. a. fram að mikið af námsefni og fyrirmyndum að námsháttum er fengið frá Bretlandi og Bandaríkjunum, ekki síst svokallaðri þrepaþjálfun sem þykir í dag nauðsynleg kunnátta þeirra er ætla sér að stunda þroskaþjálfun. En það er einmitt á grundvelli þessa og þeirra krafna, sem lagðar eru fram fyrir væntanlega nemendur um inntöku í skólann, sem skiptar skoðanir hafa verið í nefndinni.

Við erum sammála um það, herra forseti, í heilbr.- og trn. að mæla með samþykkt frv. eins og það liggur fyrir nú við 2. umr. málsins og að vísa því til 3. umr.