04.06.1985
Sameinað þing: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5841 í B-deild Alþingistíðinda. (5191)

434. mál, atvinnumál í Hafnarfirði

Fyrirspyrjandi (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég hef fyrir allnokkru borið fram fsp. sem er á þskj. 723, 434. mál, varðandi atvinnumál í Hafnarfirði og úrbætur í þeim efnum og beint þessari fsp. til hæstv. forsrh.

Vafalaust er þm. kunnugt um að atvinnuleysi í Hafnarfirði hefur verið mjög tilfinnanlegt á undanförnum misserum og það svo mjög að tala atvinnuleysisdaga í Hafnarfirði frá síðasta ári og fram eftir þessu ári var 50% meiri en landsmeðaltal. Sjálfsagt er hv. þm. líka kunnugt um að í marsmánuði voru 155 skráðir atvinnulausir í Hafnarfirði á sama tíma og 170 voru skráðir atvinnulausir á höfuðborgarsvæðinu. Þetta svarar til þess að atvinnuleysi í Hafnarfirði hafi verið átta til tíu sinnum meira en hér í Reykjavík. Þetta er vitaskuld gjörsamlega óviðunandi. Sem betur fer hefur nokkuð ræst úr í þessum efnum seinustu mánuðina tvo. en allt stendur það völtum fótum og viðbúið að atvinnuleysi geti aukist mjög aftur.

Ég held að það fari ekki milli mála að þetta atvinnuleysi megi fyrst og fremst rekja til þess að Bæjarútgerð Hafnarfjarðar var meira og minna lokuð á síðasta ári og algjörlega það sem af er þessu ári vegna rekstrar- og greiðsluerfiðleika, a. m. k. að miklu leyti. Nú var það og er kannske enn áform bæjarstjórnar Hafnarfjarðar að endurreisa það fyrirtæki og vitaskuld er það brýnt miðað við atvinnuástandið almennt í Firðinum og ekki síst með tilliti til þess að það má nánast segja að nú sé einungis eitt atvinnufyrirtæki eftir í Hafnarfirði sem starfar í fiskvinnslu.

Af þessu tilefni og m. a. vegna þess að verkalýðsfélögin í bænum sendu ríkisstj. erindi rétt fyrir miðjan apríl þar sem þessi mál voru reifuð og því beint til ríkisstj. að hún tæki atvinnuástandið í Hafnarfirði til meðferðar, þá hef ég leyft mér að bera fram þá fsp. sem ég vitnaði til hér áðan, en hún er á þessa leið:

Í fyrsta lagi er spurt: Hefur ríkisstj. tekið til umfjöllunar hið alvarlega atvinnuleysi í Hafnarfirði, sbr. síðustu atvinnuleysistölur í bænum (þ. e. tölurnar í marsmánuði enda er þessi fsp. lögð fram upp úr miðjum apríl) og nýlega ályktun verkalýðsfélaganna þar sem áskorun er beint til ríkisstj. um úrbætur?

Í öðru lagi er spurt: Hafa ríkisstj. eða einstökum ráðh. borist einhverjar málaleitanir frá bæjarstjórn Hafnarfjarðar varðandi aðgerðir til að bæta atvinnuástand þar og þá einkanlega varðandi stöðu og rekstur Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar?

Í þriðja lagi er spurt: Hefur ríkisstj. einhver áform á prjónunum til úrbóta í atvinnumálum í Hafnarfirði? Þótt aðstæður hafa að ýmsu leyti breyst frá því að fsp. var lögð fram tel ég fyllstu ástæðu til að fá svör við þessum fsp. Ég hefði þá gjarnan óskað þess. þegar hæstv. forsrh. svarar 2. lið fsp., að hann gerði grein fyrir því hvaða málaleitanir hafi borist frá bæjarstjórn Hafnarfjarðar og hver viðbrögð ríkisstj. hafi verið við þeim málaleitunum.